Örlítið um almannatryggingar og ellilífeyri

Höfundur: Marinó G. Njálsson

Mikil umræða er í gangi um ellilífeyri og hvað er rétt að eldri borgarar fái greitt frá ríkinu, þegar komið er á efri árin. Mig langar að fara í smá ferðalag í gegn um tímann, líta á upphafið, þróunina og skoða hvers vegna miklar breytingar eru að verða á þessum málum einmitt núna. Tek fram, að þeim sem taka lagatúlkunum mínum ekki trúanlega, er bent á hrd. nr. 125/2000 „fyrri öryrkjadómur“, þar sem sumt af þessu er skoðað.  Ég fer hér þó víða dýpra en farið er í dómnum og skoða ýmislegt sem hæstaréttardómararnir töldu ekki skipta máli.

Tekið skal fram, að yfirferð mín er um ellilífeyri og ekkert annað.  Öll þau lög sem ég skoða, innihalda ákvæði um fjölmargt annað, en þau ákvæði eru ekki til umfjöllunar hér.  Ég skoða heldur ekki lífeyrissjóðina umfram að lífeyrisþegar eru að fá sífellt hærri greiðslur frá þeim.

Úrræði á 19. öld

Erfitt er að átta sig á því nákvæmlega hvaða reglur giltu um eftirlaun fram til ársins 1900.  Svo heppilega vill þó til, að Umboðsmaður Alþingis birtir ágætt yfirlit í máli nr. 1448/1995, sem fjallar um flutning opinbers starfsmanns úr einu starfi í annað.  Eins og búast má við, þá má rekja slík ákvæði til Danmerkur og það sem meira er stjórnarskrárinnar frá árinu 1849.  Í ákvæðinu var konungi gefin heimild til að flytja embættismenn til í starfi, en sá sem átti að flytja til í starfi gat valið milli þess að taka nýju starfi eða fara á eftirlaun.  Í framhaldi af því voru sett eftirlaunalög embættismanna með stoð í stjórnarskránni, þannig að embættismenn höfðu stjórnarskrárvarinn rétt til eftirlauna.  Á Íslandi voru samþykkt lög „um eptirlaun“ 5. janúar 1851 og þau lögleidd með konungstilskipun 31. maí 1855.  Í 1. mgr. 1. gr. þeirra sagði:  „Sjerhver sá, er konungur hefur gjört að embættismanni og launað er af sjóði ríkisins, á rjett á að fá eptirlaun eptir lagaboði þessu, þegar honum er veitt lausn frá embætti fyrir aldurs sakir eða heilsulasleika, eða annara orsaka vegna, sem honum er ósjálfrátt.“  Þarna í fyrsta sinn fest í lögum réttur íslenskra embættismanna til eftirlauna.  Ákvæði var síðan tekið upp samhljóða í 1. gr. laga nr. 4/1904, um eptirlaun.

Almenningur naut ekki sömu góðmennsku konungs, en íslenskir embættismenn, sveitarstjórnarmenn og þingmenn sáu að eitthvað þurfti að gera.  Lög nr. 29/1890, um styrktarsjóði fyrir alþýðufólk, eru elstu lög sem ég finn vísun til sem ná yfir það sem gæti fallið undir ellilífeyri fyrir almenning.  Fann ég ekki sjálf lögin, þannig að ég þekki ekki innihald þeirra.  Fyrir þeirra tíð voru til fjöldi ákvæða um ómaga, niðursetninga og fleira í þeim dúr, en erfitt er að heimafæra það á réttindi eldri borgara.

Fyrri hluti 20. aldar

Eins og áður hefur komið fram, þá voru sett ný lög um eftirlaun embættismanna með lögum nr. 4/1904.  Sama dag og þau voru samþykkt voru einnig samþykkt lög nr. 5/1904, um skyldu embættismanna til að safna sjer ellistyrk.  Og með lögum nr. 48/1907, um ellistyrk presta, var þeim skylt að greiða í sjóð til efri ára.  Nokkrum árum síðar komu lög nr. 17/1909 um almennan ellistyrk (sjá: https://timarit.is/page/3949253#page/n1/mode/2up).  Þar segir í 1. gr. að í hverjum kaupstað og hreppi skuli stofna styrktarsjóð handa ellihrumu fólki og skal hann taka yfir styrktarsjóðina fyrir alþýðufólks sem stofnaðir voru með fyrri lögum (nr. 29/1890).  Styrkinn mátti veita „ellihrumum“ sextugum og eldri, en einnig mátti veita hann heilabiluðum fátæklingum, þó þeir hefðu ekki náð 60 ára aldri.  Upphæð styrksins gat numið frá 20 – 200 kr. og voru ekki settar reglur um hvernig upphæðin var ákveðin.

