Þórustaðanáman - Ljótasta sár í náttúru landsins

Birt á Moggablogginu 14.7.2007 - Efnisflokkur: Náttúruvernd

Ég var að koma úr nokkurra daga ferð í kringum landið.  Ferðin hófst á fjögurra daga fótboltamóti á Akureyri, en síðan var farið austur um land og suður og börnunum sýndar í fyrsta sinn nokkrar fegurstu náttúruperlur landsins.  Ekið var suður fyrir Mývatn, farið í Ásbyrgi, tjaldað í Atlavík, farið upp að Kárahnjúkum og Snæfelli, farið um suður firði Austfjarða og svona mætti lengi telja. 

Það er óhætt að segja að náttúra landsins er stórbrotin og fögur.  Yfirleitt hefur okkur tekist að ganga vel um landið, þó svo að haugar vegagerðarmanna stingi óneitanlega illa í stúf á víð og dreif um landið.  Eitt mannanna verk skar þó augu mín verr en nokkuð annað.  Það voru ekki framkvæmdirnar við Kárahnjúka, sem ég er vissulega ekki sáttur við, en við komu á staðinn, þá fór einhvern veginn mun minna fyrir þessari framkvæmd, en ég hafði búist við.  Og það voru ekki hinar stórfurðulegu háspennulínur sem liggja frá Fljótdalsvirkjun niður á Reyðarfjörð og auðveldlega hefði verið hægt að leggja í jörð.  Nei, það sár í náttúru landsins, sem mér fannst ljótast (og ég furða mig sífellt meira á hvers vegna þetta er yfirhöfuð leyft), er Þórustaðanáman í Ingólfsfjalli.  Það er með ólíkindum hvað þetta sár er hræðilegt.  Af hverju hafa ekki umhverfisverndarsinnar hafið upp raust sína og reynt að hindra að þessi eyðilegging haldi áfram?  Af hverju þarf náttúrueyðing að eiga sér stað uppi á hálendinu til að menn láti í sér heyra?  Hvað þarf eyðileggingin að ganga langt þar til hægt verður að stöðva hana?  Hvar er Ómar eða öllu heldur hvar var Ómar þegar sú ósvinna átti sér stað að menn fóru upp úr gömlu námunni?  Er ekki hægt að stoppa náttúrueyðinguna áður hún verður algjör?  Til að glöggva sig betur á breytingunni sem orðið hefur á Ingólfsfjalli undanfarin ár má skoða grein af vefnum Suðurland.net.  Þó ég hafi ekki verið fylgjandi eignaupptökuúrskurðum í tengslum við þjóðlendumálin, þá bíð ég spenntur og vona innilega að Ingólfsfjall verði í heild gert að þjóðlendu til að bjarga því sem bjargað verður af fjallinu.