Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.3.2013.
Af erindum sem ég hef fengið nýlega má lesa að fjármálafyrirtækin eru farin að ná árangri við að "þreyta laxinn". Bæði fólk og fyrirtæki hefur þrotið örendið og eru komin í þá stöðu, að betra er að taka einhverjum samningi en réttum samningi. Betra er að fá strax aðgang að hluta fjármunanna en að bíða eftir Hæstaréttardómum og fá það sem fjármálafyrirtækjunum mun þá detta í hug að túlka viðkomandi dómar þýði. Fólk og fyrirtæki eru til í að afsala hluta krafna sinna en losna í staðinn úr gíslingu fjármálafyrirtækjanna.
Já, hvað þýða þessir dómar sem hafa gengið? Hve margir ætli viti það? Er einhver sem hefur eftirlit með því hvort fjármálafyrirtækin reikni rétt eða reikni eins í tilfelli sambærilegra lána? Ég fékk í dag póst frá aðila sem hefur það að atvinnu að fást við svona mál og viðkomandi sagði í póstinum hafa heyrt af málum, þar sem tvö nákvæmlega eins lán, tekin á sama tíma hjá sama fjármálafyrirtæki, svipuð upphæð og alltaf greitt af á réttum tíma, hafi fengið ólíka meðferð hjá nýju kennitölunni. Ef satt er, þá er þetta grafalvarlegt mál.
Í öðru tilfelli, þá fékk viðskiptavinur þau skilaboð, að honum væri hollast að sætta sig við útreikninginn, því annars gæti biðin orðið löng.
Endalaust er notuð sú afsökun að ekki sé komið dómafordæmi, þó svo að búið sé að dæma um stutt lán og löng lán, búið er að dæma um að veð eða tilgangur skiptir ekki máli, búið er að kveða úr um að ekki megi breyta vöxtum afturvirkt og ekki má yfirhöfuð breyta vöxtum fyrr en eftir að ljóst var um hinn ranga lagaskilning.
Hér eru nokkrir dómar sem hafa gengið í Hæstarétti:
92/2010 og 153/2010: Bílalán (stuttur lánstími) - gengistrygging dæmd ólögleg
471/2010: Bílalán (stuttur lánstími) - vextir taldir hluti af skilmálum - Seðlabankavextir dæmdir á lánin
603/2010: Fyrirtækislán (40 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir langt fyrirtækislán, veð og tilgangur skiptir ekki máli
604/2010: Fasteignalán (20, 25 og 30 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir fasteignalán
30/2011, 31/2011 og 155/2011: Fyrirtækislán (5 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir stutt fyrirtækislán
386/2012: Fyrirtækjalán (8 ára lán) - fordæmi úr dómum 92/2010, 153/2010 og 471/2010 gilda líka fyrir meðallöng fyrirtækislán
600/2011: Fasteignalán (20, 25 og 30 ára lán) - afturvirkni vaxtabreytingar hafnað, fullnaðarkvittun skerðir rétt kröfuhafa, ekki hægt að breyta vöxtum afturvirkt með lögum, röng lagatúlkun aðeins leiðrétt til framtíðar.
464/2012: Fyrirtækislán (20 ára lán) - afturvirkni vaxtabreytingar hafnað, fullnaðarkvittun skerðir rétt kröfuhafa, ekki hægt að breyta vöxtum afturvirkt með lögum, röng lagatúlkun aðeins leiðrétt til framtíðar.
Samkvæmt þessu er búið að dæma um alls konar lán hvað varðar lögmæti gengistryggingarinnar. Vissulega er slatti af málum, þar sem gengistryggingin hefur verið dæmd lögleg, en hér er ekki deilt um þau lán heldur lánin sem hafa verið dæmd vera með ólöglega gengistryggingu. Hvers vegna sum fjármálafyrirtæki telja sig þurfa frekari dóma til að endurreikna lán, þegar önnur telja sig ekki þurfa það, skil ég ekki út frá niðurstöðum í málum 600/2011 og 464/2012. Ég sé bara tvær ástæður koma til greina. Önnur er að fjárhagsstaða þessara fyrirtækja er svo bágborin, að þau fari á hausinn endurreikni þau lánin strax. (Úps, eitt þeirra er í slitameðferð, þannig að það fer ekki aftur á hausinn.) Hin er að starfsmenn viðkomandi fyrirtækja séu á árangurstengdum launum og því fleiri laxa sem það þreytir til uppgjafar, því hærri verða bónusarnir.
Eitt er það trix sem fjármálastofnanir hafa ítrekað notað. Það er að semja utan dómsala áður en niðurstaða Hæstaréttar (og/eða héraðsdóma) fæst. Veit ég um nokkur slík mál, þar sem fjármálafyrirtækið sá sína sæng út breidda og í staðinn fyrir að fá fordæmisgefandi dóm frá Hæstarétti var samið á elleftu stundu. Þannig hefur tekist að tefja mál úr hófi. Oft er lántaka þá greitt ríflega fyrir þögnina. Ein útfærslan á þessu trixi er að semja við fólk án málaferla, en jafnframt tiltaka að uppgjörið sé trúnaðarmál. Hef ég hitt nokkra sem hafa sagt mér slíka sögu af sínum viðskiptum við kröfuhafa sína. Allir voru þeir hæstánægðir með niðurstöðuna og sögðu hana mun betri en þeir áttu von á.
Ljóst er að málum vegna gengistryggðra lána er langt frá því að vera lokið. Ég tel t.d. að neytendaverndarákvæði samningalaga nr. 7/1936, þ.e. 36.gr. og liður c alveg sérstaklega, eigi líklegast eftir að gefa neytendum meiri rétt en þegar er. Veltur það á þeim skilningi mínum annars vegar að ólöglegur skilmáli teljist vera ósanngjarn og hins vegar að Hæstiréttur dæmdi ekki vextina ólöglega í máli 471/2010. Rétturinn sagði vextina samofna hinum ólöglega skilmála. En ekkert í íslenskum lögum leyfir Hæstarétti að skipta á einni tegund vaxta fyrir aðra. Það var hræðilega hallærisleg skítaredding til að "bjarga" fjármálastöðugleikanum í landinu, nokkuð sem er ekki í verkahring Hæstaréttar að sinna. Það er heldur ekki hlutverk neytenda að "bjarga" fjármálastöðugleikanum, sérstaklega þegar haft er í huga að Seðlabanki og Fjármálaeftirlit lugu upp í opið geðið á alþjóð þegar tilmæli þeirra til fjármálafyrirtækja voru kynnt í lok júní 2010. Þá töldu þessir aðilar að tjón fjármálafyrirtækjanna myndi hlaupa á hundruðum milljarða, ef samningsvextir myndu gilda, en eftir að Hæstiréttur sagði að samningsvextir yrðu að gilda fram að dómsuppkvaðningu, þá var komið allt annað hljóð í strokkinn. Nei, þá nam tjónið í hæsta lagi 50 milljörðum!