Hvað einkennir góða kennslu og fyrirmyndarkennara?

Birt á Moggablogginu 27.7.2007 - Efnisflokkur: Menntamál

Á þessu ári eru 10 ár síðan ég hætti í starfi mínu sem kennari og skipulagsstjóri við Iðnskólann í Reykjavík.  Kennsluferill minn hóst í janúar 1992 og entist út árið 1997.  Þetta var mjög góður tími, en til þess að hafa mannsæmandi laun þurfti maður að vinna mun meira en góðu hófu gegndi.  Tvö ár á þessu tímabili náði ég að vinna um 3.600 tíma hvort ár sem er náttúrulega klikkun.  En það var ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér.

Ég tók strax þá afstöðu að kanna hug nemenda minna til kennslunnar í lok hverrar annar.  Fyrstu annirnar notaði ég spurningablöð sem skólinn útvegaði mér, en hin síðari ár ákvað ég að nota aðferðir altækrar gæðastjórnunar, þ.e. að spyrja fyrst nemendurna að því hvaða atriði þeir töldu skipta máli (sem var gert snemma á önninni) og síðan í lok annarinnar spyrja þá að því hvernig þeir töldu að það hafi gengið hjá mér að uppfylla kröfur þeirra.  Það skal tekið fram að atriðin á spurningalistann voru valin af handahófi.  Ekki að það skipti máli, þar sem ég ætla ekki að fjalla um hvert mitt skor var, heldur hvað það var sem nemendum fannst skipta máli.

Einn af þeim áföngum, sem ég kenndi, var Þjónustutækni 101.  Það lá því beint við að nota þennan áfanga til að kenna nemendum hvernig þjónustuspurningar eru útbúnar.  Í byrjun hverrar annar skipti ég nemendum í áfanganum í 3 - 4 manna hópa og átti hver hópur að velta fyrir sér tveimur spurningum:

  1. Hvað einkennir góða kennslu?

  2. Hvað einkennir fyrirmyndarkennara?

Mig langar að birta hér niðurstöður 6 áfangahópa frá skólaárinu 1996 - 97.  Alls tóku 88 nemendur þátt í þessari vinnu og skiptust þeir í 24 hópa með 3 - 4 nemendum hver.  Hver hópur átti að nefna að lágmarki 3 atriði með hvoru um sig, en oft fannst nemendum erfitt að greina á milli hvort atriði lýsti góðri kennslu eða fyrirmyndar kennara, þannig að ég geri hér fyrir neðan ekki upp á milli hvort er átt við.

Þau atriði sem oftast komu upp hjá þessum 24 hópum voru eftirfarandi raðað eftir því hve margir hópar nefndu tiltekið atriði.  Tekið skal fram að atriðin voru ekki alltaf orðuð eins.

  • 18 skipti:  hress/húmor/létt lund/jákvæður/skapgóður

  • 13 skipti:  skipulagt námsefni, skipulögð/markviss kennsla

  • 12 skipti:  kennsla áhugaverð, virðing fyrir nemendum

  • 11 skipti:  áhugi kennara á námsefninu

  • 10 skipti:  kveikir áhuga/hvetjandi, þekking á námsefninu

  • 8 skipti:  hæfilegur agi

  • 7 skipti:  sanngjarn/raunhæfar kröfur, skilningsríkur/tillitssamur, stundvísi

  • 6 skipti:  vel máli farinn/skýr

Önnur atriði sem nefnd voru þetta árið voru:

  • 5 skipti:  nýtir tímann vel, undirbúinn

  • 4 skipti:  gott andrúmsloft, kurteis, persónuleg kennsla, snyrtilegur

  • 3 skipti:  góð samskipti

  • 2 skipti:  fylgist með námsframvindu nemenda, kemur efninu frá sér, opinn, samvinna nemenda og kennara, sjálfsöryggi, þolinmæði

  • 1 skipti: andlegt jafnvægi, auðvelt að leita til, fjölbreytni, gagnrýni, getur tekið gagnrýni, góð fyrirmynd, góð rithönd, hópvinna, hraustur, hrósar, hæfilegt heimanám, jafningi, kennslumarkmiðum náð, mannlegur, mismunar ekki, mótar ekki skoðanir nemenda, námsefni ekki of fast skorðað, námsgögn aðgengileg og auðskilin, námsmarkmið skýr, nær til nemenda, opinn, rökfesta, sjálfsvirðing, sveigjanlegur, umhverfi, veitir öryggi, vilji til að kenna, virkjar nemendur, yfirvegaður

Þetta er ansi fjölbreytt flóra atriða sem þessi nemendur töldu skipta máli.  Það er athyglisvert að þeim fannst skipta miklu máli að kennarinn hefði létta lund og gott skapferli, þar sem 18 af 24 hópum nefndu það.

Ég kynnti þessar niðurstöður á fundi með kennurum fyrir 10 árum og fannst mörgum þetta mjög áhugavert, en þó voru nokkrir sem sögðust sko alls ekki láta einhverja nemendur segja sér hvað væri að vera góður kennari.  Fyrir mér skipti máli að heyra hvað nemendunum fannst og síðan að sjá í lok hverrar annar hvernig mér hefði tekist að uppfylla kröfur þeirra.  Tekið skal fram að það gekk misjafnlega. 

Loks vil ég nefna það, að það sem mér fannst vera toppurinn á mínum kennaraferli, var þegar allir nemendur í áfanga sem ég kenndi, sátu áfangann á enda og stóðust lokaprófið.  Í framhaldsskóla, þar sem brottfall er þó nokkuð og fall talsvert, þá er þetta ánægjulegt frávik frá norminu.