Þetta líður hjá

Birt á Moggablogginu 10.8.2007 - Efnisflokkur: Hrunið - undanfari

Það er líklegast aðeins eitt sem er öruggt í þessum heimi og það er að allt mun breytast.  Það ástand sem núna er á mörkuðunum mun liða hjá, alveg eins og það ástand sem var á mörkuðunum síðustu mánuði leið hjá.  Þeir einu sem tapa eru þeir sem neyðast til að selja og það er ekki einu sinni víst að þeir tapi, þar sem hagnaður þeirra verður hugsanlega langt umfram útlagðan kostnað.

Markaðir hafa áður stigið hátt til himins og síðan lækkað.  Fyrsta alvarlega dæmið um þetta var verðbréfahrunið á Wall Street sem leiddi til kreppunnar miklu.  Síðari tímadæmi eru mánudagurinn 19. október 1987, sem oft er nefndur Black Monday, en þann dag varð metlækkun á Dow Jones vísitölunni, þegar hún lækkaði um rúmlega 500 stig, sem á þeim tíma nam tæplega 20% lækkun.  Ef meðfylgjandi mynd er skoðuð þá séðst lækkunin sem hnykkur á miðri línunni.  Við sjáum líka að það tók markaðinn ekki nema tvö ár að hrista af sér 20% fall.

Það sama á við um krónuna og verðbréfamarkaðinn.  Gríðarlegar hækkanir hafa verið upp á síðkastið og þær hafa liðið hjá.  Miklar lækkanir hafa orðið og nú eru þær að einhverju leiti að líða hjá.  Hlutirnir versna bara, ef menn panikera, eins og gerðist 19. október 1987, þegar fjöldi manna framdi sjálfsmorð. 

Íslenski markaðurinn hefur hrist af sér allar lækkanir hingað til og ég reikna með að þessi lækkunarhrina líði hjá. 

(Viðbót 15.12.2024: Rétt er að ástandið leið hjá, en það átti fyrst eftir að versna mikið. Alþjóðlegir markaðir hafa rétt úr kútnum og gerðu það líklega strax árið 2011. Íslenska úrvalsvítitalan fór hæst í um 3800 stig ca. 2019, en hefur lækkað síðan.)