Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.11.2012.
Ég heyrði um daginn stutt viðtal við Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka. Heimir og Kolla ræddu við hana í þættinum sínum Í bítið á Bylgjunni. M.a. var rætt um þessi 11 mál sem valin voru til að greiða úr ágreiningi vegna útreiknings vaxta áður gengistryggðra lána. Án þess að vita hvaða mál þetta eru, sem valin voru, þá hef ég alltaf haft þá tilfinningu, að þau hafi verið valin út frá hagsmunum bankanna og á forsendum bankanna, en ekki til að greiða í raun og veru úr þeim ágreiningi sem uppi er. Hér gæti ég verið að misskilja hlutina, en lögmenn, sem ég hef rætt við taka undir þennan skilning minn.
En aðeins aftur að Unu. Hún sagði nokkuð sem ég óttaðist að myndi verða. Íslandsbanki er að túlka niðurstöðu Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012 á mjög frjálslegan hátt. Raunar svo frjálslegan, að ég reikna með dómsmálum í kjölfar kolvitlausra útreikninga bankans. Það sem ég hjó í, í máli Unu var vísun í seðlabankavexti fyrir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingarinnar. Hvernig sem allt fer getur það aldrei gerst og raunar hefur Hæstiréttur ítrekað sagt að rangan lagaskilning sé eingöngu hægt að leiðrétta til framtíðar. En þessi túlkun Íslandsbanka hefur leitt til þess að bankinn ætlar að draga til baka þrjú af þessum 11 málum.
Stærsti ágreiningurinn
Mikilvægasta málið sem ég tel að þurfi að fá á hreint, er hvort Hæstarétti hafi verið heimilt að breyta vöxtum áður gengistryggðra lána í dómi sínum í máli 471/2010. Í 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936 segir:
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Þetta ákvæði var innleitt með lögum nr. 14/1995 til þess að uppfylla ákvæði tilskipunar ESB 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Tökum sérstaklega eftir orðum síðari setningar málsgreinarinnar:
Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Evrópudómstóllinn vísaði til þessa ákvæðis í dómi sínum í máli C-618/10 frá 14. júní í sumar. Þar var fjallað um mál þar sem spánskur dómstóll hafði úrskurðað að dráttarvextir af láni hafi verið ósanngjarnir og dómstóllinn ákveðið að í staðinn ættu að gilda lægri "sanngjarnir" dráttarvextir. Niðurstaða Evrópudómstólsins var að það væri ekki hlutverk dómstóla að íhlutast um eða ákveða sanngjarnt ákvæði í neytendasamningi hafi dómstóllinn ákveðið að eitthvað annað ákvæði væri ósanngjarnt. Hafi ákvæðið um dráttarvextina talist ósanngjarnt, þá félli ákvæðið hreinlega niður og ekkert annað kæmi í staðinn.
Hvers vegna eiga dómstólar ekki að ákvæða sanngjarnt ákvæði í stað ósanngjarns ákvæðis sem fellt er niður? Svarið við þessu er sáraeinfalt:
Ef dómstólar íhlutast um innihald samnings með því að ákveða "sanngjarnt" ákvæði í staðinn fyrir ósanngjarnt, þá munu fyrirtæki sem útbúa samninga einfaldlega ganga á lagið og hlaða samningana ósanngjörnum og íþyngjandi ákvæðum vitandi að það versta sem gerist er að dómstóll mun slá á fingur þeirra, en færa ákvæðin niður í það sem dómstóllinn álítur sanngjarnt. Fyrirtækið tapar sem sagt engu á því að brjóta lög um ósanngjarna samningsskilmála.
Því miður lét Hæstiréttur glepjast í máli 471/2010 og þess vegna sitjum við uppi með þá fáránlegu niðurstöðu, að vextir lánanna voru hækkaðir í leit Hæstaréttar eftir "sanngirni".
Gengislán og C-618/10
Ef við heimfærum niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10 yfir á gengistryggðu lánin, þá er staðan sú að ósanngjarn samningsskilmáli, þ.e. verðtryggingarákvæði sem stríddi gegn lögum, var dæmdur ógildur með dómum 92/2010 og 153/2010. Í máli 471/2010 gleypti Hæstiréttur við þeim málflutningi fjármálafyrirtækisins að ófrávíkjanleg tengsl væru á milli gengistryggingarinnar og vaxtanna og því bæri að ógilda vaxtaákvæðið líka. Síðan kom Hæstiréttur með sína furðulegu ályktun, að þá bæri að líta svo á að engir vextir væru á láninu og því skuli styðjast við 4. gr. laga 38/2001.
Dómur Evrópudómstólsins féll ekki fyrr en 14. júní 2012 og því gat Hæstiréttur ekki haft hann til hliðsjónar eða notað sem fordæmi. Ég sagði samt strax í framhaldi dóms 471/2010 að rétturinn hafi brotið gegn tilskipun 93/13/EBE og hef ekki skipt um skoðun. Var ég því mjög glaður, að sjá Evrópudómstólinn komast í einu og öllu að sömu niðurstöðu í máli C-618/10, þ.e. að ósanngjarn skilmáli fellur niður og EKKERT kemur í staðinn.