Þarna er kominn fyrsti vísir að sérstökum bótum til öryrkja, þ.e. heilabilaðra fátæklinga.  Á þeim tíma var líklega ekki gengið langt í að skilgreina fólk sérstaklega óvinnufært vegna örorku, heldur voru þeir einstaklingar bara hluti af hópi fátækra (sem segir að kannski hafi ekki mikið breyst).  Einnig er líklegt að allir hafi unnið sem fengu vinnu án tillits til starfsgetu sinnar.  En þetta átti eftir að breytast.

Fyrsti lífeyrissjóðurinn var stofnaður með lögum nr. 72/1919, um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn.  Á heimasíðu LSR (áður Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins) er vísað til þessa lífeyrissjóðs fyrir embættismenn sem upphafði að LSR.  Samhliða voru sett lög nr. 73/1919 um ekkjutryggingu embættismanna.  Tveimur árum síðar voru samþykkt tvenn lög um lífeyrissjóði,  þ.e. lög nr. 51/1921 um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna og nr. 33/1921 um lífeyrissjóð barnakennara. (Laganúmer eru tekin upp úr frumvarpi að lögum nr. 26/1936.)   Samkvæmt ákvæðum þeirra laga, sem eru nánast samhljóða, þá er sjóðfélögum tryggður lífeyrir og ekkjum/ekklum líka.

Árið 1936 eru samþykkt á Alþingi lög nr. 26/1936 um alþýðutryggingar. Tilgangurinn með lögunum var nokkuð merkilegur og framsýnn.  Hann var að koma á Lífeyrissjóði Íslands, þannig „að hver borgari þjóðfélagsins tryggi sig og þjóðfélagið gegn því að þurfa að leita á náðir þess“, eins og segir í greinargerð frumvarpsins.  Hver maður átti „að tryggja sér 500 kr. í ellilífeyri á ári frá 67 ára aldri, gegn árlegu gjaldi kr. 12,50 frá 16 til 67, og ennfremur örorkulífeyri fyrir þann tíma allt að sömu upphæð, ef hann verður öryrki fyrr“.  Greinar nr. 44 – 60 fjalla um elli- og örorkutryggingar og falla því undir umfjöllun mína.

Fyrsti hluti greinargerðarinnar með frumvarpinu fer í að lýsa muninum á löggjöf um alþýðutryggingar og löggjöf um opinbera forsjá.  Mikilvægt er að hafa þetta í huga, því hugmyndin með Lífeyrissjóði Íslands var, að hann ætti að greiða til þeirra sem í hann höfðu greitt, en ekki taka að sér að greiða til allra.  Nefndin sem samdi alþýðutryggingalöggjöfina skipti sér í tvennt og vann annar hlutinn að alþýðutryggingalögunum meðan hinn einbeitti sér að löggjöf um framfærsluskyldu.  Þau lög voru samþykkt síðla árs 1935 og tóku gildi 1. janúar 1936.

Greinilegt var, að lagst hafði verið í rannsóknarvinnu, því með greinargerðin er fylgiskjal um alþýðutryggingar í nokkrum nágrannalöndum Íslands, þ.e. Svíþjóð, Danmörku, Englandi, Þýskalandi og Hollandi.  Finnst mér sem í raun merkilegt, hve miklum og góðum upplýsingum hafði verið safnað og færði þetta mér nýja sýn á hve vel íslenskir fræðimenn voru tengdir erlendum kollegum sínum á þessum árum.

Fram til þessa höfðu eldri borgarar landsins, utan embættismanna og barnaskólakennara, átt kost á ellistyrk eða þurft að vera upp á aðra komnir.  Ellistyrkur var oftast geðþótta ákvörðun einhvers embættismanns og hlutu því ekki allir styrkinn sem hann þurftu.  Metnaðurinn með lög nr. 26/1936 var hins vegar mikill, því koma átti upp tryggingakerfi sem átti að koma í veg fyrir að fólk yrði háð duttlungum þjóðfélagsins um framfærslu.  Það átti að geta framfleytt sér af þeim sparnaði sem það lagði í formi iðgjalds í lífeyrissjóð, sem fékk nafnið Lífeyrissjóður Íslands, hvorki meira né minna.

