Færslan var first birt á Moggabloggi höfundar 8.11.2012.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp enn einn tímamótadóminn. Nú er það um endurútreikning áður gengistryggðs bílaláns. Stóra niðurstaðan í þessum dómi er án efa:
Með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 verður jafnframt fallist á það með stefnanda að stefnda sé ekki heimilt að beita ákvæðum laga nr. 151/2010 sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, við útreikning á eftirstöðvum samnings aðila, afturvirkt á íþyngjandi hátt gagnvart stefnanda. Slík beiting væri andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins.
Undanfarna daga hefur þetta atriði verið mikið til umræðu og hef ég tekið virkan þátt í henni. Afstaða mín hefur svo sem ekkert breyst frá því 16. júní 2010, þegar fyrstu gengislánadómarnir gengu í Hæstarétti, þ.e. að ekki væri hægt að gera breytingu á vöxtum afturvirkt. Nú er búið að staðfesta þetta gagnvart íbúðalánum einstaklinga, lánum lögaðila og í dag bílaláni lögaðila.
Það sem gerir dóminn í dag svo sérstakan, er að aðalmeðferð málsins var 4. október sl., en það var endurflutt 30. október, þ.e. 12 dögum eftir að dómur 464/2012 (Borgarbyggð gegn Arion banka) gekk í Hæstarétti. (Ég sé að vísu að Lýsing er að reyna að gera lítið úr dómnum, þar sem greinargerð hafi verið send inn áður en dómur gekk í máli 600/2011.) Annað sem gerir þennan dóm mjög sérstakan er að maður sem kann að reikna (Gunnlaugur Kristinsson, endurskoðandi) er fenginn til að vinna kröfugerðina í málinu. Ég tel því líklegt, að aldrei áður hafi dómstólar fengið til umfjöllunar jafn nákvæma og rétta útreikninga og í þessu máli. Er ég þar alls ekkert að gera lítið úr öðrum, en ég held einfaldlega að Gunnlaugur sé hér fremstur meðal jafningja, þegar að þessum útreikningum.
Rökleiðsla dómara
Þegar dómur héraðsdóms er lesin, þá er ljóst að farið er þokkalega ítarlega yfir málið. Dómurinn er byggður á dómum Hæstaréttar hvað lagarök snertir, þó útreikningarnir séu ólíkir, þar sem mun faglegra er staðið að þeim í þessu máli. En hér er meginrökleiðsla dómsins:
Kemur því næst til skoðunar hvort þau skilyrði sem rakin voru í margnefndum dómi Hæstaréttar nr. 600/2011 og voru jafnframt til umfjöllunar í nýuppkveðnum dómi réttarins frá 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, séu uppfyllt í þessu máli.
Fyrsta atriðið sem líta verður til er hvort stefnandi hafi verið í góðri trú um að þær greiðslur sem hann innti af hendi hafi falið í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu. Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að stefndi sendi stefnanda frá fyrsta gjalddaga samningsins, 10. desember 2006 til og með 10. júní 2010, greiðsluseðla þar sem fram kom upphæð afborgunar og vaxta auk gengis þeirra erlendu mynta sem lánið var tengt við. Stefnandi greiddi þá fjárhæð sem tiltekin var á seðlinum og fékk kvittun fyrir í samræmi við þá greiðslu. Hafa verður til hliðsjónar að á þeim tíma er stefnandi greiddi afborganir og vexti samkvæmt útreikningi stefnda, leit hvorugur aðili samningsins svo á að sú fjárhæð sem var til greiðslu hverju sinni, væri bundin við ólögmæta gengistryggingu. Í ljósi þess verður að telja að stefnandi hafi verið í góðri trú um að hann þyrfti ekki að greiða frekari greiðslur en þær sem hann hafði þegar innt af hendi. Sú málsástæða stefnda að stefnanda hafi verið ljóst að hann hefði þurft að greiða hærri vexti ef ekki hefði verið um gengistryggt lán að ræða og að það leiði til grandsemi stefnanda um ólögmæti samningsins er órökstudd með öllu og því haldlaus. Loks þykir sú málsástæða stefnda að stefnandi hafi verið grandsamur að minnsta kosti frá og með 3. september 2009, þegar hann krafði stefnanda um leiðréttingu og endurgreiðslu vegna samningsins, gegn andmælum stefnanda, of seint fram komin.
Næsta atriðið sem kemur til athugunar lýtur að skuldbindingu stefnanda. Stefnandi skuldbatt sig samkvæmt samningi aðila til þess að greiða stefnda 5.972.738 kr. með 60 afborgunum á fimm árum. Hinn 31. janúar 2011, þegar samningurinn hafði verið endurútreiknaður af hálfu stefnda, hafði stefnandi þegar greitt 43 afborganir af láninu eða alls 4.260.973 kr. Þar að auki hafði stefnandi greitt 764.459 kr. í vexti. Samkvæmt endurútreikningi stefnda voru endurreiknaðir vextir fram að síðasta greidda gjalddaga 2.200.784 kr. Mismunurinn á milli þeirrar fjárhæðar sem stefnandi hafði þegar greitt í vexti við endurútreikning lánsins og fjárhæðar endurútreiknaðra vaxta fyrir tímabilið 10. desember 2006 til 10. júní 2010, þ.e. 1.436.325 kr., er sú fjárhæð vaxta sem stefndi krefur stefnanda um til viðbótar fyrir liðna tíð. Þykir sú fjárhæð umtalsverð þegar haft er í huga að upphafleg heildarfjárhæð bílasamningsins var 5.972.738 kr.
