Birt á Moggablogginu 9.6.2007 - Efnisflokkur: Stjórnunarhættir, Austurlensk speki
Þetta er fjórða af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir. Líkt og hinar fyrri er sagan upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.
Hjólið og ljósið - the Wheel and the Light
Það var á þriðju öld fyrir Krist. Átökin eftir fall Qin ættarinnar voru rétt að ljúka. Han ættin með Liu Bang sem keisara, hafði náð að sameina Kína í eitt keisaradæmi í fyrsta sinn. Til að halda upp á atburðinn, hafði Liu Bang boðið háttsettum aðilum frá hernum og úr röðum stjórnmálamanna, skáldum og kennurum til mikils fagnaðar. Á meðal þeirra var meistari Chen Cen, sem Liu Bang hafði oft leitað til eftir ráðgjöf meðan barátta hans við að sameina Kína stóð yfir.
Hátíðarhöldin voru í fullum gangi. Veislan var sú mikilfenglegasta sem haldin hafði verið. Við háborðið sat Liu Bang ásamt þremur æðstu ráðherrum sínum: Xiao He, sem sá um að skipuleggja sameininguna, Han Xin, sem stjórnaði öllum hernaðaraðgerðum og Chang Yang sem mótað hafði diplómatíska- og pólitískastefnu. Við annað borð sátu Cheng Cen og þrír lærisveinar hans.
Meðan maturinn var borinn á borð, ræður haldnar, menn heiðraðir og skemmtiatriði fóru fram skein stolt og gleði úr hverju andliti, allra nema lærisveinanna þriggja sem voru með Chen Cen, en þeir litu út fyrir að vera furðulostnir. Hátíðarhöldin voru því næst hálfnuð, þegar þeir loks komu upp orði. ,,Meistari", sögðu þeir, ,,allt er stórfenglegt, allir hafa unun af, en miðpunktur hátíðarhaldanna er okkur ráðgáta." Þar sem meistarinn skynjaði hik þeirra, hvatti hann þá til að halda áfram.
,,Við háborðið situr Xiao He," héldu þeir áfram, ,,Skipulagshæfileikar Xiao He eru óumdeildir. Undir hans stjórn skorti hermenn aldrei mat eða vopn, sama hvar þeir voru. Við hliðina á honum er Han Xin. Herkænska Han Xins er meiri en orð fá lýst. Hann veit nákvæmlega hvar er best að sitja fyrir óvininum, hvenær á að sækja fram og hvenær er best að hörfa. Hann hefur leitt heri sína til sigurs í öllum orrustum sem hann hefur stýrt. Loks er það Chang Yang. Chang Yang áttar sig fullkomlega á pólitískum hreyfingum og diplómatískum samskiptum. Hann veit við hvaða ríki á að mynda bandalag, hvernig á að öðlast pólitískan velvilja og hvernig á að króa af þjóðhöfðingja þannig að þeir sjái sitt óvænna og gefist upp án bardaga. Þetta skiljum við allt. Það sem við getum ekki skilið er sá sem situr í öndvegi við borðið, keisarinn sjálfur. Liu Bang getur ekki stært sig af að vera aðalborinn og þekking hans á skipulagningu, orrustum og ríkiserindrekstri mun minni en sessunauta hans. Hvernig stendur þá á því að hann er keisari?
Meistarinn brosti og bað lærisveina sína að ímynda sér vagnhjól. ,,Hvað er það sem ákvarðar styrk hjólsins svo það geti borið vagninn áfram?" spurði hann. Eftir andartaks umhugsun, svöruðu lærisveinarnir. ,,Meistari, er það ekki styrkleiki píláranna?" ,,En hvernig stendur þá á því tvö hjól gerð með sams konar pílárum geta haft mismunandi styrk?" Eftir stutta stund hélt meistarinn áfram, ,,Horfið umfram það sem sést. Gleymið ekki að hjólið er gert úr fleiru en pílárum, því bilið á milli píláranna skiptir líka máli. Sterkir pílárar sem eru illa staðsettir gera hjólið veikt. Hvort eiginleikar þeirra nýtast veltur á samhljóman þeirra. Kjarninn í vagnhjólasmíði felst í getu handverksmannsins til að sjá fyrir sér og mynda bilið sem heldur og jafnar út pílárunum í hjólinu. Hugleiðið nú, hver er handverksmaðurinn hér?
Skíma af tunglsljósi sást handan dyranna. Þögn ríkti uns einn lærisveinanna tók til máls, ,,En meistari, hvernig tryggir handverksmaðurinn samhljóman meðal píláranna?" ,,Hugsaðu um sólarljósið," svaraði meistarinn. ,,Sólin nærir og lífgar trén og blómin. Hún gerir það með því að gefa af sér ljós. En þegar allt kemur til alls, í hvaða átt vaxa þau? Sama á við handverksmann eins og Liu Bang. Þegar hann hefur sett hvern einstakling í þá stöðu sem dregur fram hæfileika hans að fullu, þá tryggir hann samhljóman þeirra með því að láta hvern og einn eiga heiður af aðgreindum afrekum sínum. Og á sama hátt og trén og blómin vaxa í átt til gjafara síns, sólarinnar, vaxa einstaklingarnir með lotningu í átt til Liu Bang."