Eitt verk óunnið - Stokka þarf upp í þeim sjóðum sem ekki eru að standa sig

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.2.2012. Efnisflokkur: Lífeyrissjóðir

Ég er algjörlega sammála Arnari Sigurmundssyni að menn þurfa að læra af reynslunni.  Því miður segir reynslan okkur, að menn eiga erfitt með að læra af reynslunni.  Best sé að nýir menn læri af reynslu þeirra sem brugðust.  Því skora ég á Arnar Sigurmundsson og aðra stjórnarmenn Landsamtaka lífeyrissjóða að segja af sér auðveldara sé að byggja upp traust á lífeyrissjóðunum.  Einnig er sjálfsagt að allir stjórnarmenn sem sátu í sjóðum fyrir hrun víki sæti og hleypi nýju fólki að.  Fólki er hugsar meira um að verja réttindi sjóðfélaga, en setan sé bitlingur sem ekki þarf að hafa fyrir.  Jafnframt skora ég á þessa sömu aðila að afsala sér rétt til lífeyris meðan tryggingafræðileg staða sjóðanna er lakari en fyrir hrun.  Þið hafið ekki unnið ykkur inn fyrir réttindunum meðan aðrir sjóðfélagar líða fyrir afglöp ykkar

Höfum í huga að tapið 479,7 ma.kr. sem er örugglega ekki endanleg tala, nemur 27% af eignum þeirra í lok september 2008.  Fyrir einstakling sem lagt hefur í lífeyrissjóð í 20 ár, þá jafngildir það að 5,4 ár af iðgjaldagreiðslum og réttindaávinningi hafi þurrkast út (miðað við að tapið dreifist jafnt yfir sjóðina).  Þar sem LSR er með rúmlega fimmtung af tjóninu, þá lendir sá hluti á skattborgurum.

Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki margt í stöðunni.  Okkar margrómaða lífeyriskerfi er í vondum málum.  Gatið milli hreinna eigna og skuldbindinga er orðið mjög stórt.  Opinberu sjóðirnir eru komnir í ógöngur sem ekki verður ratað úr.  Sama hvað verður gert á tekjuhliðinni.  Eina leiðin er að skerða réttindi verulega.  Því miður.  Ekki lagaði 100 ma.kr. tap LSR stöðuna.  Við það fór gatið úr 250 ma.kr. í 350 ma.kr.

Lífeyrissjóðirnir fórnalömb eigin vaxtar

Óhætt er að segja að lífeyrissjóðirnir urðu fórnarlömb eigin vaxtar.  Raunar þeirrar meinloku í kerfinu að hægt væri að safna meira en heilli þjóðarframleiðslu í kerfi sem á að skila meiri ávöxtun en hagkerfið stendur undir.  Til þess að ná ávöxtuninni, þá þurfti sífellt að fara í áhættusamari fjármagnanir/fjárfestingar, fyrir utan að áhættulitlir fjárfestingakostir voru hreinlega ekki nógu margir.  Að þessu leiti var og er sjóðunum nokkur vorkunn, en það réttlætti ekki margar af þeim glórulausu ákvörðunum sem teknar voru.  Það réttlætti ekki að menn klúðruðu algjörlega áhættustjórnun sjóðanna.  Og síðast en ekki síst, réttlætti það ekki að fjárstýringum sjóðanna væri úthýst til aðila sem hugsuðu fyrst um hag síns fyrirtækis og síðan viðskiptavinarins, eins og helst má ráða af skýrslu Hrafnsnefndarinnar.

Ekki var við öðru að búast, en lífeyrissjóðirnir hefðu tapað einhverju, þegar heilt hagkerfi fór á hliðina.  Ég held að ekki séu öll kurl komin til grafar og upphæðin eigi eftir að hækka.  Síðan á eftir að taka á skuldavanda heimilanna og hann verður ekki leystur án aðkomu lífeyrissjóðanna.  Annars gerist það óhjákvæmilega:  Lífeyrissjóðirnir fá Íbúðalánasjóð í fangið.

Áhættustjórnun klikkaði

Já, auðvitað hlutu sjóðirnir að verða fyrir höggi, en það hefði mátt dempa með því að sýna aðgát.  Ég hef aldrei geta skilið þessar gjaldeyrisvarnir sjóðanna.  Þegar ég vann að ráðgjöf fyrir sjóðina um miðjan síðasta áratug, þá einmitt spurði ég fjárfestingastjóra stærstu sjóðanna sem ég vann fyrir út í þetta.  Hvað gerist ef gengið sveiflast um leið og gengi hlutabréfa sveiflast?  Svarið var einfalt:  Þetta jafnar sig út yfir lengri tíma.  Sem sagt ekki var þörf fyrir ráðstafanir til að bregðast við þessu.  Ástæðan fyrir því að ég spurði, var áhættumat sem ég var að vinna fyrir sjóðina.  Ég vildi meta viðkvæmni sjóðanna fyrir forföllum og jafnvel skyndilegu brotthvarfi lykilmanna.  (Ég var ekki að taka á aðferðafræði við fjárstýringar, þannig að áhætta í þeim var ekki mitt viðfangsefni.)  Niðurstaðan þá var að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af, þar sem markaðir sveifluðust en sveiflurnar ættu það til að jafnast út.  Og það sem mestu skipti, lífeyrissjóðirnir væru þolinmótt fjármagn sem hefði tíma (sérstaklega miðað við hina miklu sjóðssöfnun sem var í gangi) til að bíða af sér jafnvel nokkurra ára dýfur.  Hvað breyttist í millitíðinni, veit ég ekki, en menn augljóslega viku frá hinu fyrra áhættumati.