Loks ber að kanna hvort einhver aðstöðumunur hafi verið milli aðila við gerð bílasamningsins. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sérþekkingu á sviði fjármála og því sé ekki hægt að líta svo á að stefndi hafi haft yfirburðastöðu við gerð samningsins...Að framangreindu virtu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á af hálfu stefnda að stefnandi hafi á einhvern hátt komið að samningsgerðinni eða að skilmálar samningsins hafi ekki verið ákvarðaðir einhliða af stefnda.
Dómurinn fylgir því í öllu þeirri rökleiðslu sem Hæstiréttur notaði í málum 600/2011 og 464/2012. Fæ ég því ekki betur séð, en að staðfesti Hæstiréttur þennan dóm, þá fáist mikið fordæmisgildi fyrir lán til styttri tíma.
Máli að linni
Mjög mörg mál, þar sem tekist er á um gengistryggingu og vaxtaútreikning, hafa farið fyrir dómstóla. Fjármálafyrirtækin hafa reynt að véfengja hvern einasta úrskurð, sama hve afgerandi hann virðist vera. Í öðrum tilfellum, þar sem allt stefndi í að lykilmál kæmust í gegn um dómskerfið, hafa fjármálafyrirtæki gripið til þess ráðs að semja utan dómstóla til að forðast fordæmið. Grófasta dæmið um það er mál Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands, þar sem menn sömdu örfáum dögum áður en taka átti málið fyrir í Hæstarétti. Önnur fjármálafyrirtæki hafa gert það sama.
Með þessu hefur fjármálafyrirtækjunum tekist að draga málin alveg óheyrilega á langinn. Nú er mál að linni. Komnar eru mjög skýrar leiðbeiningar frá Hæstarétti um að ekki er heimilt að endurreikna vexti á þegar greidda gjalddaga, þar sem greitt var í samræmi við útsendar greiðslutilkynningar í samræmi við ákvæði samnings. Einnig hefur Hæstiréttur sagt að misskilningur í lagatúlkun verði bara leiðréttur til framtíðar, þegar sterkari aðilinn (fjármálafyrirtækið) gæti átt eitthvað inni hjá veikari aðilanum (lántakanum). Út frá þessum tveimur atriðum eiga fjármálafyrirtæki að geta leiðrétt endurútreikninga sína, þannig að eytt verði út úr útreikningum þeirri fásinnu að endurreikna þegar greidda gjalddaga. Í málinu hér að ofan bættu þessir arfavitlausu útreikningar við 1.436.325 kr. ofan á þegar greidda vexti upp á 764.459 kr. Í málum sem ég hef fengið til mín erum við stundum að tala um vel yfir tug milljóna, ef ekki tugi milljóna, ofan á lán sem upphaflega var 20 m.kr.
Ég skil ekki hvernig fjármálafyrirtækjunum dettur í hug að slík gullgerðarvél sé til og þá lögleg.
Tap flestra lánþega á hruninu er gríðarlegt, hvort heldur lánið er verðtryggt, óverðtryggt, löglega gengistryggt eða ólöglega gengistryggt, þá hefur hrunið leitt af sér óheyrilegt tap. Lán sem áttu að vera hagstæð og grunnur að nýju lánakerfi reyndust vera stærsta svikamylla Íslandssögunnar. 10 m.kr. lán sem átti að greiðast upp á 30 árum með heildargreiðslu upp á innan við 16 m.kr. endar allt í einu að vera upp á 25 m.kr. eftirstöðvar og eftir er að greiða af láninu í 25 ár á himinn háum vöxtum. Forsendur fjármálafyrirtækisins voru að fá 15,4 m.kr. til baka með vöxtum. Þar sem nánast allir upprunalegir lánveitendur eru annað hvort í slitameðferð eða farnir undir græna torfu, þá finnst mér hreina eðlilegast að tekið verði mið af upprunalegri greiðsluáætlun í íslenskum krónum og málin kláruð á þeim nótum. Vissulega þýðir þetta að kröfuhafar hinna föllnu fyrirtækja fá ekki jafn mikið og annars, en eins og staðan er í dag varðandi þjóðarskuldir, þá er það til bóta. Einhver segir að Lýsing standi öðruvísi, en ég held að það sé bara sýndarleikur. Lýsing skuldar erlendum kröfuhafa háar upphæðir og þær geta ekkert frekar farið úr landi, en greiðslur til vogunarsjóðanna sem eiga hrunbankana. Þetta snýst ekki lengur um að hámarka endurheimtur því slíkt stefnir efnahag þjóðarinnar í voða.