Ethernet netkortið vantar

Birt á Moggablogginu 4.4.2007 - Efnisflokkur: Tölvur og tækni

Eftir að hafa stúderað þennan lista, sem fréttin vísar til, þá furða ég mig á því að vanta skuli þá tækni sem gerði okkur yfirhöfuð kleift að samtengja einmenningstölvur á þann hátt sem algengast hefur verið í gegnum tíðina.  Þar á ég við ethernet netkortið sem fundið var upp hjá Xerox PARC 1974.  Án Ethernetspjaldsins hefðum við ekki tengt tölvu saman á jafn árangursríkan hátt og raun ber vitni og framþróun í tölvusamskiptum hefði verið bundin í klafa IBM token ring.  Ég er eiginlega hneykslaður á PC World að horfa framhjá þessu. 

Ég er lika dálítið hissa á því að þeir skulu velja Lotus 1-2-3 en ekki VisiCalc, því VisiCalc var augljóslega langt á undan (1978) og var þar af leiðandi mun merkilegri tækninýjung en bæði Lotus 1-2-3 og Microsoft Excel sem bæði komast á listann.   Sama er hægt að segja um WordStar ritvinnsluforritið (1979), en PC World velur WordPerfect 5.1 í staðinn.

Nú ef við horfum síðan til tækninnar, en ekki bara afurða (sem þessi kosning PC World var um), þá myndi ég setja TCP/IP samskiptaregluna ofarlega á blað.

Svo er rétt að minna alla PC notendur á, að Word og Excel voru fyrst þróuð fyrir Apple Macintosh og síðan voru þau portuð yfir í Windows.