Það sem mér finnst standa upp úr í skýrslunni af því sem miður fór er þetta með gjaldeyrisvarnirnar, víkjandi skuldabréf og stórar stöður hjá tengdum aðilum.  Mér dettur ekki í hug að kenna Exista eða Baugi um það.  Áhættustjórnun lífeyrissjóðanna var ekki í höndum stjórnenda þessara fyrirtækja.  Hún var hjá sjóðunum sjálfum.  Mistökin þar voru líklegast að setja of mörg egg í sömu körfuna.  Kannski var það ekki ætlunin eða menn héldu að þeir hefðu dreift þeim, en á endanum voru þau öll meira og minna í sömu körfunni.

Misjöfn áhrif á sjóðina

Ekki eru allir sjóðir undir sömu sök seldir.   Sé miðað við stöðu sjóðanna í dag, sem er náttúrulega ekki rétt viðmið, en gefur samt hugmynd, þá eru 10 mestu skussarnir sem hér segir (tap sem hlutfall af núverandi stöðu):

  • Eftirlaunasjóður starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar - 48,3% 

  • Lífeyrissjóður verkfræðinga - 47,6%

  • Lífeyrissjóður Vestfirðinga - 39,2%

  • Stafir lífeyrissjóður - 35,2%

  • Gildi lífeyrissjóður - 31,3%

  • Festa lífeyrissjóður - 31,2%

  • Almenni lífeyrissjóðurinn 30,1%

  • Kjölur lífeyrissjóður - 30,0%

  • Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins & Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga - 27,3%

  • Íslenski lífeyrissjóðurinn - 26,8%

Og þeir 10 sem sleppa best:

  • Lífeyrissjóður Neskaupstaðar - 1,6%

  • Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar - 4,2%

  • Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. - 7,5%

  • Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar - 8,1%

  • Lífeyrissjóður bankamanna - 8,9%

  • Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar - 9,1%

  • Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurbæjar - 12,0%

  • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda - 12,9%

  • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja - 13,7%

  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn - 13,7%

Samanlagt eignarsafn skussanna er  959,6 ma.kr. en þeirra sem stóðu sig best 325.3 ma.kr.  Miðhópurinn, sem einnig telur 10 sjóði er með eignir upp á 624,5 ma.kr.  Þannig að viss fylgni er milli stærðar og taps, því þrír stórir sjóðir, þ.e. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (25,9%), Stapi lífeyrissjóður  (25,4%) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn (24,1%), rétt sleppa við að lenda í hópi skussanna.  Ekki vegna þess að þeir hafi staðið sig svo vel, heldur vegna þess hve margir koma mjög illa út.  Á hin bóginn eru bara tveir af tíu stærstu sjóðunum, þ.e. Frjálsi lífeyrissjóðurinn (7) og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (9), sem lenda í hópi þeirra sem standa sig best.  Þó vissulega sé fylgni, þá held ég að meiru skipti reynsla og þekking, því í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sátu margar helstu kanónurnar og hjá Frjálsa er einvala lið fólks sem hefur vit á fjármálum, með Ásgeir Thoroddsen, formann, í fararbroddi.  Efast ég um að hann leyfi neitt annað en fagmennsku af hæsta stigi.

Krafan í kjölfar skýrslunnar er eins og Arnar Sigurmundsson segir.  Menn þurfa að læra af reynslunni.  Þar er fyrsta skrefið að skoða hvað Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Frjálsi lífeyrissjóðurinn eru að gera rétt.  Næsta er að herma sem mest eftir því hjá örðum sjóðum, sem felst í því að skipta um mannskap og einstaklinga með þekkingu, getu og reynslu inn í sjóðina.  Mér þykir það leitt, en sá tími er liðinn að seta í stjórn lífeyrissjóðs sé bitlingur eða fyrir þann næsta í goggunarröðinni.  Út með alla farþega og fáum hæfileika fólk inn.  Þeir sem koma inn geta verið fulltrúar þeirra sem hingað til hafa skipað stjórnarmenn, en við þurfum að færa stjórnarstörf lífeyrissjóðanna upp um nokkrar deildir.  Þetta er ekki lengur vel launað hobbí, heldur dauðans alvara.

(Tekið skal fram að ég er ekki að ásaka einn eða neinn um að hafa ekki lagt sig fram.  Það sem var gert, var augljóslega ekki nóg í tilfelli allt of margra sjóða.  Úr því þarf að bæta og hér er ekkert pláss fyrir tilfinningasemi eða meðvirkni.)