Birt á Moggablogginu 17.5.2007 - Efnisflokkur: Stjórnmál
Mér finnst þessi umræða almennt vera á villugötum. Það er staðreynd að stjórnin hélt velli. Það er staðreynd að stjórnarsamstarfið hefur gengið mjög vel þessi 12 ár. Það er staðreynd að stjórnarflokkarnir eru ánægðir með þann árangur sem hefur náðst, þó alltaf megi gera betur. Það er staðreynd að þeir sjá ýmis tækifæri til að gera betur. Það er staðreynd að þjóðarbúið stendur vel. Það er staðreynd að atvinnulíf stendur hér í blóma, raunar svo miklum blóma að það vantar fólk til að vinna hin svo kölluðu láglaunastörf. Hafi núverandi stjórnarflokkar trú á að þeir séu á réttri leið, þá er sjálfsagt og eðlilegt að þeir haldi áfram. Þetta snýst ekki um hagsmuni einstakra manna. Þetta snýst um hagsmuni þjóðfélagsins og að við töpum ekki öllu því sem áunnist hefur á undanförnum árum. Þetta mál má aldrei snúast um stólana, heldur verður það að snúast um sannfæringu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að það sé þjóðinni fyrir bestu að samstarfinu sé haldið áfram.
ÉG held að það sé misskilningur að Framsókn sé of veik til að vera áfram í ríkisstjórn. Raunar held ég að hinn litli þingstyrkur hennar verði til þess að menn vandi sig betur í málefnavinnu og hlusti betur á rödd þjóðarsálarinnar, því það er einmitt það sem hefur vantað undanfarin ár. Ég held líka að það sé misskilningur, að vera utan stjórnar ætti að gefa Framsókn tækifæri til að styrkja sig og byggja upp. Það reyndist Samfylkingunni ekki vel og ekki heldur Frjálslyndum. Mætti þá ekki beita sömu rökum og segja að Vinstri græn ættu að vera áfram utan stjórnar, þar sem það væri pólitískt sjálfsmorð að fara í stjórn. Þetta eru einfaldlega ekki rök sem halda.
Annað sem ég skil ekki eru gengdarlausar árásir Steingríms J. Sigfússonar á Framsókn. Það fer meiri tími hjá honum að tala um Framsókn, en ágæti síns eigin flokks. Er eitthvað í VG sem hann þorir ekki að ræða. Svo til að kóróna allt, þá vill hann að flokkurinn sem hann hatast út í verji stjórn Samfylkingar og VG falli. Þetta er svo hjákátlegt að hann dæmir sig sjálfan úr leik með þessu.
Ég vil viðurkenna hér og nú, að mín pólitíska hugsun er félagshyggjujafnaðarstefna, sem í augnablikinu á sér stað vinstra megin við miðju í Framsókn eða í hægri væng Samfylkingarinnar. Ég er óflokksbundinn. Ég hef einu sinni mætt á stjórnmálafund og það var fyrir ansi mörgum árum nokkrum dögum eftir að Valgerður fékk stólinn sinn. Fundurinn var hjá Framsókn í Kópavogi. Um þær mundir mældist Framsókn með 8% fylgi í skoðanakönnun sem var það lægsta sem flokkurinn hafði mælst þar til fyrir nýafstaðnar kosningar. Á þeim fundi stóð Valgerður upp og sagðist vera ánægð með stöðuna, sem var náttúrulega með ólíkindum fyrir ráðherra flokks með fylgi um 15% undir síðasta kjörfylgi. Ég stóð upp á þessum fundi og lýsti furðu minni á þessari ánægju Valgerðar og taldi nauðsynlegt að flokkurinn færi í naflaskoðun, ef hann ætlaði ekki að enda sína lífsdaga. Ég hvatti flokkinn til að hlusta betur á þjóðarsálina, því það væri hún á endanum sem hefði framtíð flokksins í hendi sér. Það eina sem gerðist í framhaldi af þessum fundi var að einn af frammámönnum flokksins í Kópavogi hringdi í mig og vildi steypa Siv úr stóli. Þetta snerist ekki um að byggja upp flokkinn, heldur að rífa hann niður. Ég ákvað með snarhasti að blanda mér ekki framar í innri mál Framsóknar. Spá mín er aftur að einhverju leiti að rætast. Þjóðarsálin hefur afgreitt Framsókn sem skoðunarlausan flokk, undirlægju Sjálfstæðisflokksins, sem þykir vænna um stólana sína en nokkuð annað. Vilji flokkurinn afsanna þessa kenningu, þá getur hann gert tvennt: Hrökklist úr stjórn undan þessum þrýstingi eða staðið keikur í stjórn með sín málefni á hreinu og hrint þeim í framkvæmd. Ég kýs það síðara vegna þess sem ég nefndi að ofan. Ég vil áfram árangur og ekkert stopp.