Lífeyrissjóður Íslands skyldi greiða til allra landsmanna sem þar höfðu öðlast réttindi með inngreiðslu iðgjalda.  Menn áttuðu sig hins vegar á því, að slíkur lífeyrissjóður yrði ekki nægilega stöndugur fjárhagslega strax, heldur tæki tíma að byggja hann upp, og því var sett ákvæði um að greiðslur úr sjóðnum byrjuðu ekki fyrr en hann næði tilteknum styrkleika og að árleg lífeyrisgreiðsla muni hækka þar til „elli- og örorkutryggingar eru að fullu komnar til framkvæmda“. 

Nokkur þekking var til staðar á starfsemi lífeyrissjóða, en reynsluna við reksturs svona stórs lífeyrissjóðs vantaði.  Til að bæta sjóðsstöðu sjóðsins, átti ríkissjóður að „leggja [honum] árlega í næstu 50 ár 150 þúsund krónur“, eins og segir í 76. gr. laganna.  Þetta var umtalsverð fjárhæð þá (jafngildir um 13 milljörðum kr. að teknu tilliti til verðlagsþróunar og mannfjölgunar eða 650 milljörðum kr. á 50 árum), en samt ekki nóg nema að sjóðurinn næði að ávaxta sig sómasamlega.  Það átti eftir að reynast erfitt og raun koma í veg fyrir að ágætishugmynd næði að verða að því framfararspori sem vonast hafði verið til.  Endaði það á því að sjóðurinn var lagður niður, en hvernig og hvenær, hef ég ekki fundið út.

Mönnum var ljóst í upphafi að það myndi taka sjóðinn nokkurn tíma að ná nægilegum styrk til að verða sú stoð fyrir lífeyrisþega í landinu sem hann átti að vera og koma í veg fyrir að þeir yrðu byrðar á þjóðfélaginu.  Vissulega voru lífeyrissjóðir embættismanna og barnakennara sameinaðir Lífeyrissjóði Íslands, en voru reknir sjálfstæðir. Þar með byrjaði sjóðurinn á núlli.  Fyrirséð framlög frá ríkissjóði voru ekki nóg og því voru lagðar til skerðingar á útgreiðslu og reglur um þær tilgreindar í 53. gr. laganna, þar sem segir:

„Réttur til þess að fá útborgaðan fullan árlegan elli- og örorkulífeyri er bundinn því skilyrði, að aðrar árlegar tekjur þess, sem í hlut á…fari eigi fram úr 1/3 af árlegri lífeyrisgreiðslu.

Ef tekjurnar eru meiri, skal draga frá lífeyrinum 60% af þeirri upphæð, sem árstekjurnar eru umfram þriðjung fullrar lífeyrisupphæðar.“

Svona tekjutengdar skerðingar áttu síðan eftir að vera við lýði samfellt eftir þetta.  Mest vægi í „skerðingum“ varð þó í gegn um að lífeyrisgreiðslu fylgdu ekki verðlagsbreytingum.

Þarna var sem sagt ekki verið að koma á því kerfi sem við þekkjum sem almannatryggingar í dag, heldur lífeyrissjóði sem byggði á inngreiðslu iðgjalda á sama hátt og núverandi lífeyrissjóðir eru.  Uppbygging lífeyrissjóðs tekur langan tíma og þar til hann nær fullum styrk yrði greiðslur að takmarkast við getu sjóðsins.  Í þessu tilfelli komu til skerðinga tekna og ríkissjóður lagði sjóðnum til framlag svo hann gæti staðið undir skuldbindingum sínum.  Framtíðarsýn var að eftir því sem sjóðurinn styrktist, ykjust greiðslur úr honum og hækkuðu á hvern einstakling.  Miðað var samt við, að sjóðurinn hæfi ekki útgreiðslu af iðgjöldum fyrr en hann gæti staðið undir 12,5% af lífeyrisgreiðslum.  Í lögunum var gert ráð fyrir að útgreiðslur væru árlega að jafnaði 500 kr. á mann, en inngreiðslur bara 6-7 kr. á hvern mann og síðan 1% af launum.  Því var gert ráð fyrir að það tæki sjóðinn a.m.k. 12 ár að ná nægilegum burði til að geta hafið útgreiðslur.  Í millitíðinni þyrfti ríkissjóður að hlaupa undir bagga.

