Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.2.2012.
Ég veit ekki af hverju ég hef ekki gert þetta áður, en í gær fór ég að velta fyrir mér hver hafi verið nákvæmlega áhrif leiðbeininga FME og Seðlabanka Íslands og síðar Árna Páls-laganna (nr. 151/2010) á heimilin í landinu. Hluti af ástæðunni var að upplýsingar vantaði og þær hafa verið að koma fram smátt og smátt. Hinn hlutinn var að hélt að þetta væri svo flókið.
Í dag lét ég sem sagt slag standa. Náði í allar tölur sem voru tiltækar um gengisbundin lán heimilanna, LIBOR-vexti, seðlabankavexti og gengisþróun. Reyndi að átta mig á hver var upprunaleg lánsfjárhæð á hverju þriggja mánaða tímabili, afborganir og gengisþróun. Vissulega eru niðurstöðurnar háðar einhverjum skekkjum í forsendum og útreikningum, en þær gefa samt grófa niðurstöðu eða eins og Kaninn segir "ball park figures".
Niðurstaðan er sláandi, eiginlega svo sláandi að hreinlega er hægt að tala um grófa tilraun til auðgunarbrots. Útreikningar mínir ná frá 1.1.2004 til nokkurn veginn dagsins í dag.
Munurinn á vaxtagreiðslu með seðlabankavöxtum og samningsvöxtum með stöðu lána fyrir ógildingu gengistryggingarinnar er um 290 milljarðar króna!!!
Ef tekið er tillit til ógildingar gengistryggingarinnar, þá hefðu Árna Páls-lögin fært fjármálafyrirtækjunum rúmlega 357 milljarða kr. í auknar vaxtatekjur!!!
Sagt og skrifað 350 ma.kr. frá 1.1.2004 til dagsins í dag. Og þetta eru bara lán heimilanna.
Á tímabilinu frá 1.1.2004 til 31.12.2007 er þessi tekjuauki fjármálafyrirtækjanna 88,7 ma.kr. og 82,5 ma.kr. Frá ársbyrjun 2008 til 30.9.2008 er tekjuaukinn 72,5 ma.kr. hvort viðmiðið sem er notað og loks frá hruni til dagsins í dag 143,4 ma.kr. gengistryggingin hefði haldist en 202,5 ma.kr. samkvæmt Árna Páls-lögum og tilmælu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.
Taflan hér fyrir neðan sýnir hverjir vextir hefðu orðið miðað við mismunandi forsendur á þremur tímabilum.
Rán í skjóli laga, FME og Seðlabanka Íslands
Ofangreindar tölur sýna, ef rétt er reiknað, að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og tveir efnahags- og viðskiptaráðherrar stóðu fyrir ótrúlegri tilraun til að ræna heimili landsins (og fyrirtæki líka). Vissulega lækkuðu dómdar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 höfuðstóla lána með gengistryggingu lánin mikið, en hvers vegna þurfti að hækka vexti fyrir 1.1.2008 um 83,2 ma.kr. og aðra 67,6 ma.kr. til viðbótar til 30.9.2008? Þetta eru 151,8 ma.kr. umfram það sem lántakar höfðu greitt í samræmi við heimsendar tilkynningar. Hver var tilgangurinn? Að færa "erlendum" kröfuhöfum peninga á silfurfati?
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 er gíðarlegt högg
Gunnar Þ. Andersen, (fyrrverandi) forstjóri FME, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 ekki vera mikið högg á fjármálafyrirtæki. Þetta sé innan viðráðanlegra marka. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að bankinn hafi nóg eigið fé til að ráða við dóminn. Ég trúi Höskuldi svo sem, þar sem Arion banki lánaði lítið út gengistryggt til heimila, en hinum trúi ég ekki. Landsbankinn er í djúpum skít, sama á við um Íslandsbanka, ég get ekki séð að Lýsing sé gjaldfært fyrirtæki eftir þessa niðurstöðu. SPRON/FF/Drómi er nánast ónæmt fyrir niðurstöðunni, þar sem það eina sem breyst hefur hjá þeim er að kröfuhafar fá minna í sinn hlut.
Hvernig sem á það er litið, þá er höggið gríðarlegt miðað við óverðtryggðu vextina. Sé miðað við samningsvexti og bókfært virði lánanna hjá bönkunum (áður gengistryggð lán voru "elt" eftir að þau voru færð yfir í íslenskar krónur), þá er munurinn um 350 ma.kr., sé gert ráð fyrir að "kröfuvirði" haldi sér, þ.e. gengistrygging hafi verið lögleg og samningsvextir haldi sér, er munurinn 290 ma.kr. og miðað við aðdómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 sé fordæmisgefandi fyrir öll áður gengistryggð lán, þá er munurinn 357,5 ma.kr.
Tæknilegar skýringar
Til að skýra nánar töfluna:
Í fyrstu röð eru lánin höfð með gengistryggingu í samræmi við upplýsingar frá Seðlabanka Íslands, þ.e. notað er við bókfært virði lánanna hjá bönkunum eins og þeir senda til SÍ, en frá þriðja ársfjórðungi 2010 taka lánin breytingu eftir gengisþróun til að láta ekki færslu yfir í endurreiknuð lán í íslenskum krónum skekkja myndina.
Í annarri röð fylgja lánin sömu þróun og lánin í fyrstu röð til 30.9.2008, að þau eru uppreiknuð í samræmi við gengisþróun.
Þriðja röðin sýnir aftur lánin í íslenskum krónum frá lántökudegi og með samningsvöxtum.
Loks sýnir fjórða röðin lánin í íslenskum krónum og seðlabankavöxtum.
Til að finna út hvert upphafleg lánsfjárhæð var, er staða í lok ársfjórðungs tekin og reiknuð ætluð afborgun næstu 3 mánuði miðað við að meðallánstími væri 20 ár. Sú upphæð var dregin frá eftirstöðvum. Ný lán á ársfjórðungi fékkst með því að draga stöðu í lok hvers ársfjórðungs frá eftirstöðvum síðasta ársfjórðungs eftir afborganir. Loks var mismunurinn leiðréttur með tilliti til gengisþróunar á ársfjórðungnum. Þannig fékkst tala sem ætla mætti að væru ný lán á hverjum ársfjórðungi í krónum talið. Staða í íslenskum krónum fékkst með því að nota tölu síðasta ársfjórðungs, draga frá ætlaðar afborganir og leggja við ný útlán.
Varðandi gengi annars vegar og samningsvexti hins vegar var gert ráð fyrir að 10% lána væru í USD, 35% í CHF, 35% í JPY og 20% í EUR. Ofan á LIBOR vexti var bætt 2,5% vaxtaálagi. 3,0% álag hækkar samtölu samningsvaxta um 20-30 ma.kr. Önnur samsetning á myntum gæfi vissulega aðra niðurstöðu, en þar um bitamun en ekki stærðarmun að ræða.