Hæstiréttur gekk gegn tilskipun 93/13/EBE, þegar hann ákvað að aðrir skilmálar ættu að koma í staðinn fyrir ósanngjarna skilmála lánssamnings sem áður hafði verið gengistryggður. Hann ákvað að skera fjármálafyrirtækin niður úr snöru eigin mistaka.
Höfum í huga, að Evrópudómstóllinn hefur nokkrum sinnum snuprað landsdómstóla fyrir að huga ekki að neytendarétti í úrskurðum sínum. Raunar hefur dómstóllinn gengið svo langt að segja nokkuð ótvírætt, að landsdómstólar skuli taka tillit til neytendaréttarákvæða/neytendaverndar þó svo að slíkar málsástæður/röksemdir séu ekki hafðar uppi í dómsmálum! Samkvæmt þessu bar Hæstarétti að líta til 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936 áður en rétturinn ákvað að samningsvextir gengistryggðra lána gætu ekki haldið og fara ætti eftir 4. gr. laga 38/2001 við ákvörðun vaxta í staðinn. (Ég hef áður bent á vitleysuna í þeirri ákvörðun út frá 2. gr. laga 38/2001, en ætla ekki að fjalla um það hér.)
Jæja, en hver er þá niðurstaðan? Hún getur verið tvíþætt og er sú fyrri algjörlega í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10:
1. Hæstiréttur hefði í máli 471/2010 átt að hafna þeim málflutningi fjármálafyrirtækisins, að ekki væri hægt að efna samninginn með samningsvöxtum. Þó svo að ekki verði lengur tilgreindar myntir í samningnum, þá er lítill vandi að miða við upprunalega myntskiptingu og segja að hafi lán verið upprunalega verðtryggt 50/50 í jenum og frönkum, þá eru vextir lánsins einfaldlega 0,5*japanskir vextir + 0,5*svissneskir vextir + vaxtaálag samkvæmt samningi. Rök um að engin tenging sé milli íslenskrar krónu og vaxtanna skipta ekki máli, þar sem hægt er að efna samninginn á þennan hátt, sbr. síðari setningu 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga 7/1936. Þetta þýðir að vextir miðast við samningsvexti á íslenskan höfuðstól/eftirstöðvar á hverjum tíma. Undantekningin er að aldrei skal þó greiða hærri vexti en greiddir hafa verið (vegna gildi fullnaðarkvittunar), en á þeim tíma þegar krónan var sterk, þá gætu gengisreiknaðar eftirstöðvar hafa verið lægri, en eftirstöðvar án gengisútreiknings. Lántakar eiga samkvæmt þessu inni ofgreiddar vexti á því tímabili, þegar gengi einstakra mynta var sterkara (krónan veikari gagnvart myntunum) en var á lántökudegi. Allt tal um seðlabankavexti er því úr sögunni.
2. Hæstiréttur keypti í máli 471/2010 þann rökstuðning, að samningsvextir væru ófrávíkjanlega bundnir gengistryggingarákvæði samninganna og þar sem gengistryggingin hafði verið vikið til hliðar, þá bæri að víkja samningsvöxtunum líka til hliðar. Ég hef aldrei getað skilið með hvaða lagarökum þetta var gert. Þau eru mér vitanlega ekki fyrir hendi. Ef einhver hefur slík lagarök á takteinum, þá væri gott að fá þau. En hvað þýðir þetta miðað við C-618/10? Hér er hin hræðilega staðreynd fyrir fjármálafyrirtækin:
Enga vexti má innheimta af lánunum og ekki er hægt að vísa til 4. gr. laga 38/2001, þar sem verið er að ógilda ósanngjarna skilmála og 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga 7/1936 kemur í veg fyrir að skipta megi ósanngjörnum skilmálum út fyrir "sanngjarna".
Höfum alveg á hreinu, að lögin eiga ekki að vernda fjármálafyrirtækin fyrir eigin mistökum. Lögin eiga að vernda veikari aðila samningssambands gegn ofríki sterkari aðilans. Hafi sterkari aðilinn drullað upp á bak, þá verður hann bara að bera það tjón sjálfur.
Niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010 má helst líkja við að í knattspyrnuleik hafi, segjum FH (Íslandsmeistararnir í fótbolta), teflt fram ólöglegum leikmanni í bikarleik gegn Augnabliki (í 3. deild). Segjum að FH hafi unnið leikinn 15-0, en þar sem liðið tefldi fram ólöglegum leikmanni, þá hafi málið ratað til dómstóla og endað hjá Hæstarétti. Hefði rétturinn fylgt sömu rökum og í máli 471/2010, þá hefði FH komist upp með mistök sín, talist hafa unnið leikinn 9-0 og fengið sæti í næstu umferð bikarsins. Það hefðu nefnilega verið líklegustu úrslitin ef FH-ingar hefðu spilað manni færri allan leikinn! En þannig er það ekki í fótboltanum. Hafi menn rangt við, þá tapast leikurinn 3-0 og engar refjar um það. Sama gildir um neytendavernd. Hæstiréttur á bara eftir að fatta hve leikreglurnar eru í raun einfaldar.