Seinni hluti 20. aldar

En það liðu ekki tólf ár þar til lögin voru endurskoðuð með lögum nr. 50/1946 um almannatryggingar.  Tekið er fram í greinargerð frumvarps að lögunum, að ákvæði laga um alþýðutrygginga hafi þá ekki enn komist til framkvæmda.  Í Lífeyrissjóð Íslands höfðu safnast um 17,2 m.kr., en fastar greiðslur úr sjóðnum áttu ekki að hefjast fyrr en „hann væri fær um að greiða sem svarar 1/8 (12,5%) af fullum lífeyri, sem áætlað var að yrði ca. 12 árum eftir setningu alþýðutryggingalaganna“.  

Í lög nr. 50/1946 var ákvæði um ótekjutengdan lífeyri, en jafnframt var sett annars vegar inn beint ákvæði um skerðingu í 2. mgr. 13. gr. laganna, þar sem segir:

"Þeir, sem við gildistöku laga þessara njóta lífeyris eða eftirlauna af opinberu fé eða úr opinberum sjóðum, er sé að minnsta kosti jafnmikill og lífeyrir skv. 15 .gr., eiga ekki rétt á ellilífeyri. Ef ellilífeyrir eða eftirlaun ná eigi þeirri fjárhæð, á hlutaðeigandi rétt á því, að Tryggingastofnun greiði það, sem á vantar, enda hafi hann náð tilskildum aldri." og bráðabirgðaákvæði um skerðingu, ef "aðrar tekjur færu fram úr vissu marki".  Rétt er að benda á, að ekki átti með lögum nr. 50/1946 að breyta tekjuöflun vegna elli- og örorkulífeyris og enn var það mat manna, að 40 ár væri þar til Lífeyrissjóður Íslands (eða ígildi hans) hefði fjárhagslegan styrk til að greiða fullar bætur miðað við fullan réttindaávinning hinna tryggðu.  Að vísa til þess að skerðinganna sé minnst í bráðabirgðaákvæði laganna og segja að það hafi aldrei verið ætlun stjórnvalda að beita skerðingum, er mistúlkun á ákvæðinu.  Ákvæðið er nauðsynlegt þar til styrkur sjóðsins var orðinn nægur til að standa undir greiðslu 12,5% af fullum lífeyri og þar til sjóðurinn hafði náð fullum styrk til að standa sjálfur undir öllum lífeyrisgreiðslum sínum.  Þess fyrir utan er um söfnunarsjóð að ræða, sem hinir tryggðu greiddu iðgjald til, en ekki opinbert úrræði.  Markmiðið var að Lífeyrissjóður Íslands myndi að lokum taka alfarið yfir og standa undir slysatryggingum, sjúkratryggingum og elli- og örorkulífeyri.  Skerðingarnar voru því eingöngu vegna þess, að hinir tryggðu voru ekki búnir að greiða nægilega mikið nægilega lengi til sjóðsins og fólki hafði verið lofað of háum greiðslum úr sjóðnum.  Skerðingarnar komu ríkisvaldinu í sjálfu sér ekkert við.

