Trúarbragðafordómar í fréttaflutningi

Birt á Moggablogginu 22.6.2007 - Efnisflokkur: Fordómar, Trúarbrögð

Í tæp sex ár hefur mátt heyra á nær hverju degi að hinir og þessir hópar múslima hafi framið hin og þessi voðaverk út um allan heim, en þó aðallega í Miðausturlöndum.  Þessi tilvísun í trúarbrögð, ef gerendur eru múslimir (eða hindúar), hefur verið mjög áberandi í innlendum fjölmiðlum, þó svo að nákvæmlega sama frétt á BBC eða Sky er ekki með neina tilvísun í trúarbrögð viðkomandi.  Nú, ef viðkomandi er ekki múslimi, þá er ekki minnst á að hann sé gyðingur eða kristinn.  Ég t.d. tók ekki eftir því þegar Ísraelar réðust af mikilli heift á Líbanon fyrir 2 árum, að þar færu gyðingar.  Eða þegar hersveitir NATO felldu í misgripum 25 almenna borgara í Afganistan, að þar færu kristnar sveitir.  Eða í mótmælum græningja og umhverfisverndarsinna víða um heim að þeir séu kristnir, gyðingar eða múslimir.

Vil ég skora á blaða- og fréttamenn að hætta þessum tilvísunum í trú herskárra manna.  Það getur verið að í sumum tilfellum geri trúin menn öfgafulla, en ég held að það séu fyrst og fremst aðstæður þeirra sem gera það.  Svo kallaðir Íslamistar í Líbanon hafa mátt dúsa í flóttamannabúðum í þrjá og upp í fimm áratugi.  Mér þykir það bara gott, að þeir hafi ekki gripið til vopna fyrr.  En þeir gera það ekki trúar sinnar vegna, heldur vegna þess að þeim er gert ómögulegt að lifa eðlilegu lífi og fá ekki að snúa aftur til heimalands síns.

Vissulega vandast málin þegar gera á upp á milli trúarhópa í Írak, en má ekki bara sleppa því að segja að viðkomandi sé síhji eða súníti.  Og ef það er ekki hægt, er ekki a.m.k. hægt að sleppa því að tala um öfga og trú í sömu setningunni.  Af hverju eru menn öfgamenn af því að þeir eru að berjast gegn því sem þeir líta á að séu innrásaraðilar.  (Ég er ekki að taka afstöðu, heldur sýna skilning á afstöðu þeirra.)  Voru krossfararnir þá öfgafullir kristnir menn, af því að þeir fóru í herför til að ,,frelsa" ,,landið helga".  Eða eru það bara þeir sem eru af hinum trúarbrögðunum sem eru öfgamenn.  Ég man t.d. ekki eftir því að í deilunni á Norður-Írlandi hafi mikið verið að tala um öfgafulla kaþólikka eða mótmælendur.  Nei, þeir voru nefndir herskáir kaþólikkar eða mótmælendur. 

Mennirnir, sem flest bendir til að hafi staðið að baki hryðjuverkunum 11. september 2001, voru vissulega allir (að því ég best veit) Íslamstrúar, en þeir voru fyrst og fremst frá tilteknum löndum eða heimshluta.  Nokkrir þeirra höfðu meira að segja búið í Þýskalandi í nokkur ár.  Ég hef hvergi séð í heimildum/heimildarmyndum að þeir hafi framið glæpi sína vegna trúar sinnar.  Þeir gerðu það, miðað við flestar heimildir, vegna þess að þeir töldu Bandaríkin bera ábyrgð á gerðum Serba í Bosníustríðinu og sinnuleysi Bandaríkjanna í málefnum Palestínu eða eigum við að segja einhliða stuðningi Bandaríkjamanna við Ísraela.  Þeir gerðu það af því að hugsjónir þeirra buðu þeim að gera það, vegna þess að þeir voru haldnir siðblindu og mannfyrirlitningu.  Vissulega sóttu þeir styrk í trú sína, en það gera líka Bandarískir hermann í Írak.  Við megum heldur ekki gleyma því að meðal látinna 11/9 var fólk af öllum trúarbrögðum, enda var árásinni ekki beint að andlegum trúarbrögðum heldur veraldlegu tákni kapitalismans.  Afleiðing siðblindu og mannfyrirlitningu þessara einstaklinga leiddi af sér ennþá verri siðblindu og mannfyrirlitningu tveggja þjóða/þjóðarleiðtoga sem létu sært stoltið leiða sig út í tvö ákaflega heimskuleg stríð.  Og takið nú vel eftir, það hefur hvergi verið minnst á, í þessu samhengi, að þessir menn eru kristnir.