Líkleg staða lánþegar áður gengistryggðra lána eftir dóma Hæstaréttar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.2.2012.

Margir hafa spurt mig hver sé staða sín eftir hinu fjölmörgu dóma Hæstaréttar um áður gengistryggð lán. Hér fyrir neðan er farið yfir grófar niðurstöður helstu dóma, hvað þeir þýða og loks sýnd einföld dæmi.

Tímamótadómar

Hér eru fyrst tímamótadómar sem gengið hafa:

  1. Í dómum nr. 92/2010 og 153/2010 voru niðurstöður Hæstaréttar sem hér segir:

    1. Leigusamningar eru lánasamningar

    2. Gengistrygging er ólögleg verðtrygging

    3. Lánið er í íslenskum krónum

    4. Engu öðru er breytt

  2. Í dómi nr. 471/2010 kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lægstu vextir Seðlabanka Íslands skuli koma í staðsamningsvaxta

  3. Í dómum nr. 603/2010 og 604/2010 segir Hæstiréttur að fyrri dómar gildi einnig um húsnæðislán.

  4. Í dómum nr. 30/2011 og 31/2011 er staðfest að framangreindir 5 dómar eigi við um lán fyrirtækja.

  5. Í dómi nr. 155/2011, Mótormax-dómnum, er endanlega staðfest að fyrstu 5 dómarnir eigi líka við fyrirtæki.

  6. Í dómi 282/2011, Kraftvélar, er endanlega staðfest að leigusamningar fyrirtækja eru lánasamningar og fyrstu 2 dómarnir að ofan séu fordæmisgefandi.

  7. Í dómi nr. 600/2011 kveður Hæstiréttur úr um að greiddir vextir verði ekki hækkaðir og framvirk áhrif geti ekki orðið nema frá 14. febrúar 2011, þegar dómur gekk í máli nr. 604/2011.

Nauðsynlegt er síðan að taka lög nr. 151/2010 líka inn í þetta, þar sem þau taka til fleiri samninga en Hæstiréttur kveður á um, þ.e. bætt er inn í 2. gr. (bráðabirgðaákvæði X) lánasamningum sem voru sannanlega í erlendri mynt en falla undir ákvæði um vaxtabætur (þ.e. 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003).  Einnig tilgreina lög nr. 151/2010 að allar vanskilagreiðslur, dráttavextirog kostnaður skuli teljast greiðslur inn á lán.

Hvað þýðir þetta? 

Mér sýnist þetta segja eftirfarandi:

  1. Þeir eignaleigusamningar sem voru með ákvæði um að leigutaki eignaðist eða gæti eignast hinn leigðamun fyrir málamyndaverð, voru í reynd lánasamningar.

  2. Allir samningar, hvort heldur þeir sem kallaðir voru leigusamningar eða hreinir lánasamningar, sem voru með bindingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla og aðrir lánasamningar í erlendri mynt sem falla undir 68. gr. laga nr. 90/2003, skulu vera með höfuðstól í íslenskum krónum frá lántökudegi, afborganir miðaðar við íslenskan höfuðstól og eftirstöðvar tilgreindar í íslenskum krónum.

  3. Samningarnir skulu taka lægstu vexti Seðlabanka Íslands, skv. 10. gr. laga nr. 38/2001, frá lántökudegi (ákvæði sem er nánast ógilt í næstu töluliðum).

  4. Vaxtagreiðslur sem þegar hafa átt sér stað í samræmi við tilkynningar frá kröfuhafa skulu standa óhaggaðar og ekki verður krafist hærri vaxta.

  5. Nýir vextir taka eingöngu gildi framvirkt.  Varðandi bílalán er ekki ljóst frá hvaða dagsetningu, en fyrir flest lán ætti það að vera frá því dómur gekk í málum nr. 603/2010 og 604/2010.  Það gæti þó hafa gerst síðar.

  6. Allt sem lánþegi hefur greitt utan vaxta telst greiðsla inn á höfuðstól.  Vextir sem bæst hafa á höfuðstól teljast greiddir vextir, en haldast þó á höfuðstólnum.

Áhrif á lán

Hér fyrir neðan eru nokkur tilbúin dæmi.

Dæmi 1

Lán upp á kr. 10 m er tekið árið 2005 og greitt hefur verið af því samviskusamlega allan tímann.  Heildargreiðslur til dagsins í dag eru 6,5 m.kr. sem skiptast í vaxtagreiðslu samkvæmt samningsvöxtum upp á 2,5 m.kr., vaxtagreiðslu skv. seðlabankavöxtum upp á 0,5 m.kr. og aðrar greiðslur upp á 3,5 m.kr.  Eftirstöðvar lánsins eru því 10 - 3,5 = 6,5 m.kr.

Dæmi 2

Sama lán, nema að lánið var sett í frystingu í heilt ár og vöxtum bætt á höfuðstól.  Heildargreiðslur eru 6,0 m.kr.  Vaxtagreiðslur skv. samningsvöxtum eru 2,2 m.kr., vextir sem bætast á höfuðstól eru 0,3 m.kr., vaxtagreiðslur skv. seðlabankavöxtum eru 0,5 m.kr. og aðrar greiðslur 3,0 m.kr.  Eftirstöðvar lánsins eru því 10 - 3,0 + 0,3 = 7,3 m.kr.

Dæmi 3

Bílalán til 7 ára tekið 2006 að upphæð 2,0 m.kr. og greitt af því allan tímann.  Heildargreiðslur eru 3,0 m.kr. þar af eru heildarvaxtagreiðslur 0,7 m.kr. og afborganir og aðrar greiðslur 2,3 m.kr.  Eftirstöðvar eru því 2,0 - 2,3 = -0,3 m.kr., þ.e. inneign upp á 300 þús. kr.

Dæmi 4

Sama bílalán nema að lánið var sett í frystingu í heilt ár og vöxtum bætt á höfuðstólinn.  Heildargreiðslur eru 2,5 m.kr. þar af eru heildarvaxtagreiðslur 0,5 m.kr., vextir sem bætast á höfuðstólinn 0,2 m.kr. og afborganir og aðrar greiðslur 1,8 m.kr.  Eftirstöðvar eru því 2,0 - 1,8 + 0,2 = 0,4 m.kr.

Lykillinn hér er að vaxtagreiðslur samkvæmt útsendum greiðslutilkynningum sem ekki var á neinum tíma bætt á höfuðstólinn, skipta ekki máli, þegar eftirstöðvar eru fundnar út.  Ógreiddir vextir sem bætt var á höfuðstólinn teljast líka greiddir vextir í þeim skilningi að þeir verða ekki rukkaðir aftur sem vextir, en í staðinn koma þeir til hækkunar á höfuðstólnum og þar með eftirstöðvum.  Allar afborganir eða beinar innáborganir á lánin og allar aðrar greiðslur koma til lækkunar á höfuðstóli lánsi.

Vextir gætu lækkað

Í einhverjum tilfellum gæti verið að samningsvextir hafi verið hærri en seðlabankavextir.  Í þeim tilfellum gilda seðlabankavextir, en ekki samningsvextir og skal þá dagvaxtareikna mismuninn til uppgjörsdags!  Þetta á við um leigusamninga sem teknir voru áður en Seðlabankinn hækkaði stýrivexti upp úr öllu valdi.