Með lögum nr. 24/1956 verður meginbreyting á almannatryggingakerfinu. Því skipt í tvennt, annars vegar sjóðssöfnunarkerfi og hins vegar opinber framlög í gegn um skattkerfið.  Í tuttugu ár á undan hafði markmiðið verið sjóðssöfnun í gegn um iðgjöld, en greinilegt var að menn voru að gefast upp á hve langan tíma tók að byggja upp sjóðinn og ekki hjálpaði óstöðugt verðlag. Nú var komið í ljós, að iðgjöld til lífeyrissjóðsins dugðu ekki til, enda höfðu þau rýrnað vel í verðbólgunni sem er nokkuð kunnuglegt stef í íslenskri hagsögu.  Einnig sáu menn, að innan íslenska hagkerfisins voru ekki næg tækifæri til að ávaxta eignir sjóðsins.  Stjórnvöld áttuðu sig á þessari staðreynd og að bilið milli mögulegra getu lífeyrissjóðsins og framfærslukostnaðar var sífellt að aukast.  Þess vegna var þeim ljóst að á meðan sjóðsöfnunarkerfið var ekki að tryggja lífeyrisþegum nægar tekjur, þá varð að reka samhliða því kerfi sem byggði á framfærslusjónarmiði "þar sem þörf hinna tryggðu til bóta hefði áhrif á bótagreiðslur", eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Miðað við þetta, þá var það ekki ætlun löggjafans árið 1956 að allir ættu rétt til bóta/lífeyris frá ríkinu, heldur bara þeir sem hefðu þörf fyrir slíkt. Greiðslurnar frá almannatryggingakerfinu áttu að vera mismunandi há framfærslutrygging ofan á greiðslu frá lífeyrissjóði, en ekki föst upphæð sem allir fengju án tillits til annarra tekna.  Eða eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, þá voru menn ekkert að fela ástæðuna: "Þegar einnig er litið til þess, að iðgjaldagreiðslur hinna tryggðu samtals til lífeyristrygginganna eru ekki nema um það bil þriðjungur þess, sem greiða verður til trygginganna, mætti sýnast óeðlilegt að auka byrðar venjulegra skattþegna og atvinnurekenda og hækka iðgjöld hinna tryggðu til þess að greiða fólki lífeyri, sem e.t.v. er svo efnum búið, að það getur auðveldlega komizt af án hans. Að öllum þessum ástæðum athuguðum þótti nefndinni ekki ráðlegt að afnema skerðingarákvæðin."


Eins og oft vill gerast, þá hækkuðu greiðslurnar frá almannatryggingum ekki í takt við framfærslukostnað og því var það að með lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar var bætt við ákvæði um tekjutryggingu. Með henni var gefin heimild til frekari greiðslu til lífeyrisþega, "ef sýnt þætti, að lífeyrisþegi gæti ekki komist af án hækkunar", eins og segir í greinargerðinni með frumvarpinu. Enn og aftur er ekki gert ráð fyrir að þeir sem hafi nægar aðrar tekjur njóti þessara greiðslna.

Förum núna hratt yfir sögu. Árið 1974 var tekið upp frítekjumark tekjutryggingar og skerðingarhlutfallið lækkað um helming.  Þremur árum síðar hafði aftur sigið á ógæfuhliðina hjá lífeyrisþegum, vegna þess að upphæðir fylgdu ekki verðlagsþróun.  Þá var tekin upp heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir.  Hún var þá og er enn tekjutengd.  Árið 1987 var tekin upp sérstök heimilisuppbót í staðinn fyrir að hækka bara heimilisuppbótina.  Þessi uppbót var án frítekjumarks og 100% tekjutengd.  Árið 1990 var sett á frítekjumark vegna tekna úr lífeyrissjóðum og árið 1992 kom tekjutenging vegna atvinnutekna og annarra tekna.

Þetta var allt greinilega orðið svo ruglingslegt, að árið 1993 tóku gildi ný heildarlög um almannatryggingar með lögum nr. 117/1993, en samhliða þeim voru sett lög nr. 118/1993 um félagslega aðstoð sem rekja má til EES samningsins.  Árið 1996 var tekin upp tekjutenging vegna fjármagnstekna.  Sérstaka heimilisuppbótin var endurskírð árið 2001 og kallaðist eftir það tekjutryggingarauki.  Til að flækja málið, þá virkaði hann misjafnlega eftir því hvort fólk fékk heimilisuppbót eða ekki.  Svo viðurkenndi Tryggingastofnun að hún yrði að fara að dómi Hæstaréttar 125/2000 og ekki mætti skerða tekjur lífeyrisþega, vegna tekna maka.  Var leiðrétt heil tvö ár aftur í tímann.

