Birt á Moggablogginu 19.4.2007 Efnisflokkur: Menning
Það er búið að vera hálf kómískt að hlusta á mæta menn tala um menningarverðmætin sem voru að glatast með eyðileggingunni á Austurstræti 22. Í mínum huga glötuðust þessi verðmæti fyrir löngu, þegar leyft var að breyta húsinu m.a. í Karnabæ og síðan í ótal aðrar verslanir, útsölumarkaði og skemmtistaði. Nú er tækifærið til að gera það sama við Austurstræti 22 og gert var við Torfuna á sínum tíma, þ.e. byggja húsið upp í upprunalegri mynd og setja þar inn starfsemi sem hentar húsinu. Það getur verið skemmtistaður, en það getur líka verið margt annað.
Það er kannski hart að segja, en húsið sem brann var frá síðustu öld, ef undan eru skilin tvær eða þrjár sperrur og eldstæði. Líklegast bjargaðist eldstæðið og kannski er hægt að finna sperrurnar í brakinu. Ef sperrurnar finnast, þá væri upplagt að setja þær utan á nýjar sperrur sem óhjákvæmilega verða reistar.
Gerum "Höll Hundadagakonungs" hátt undir höfði og byggjum húsið upp í upphaflegri mynd. Það þýðir að hinar ýmsu síðari tíma tengibyggingar verða að víkja, s.s. gamli leigubílaskúrinn, sem undirþað síðasta hýsti Fröken Reykjavík, og byggingin í sundinu að Nýja bíó húsinu.