 Núverandi lög um almannatryggingar eru lög nr. 100/2007, sem eru endurútgáfa af lögum nr. 117/1993.  Það var svo árið 2015, sem skilgreind voru markmið fyrir lög um almannatryggingar, en þau hljóma svona:
„Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

Með bótum og greiðslum skv. 1. mgr., ásamt þjónustu og aðstoð sem kveðið er á um í öðrum lögum, skal stuðlað að því að þeir sem lögin taka til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi.“

Segja má, að þessi markmið séu ótrúlega samhljóma aðaltilgangi laga nr. 26/1936. Þ.e. „að tryggja þeim sem...þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna.." í núverandi lögun, en í greinargerð með lögunum frá 1936 segir: „að þær fjárhagslegu byrðar, sem þeim var ætlað að mæta, yrðu engum borgara þjóðfélagsins ofurefli“. Ekki er einfalt eða auðvelt að meta hverjir þurfa bætur, en ljóst er að aðaltilgangurinn árið 1936, aðskilnaður kerfanna í lögum nr. 24/1956 og markmiðin sem bætt var í lögin árið 2015 sýna að bætur/lífeyrir frá ríkinu áttu og eiga bara að renna til þeirra sem þörf hafa fyrir þær.

Lífeyrissjóðir eru loksins að virka

Notum þetta til að átta okkur á stöðu lífeyrissjóðanna í dag.  Það átti að taka Lífeyrissjóð Íslands 50 ár að verða nógu stöndugur til að þurfa ekki lengur ríkisaðstoð, en hann var lagður niður löngu áður en að því kom.  Flestir almennu lífeyrissjóðirnir eru rétt svo það gamlir, en þó er rétt að nefna að Lífeyrissjóður verzlunarmanna var stofnaður árið 1956, sem er einmitt eitt af þessum lykilárum í þróun elli- og örorkulífeyris.

En hvers vegna er þessi umræða um skerðingar svona hávær allt í einu hin síðar ár? Lífeyrissjóðir hafa verið til í mislangan tíma, en málið er að núna fyrst eru stórir hópar komnir á lífeyrisaldur sem hafa áunnið mikil réttindi hjá lífeyrissjóðinum sínum.  Fleiri og fleiri fá drjúgar greiðslur frá sjóðnum sínum í hverjum mánuði.  Loksins er staðan orðin sú sem átti að verða 50-60 árum eftir að Lífeyrissjóður Íslands var stofnaður 1936.  Þegar haft er í huga, að líklega hefur lítið verið í flestum lífeyrissjóðum í árslok 1979, þá tókst á 40 árum að byggja upp það öfluga lífeyrissjóði, að þeir geta staðið undir framfærslu stórs hluta eldri borgara.  Ekki allra, en sagt er að minnst 40% eldri borgara njóti engra greiðslna frá TR.

Þetta var markmiðið 1936 með Lífeyrissjóði Íslands og þetta var aftur markmiðið með opinberu lífeyrissjóðunum, sem stofnaðir voru á 6. áratugnum og síðan þeim almennu sem stofnaðir voru í kringum 1970.  Það sem mestu máli skiptir, er að flestir sem eru byrjaðir að fá greiðslur frá lífeyrissjóðunum sínum síðustu 5-10 ár voru búnir að greiða í lífeyrissjóð stóran hluta starfsævi sinnar.

Að um og yfir 40% eldri borgara sé ekki með neinar greiðslur frá TR þýðir að þessi 40% eru með yfir 726.000 kr. í aðrar tekjur á mánuði.  Þurfa ekki allar að vera frá lífeyrissjóðunum, en örugglega drjúgur hluti.  Innan fárra ára verður þetta hlutfall alveg örugglega komið yfir 50% og svo heldur það bara áfram að hækka.  Þegar yngstu kynslóðirnar verða búnar að safna í lífeyrissjóð í 40 ár og byrja lífeyristöku, þá fær sá hópur vonandi yfir 75% af meðalævilaunum sínum í sinn hlut.

Það verður alltaf þannig hjá einhverjum hópum, að jafnvel 75% af meðalævitekjum duga einstaklingi ekki til framfærslu.  Aðrir mun ekki hafa áunnið sér slík réttindi af ýmsum ástæðum og síðan eru enn stórir hópar sem einfaldlega eru með slík skítalaun, að 75% réttindaávinningur mun ekki tryggja þann lágmarksframfærslueyri sem við sem samfélag viljum að fólk hafi.  Þessa hópa þarf ríkið að styðja áfram með þeim úrræðum sem það býður upp á.  Þessir hópar þurfa óskertan ellilífeyri til að geta lifað áhyggjulaust ævikvöld.  Hinir ná vonandi að lifa áhyggjulaust ævikvöld án stuðnings frá ríkinu.