Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.1.2012. Efnisflokkur: Lánasöfn
Nú er vika síðan ég var boðaður á fund Hagfræðistofnunar til að sjá drög að þeirri skýrslu sem gefin hefur verið út. Við lestur draganna féllust mér eiginlega hendur svo margt einkennilegt var í þeim. Lokaútgáfan byrjar á sömu einkennilegheitunum.
Hagfræðistofnun skilur ekki gögn sem hún notar
Fyrsta atriðið sem hnotið er um í skýrslu Hagfræðistofnunar er á bls. 4 undir samantekt. Þar segir:
Að því að fram kemur í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja frá október 2011 hafa íbúðalán verið færð niður um 144 milljarða króna vegna 110% leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurreiknings gengisbundinna lána, en kostnaður vegna taps fjármálafyrirtækja af gjaldþrotum einstaklinga liggur ekki fyrir. Þá voru vaxtabætur hækkaðar um 12 milljarða á árunum 2011 og 2012 og eru þær nú um 30% af vaxtagreiðslum einstaklinga.
Sagt er að upplýsingarnar séu fengnar úr Þjóðhagsáætlun 2012, (Skýrsla um efnahagsstefnu), bls. 8.
Sé bls. 8 í tilvísuðu efni lesin og samantekt SFF frá í október, þá kemur ekki það fram sem lesa má í skýrslu Hagfræðistofnunar. Í fyrsta lagi er eingöngu sagt að vaxtabætur séu 12 ma.kr. en ekki greint frá því að þær séu 30% af vaxtagreiðslum einstaklinga. Í öðru lagi þá segir hvorki í skýrslunni né samantekt SFF að íbúðalán hafi verið færð niður um 144 ma.kr. Báðar heimildir nefna að gengisbundin fasteignalán hafi verið færð niður um 92 ma.kr. og SFF nefnir að niðurfærsla vegna 110% leiðarinnar sé 27,2 ma.kr. og 5,6 ma.kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar. Hafa skal í huga að þetta eru leiðréttingar eða niðurfærslur hjá ÖLLUM fjármálafyrirtækjum, en ekki bara bönkunum þremur.
Hagfræðistofnun var bent á þetta og er raunar ALLUR textinn hér að ofan beint upp úr athugasemdum HH til Hagfræðistofnunar. Já, búið er að benda stofnuninni á að hún sé að fara með rangt mál, en samt breytir hún engu!
Fræðilegt vaxtatap en raunverulegur vaxtahagnaður
Á bls. 6-7 í skýrslunni talað um "vaxtatapið" sem bankarnir þrír verða fyrir við að taka yfir útlán viðskiptavinanna sem færðir voru með valdi frá hrunbönkunum. Skoðum hvað þar segir með leturbreytingu minni:
Niðurfærslum var ætlað að endurspegla bæði tapáhættu og afföll vegna hárra markaðsvaxta. Var talið að margir myndu eiga erfitt með að standa í skilum á lánum á þeim krepputímum sem færu í hönd. Þá myndu nýju bankarnir aðeins geta fjármagnað sig á innlendum markaði og vextir sem þar buðust væru hærri en (fastir) vextir þeirra lána sem nýju bankarnir höfðu eignast.
Þessi staðhæfing um háa markaðsvextir eru algjör steypa. Það þarf ekki annað en að skoða stofnefnahagsreikning nýju bankanna til að sjá að þeir voru ekki að fjármagna sig með skuldabréfum á innlendum markaði heldur með innlánum. Vextirnir sem bönkunum buðust voru því verulega miklu lægri en þeir sem voru á lánunum. Er það grafalvarlegur hlutur að Hagfræðistofnun sé ekki gagnrýnni á þessa framsetningu, sem augljóslega heldur ekki vatni. Tafla 1 á bls. 7 er því í besta falli skemmtiefni og kemur efni skýrslunnar að öðru leiti ekkert við.
Þess fyrir utan. Hvernig getur það verið að lán sem tekin eru yfir á með verulegum afslætti mynda vaxtatap? Skýring Hagfræðistofnunar er að "markaðsvextir" hefðu verið hærri og því hefðu bankarnir þrír átt að fá afföll vegna þeirra.
Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þetta, enda er ég ekki hagfræðingur. Hvernig getur banki sem kaupir 100 milljarða virði af lánum á segjum 70 milljarða haft vaxtatap á viðskiptunum, þegar hann heldur áfram að rukka 100 milljarða? Annað hvernig getur hann verið með vaxtatap, þegar hann borgaði fyrir lánin með því að taka á sig skuldir í formi innlána, sem báru nánast enga vexti? Þriðja, hvernig er hægt að tala um vaxtatap, sem hefði orðið ef bankarnir hefðu fjármagnað sig á markaði, þegar þeir fjármögnuðu sig ekki á markaði? Loks má spyrja: Hefðu bankarnir orðið fyrir vaxtatapi, ef lánin hefðu orðið eftir í gömlu bönkunum, lánþegar fengið ný lán (á sömu vöxtum) hjá nýja bankanum, greitt gamla bankanum upp lánið, sem síðan hefði greitt nýja bankanum fyrir að taka yfir innstæðurnar? Eitt í viðbót: Verða nýju bankarnir fyrir tapi af því að lána viðskiptavinum sínum á lágum vöxtum, þegar þeir geta ekki komið fjármagninu sem er inni í bönkunum út?
Gömlu bankarnir fjármögnuðu sig að miklu leiti á markaði, en þeir nýju hafa ekki gert það. Stærsti hluti fjármögnunar þeirra er í formi innlána og stærstur hluti þeirra er á lágum vöxtum. Það getur verið að samkvæmt fræðunum, þá sé rétt að miða við markaðsvexti skuldabréfa, en í raunveruleikanum þá fór fjármögnunin fram á allt annan hátt. Verður því að hafna því alfarið að bankarnir hafi orðið fyrir vaxtatapi við yfirtöku lánanna. Enn síður á þetta við eftir að Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Alþingi ákváðu að gefa nýju bönkunum seðlabankavexti á áður gengistryggð lán langt aftur í tímann.
Eitt í viðbót varðandi þetta. Bankarnir hafa allir verið að bjóða mun hagstæðari lán en sem nam ímynduðum markaðsvöxtum í október 2008. Meira að segja bera sum þessara lána neikvæða raunvexti. Miðað við það, þá eru bankarnir að græða á tá og fingri á yfirteknu lánunum.
Talnaleikur um bókfært virði lána
Á bls. 8 er farið í mikla talnaleikfimi til að skýra út hve hátt bókfært virði íbúðalána hefði verið á hverjum tíma. Niðurstaða þeirra leikfimiæfinga er verðtryggð lán að bókfærðu virði 218,8 ma.kr. voru færð yfir á 153,7 ma.kr. og gengisbundin að bókfærðu virði 48,1 ma.kr. voru færð yfir á 36,8 ma.kr. Alls gerir þetta að íbúðalán að bókfærðu virði 266,9 ma.kr. fóru yfir á 190,5 ma. kr. Afslátturinn var því 76,4 ma.kr. eða 28,6%. Eftir urðu í gömlu bönkunum og hjá öðrum aðilum lán sem voru bókfærð á 248,8 ma.kr. eða 48,2% af lánunum. Vil ég biðja fólk um að muna þessa tölu þegar lengra er komið.
Að gengisbundin án hefðu verið færð yfir með aðeins 26,3% afslætti er ekki í samræmi við upplýsingar í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Þar segir nefnilega á bls. 30:
Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum. (Leturbreyting MGN)
Já, það er stórmerkilegt að Hagfræðistofnun kemst að annarri niðurstöðu en fjármálaráðherra gerði fyrir tæpum 10 mánuðum. Fjármálaráðherra segir að "öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming" meðan Hagfræðistofnun segir að gengisbundin lán hafi bara verið færð niður um 26,3%. Þessi skilningur Hagfræðistofnunar var í drögunum og spurðu Hagsmunasamtök heimilanna út í þetta í athugasemdum sínum við drögin. Stofnunin kýs að svara þessu ekki.
Lán sem ekki fóru á milli
Hagfræðistofnun kemur með upplýsingar um lánin sem ekki fóru á milli:
Kaupþing Mortage Institutional Investor Fund (KMIIF) átti verðtryggð lán að bókfærðu virði114 ma.kr. (bæði í september og október).
Kaupþing hafði lagt verðtryggð fasteignalán og gjaldeyrislán inn í Seðlabankann sem veð í endurhverfum viðskiptum. Bókfært virði þeirra í september 2008 virðist hafa verið 71 ma.kr. (tölur ekki ljósar, en sagt að bókfært virði þeirra hafi verið 52 ma.kr. í janúar 2010 eftir 19 ma.kr. niðurfærslu. Skiptist í 28 ma.kr. gengisbundin lán og 24 ma.kr. verðtryggð lán.
Í september 2008 voru íbúðalán að fjárhæð um 50 ma.kr. flutt í Íbúðalánasjóð frá Landsbanka Íslands og Glitni. Hagfræðistofnun segir að draga þurfi þau frá þegar leitað er að skýringu á mismuninum milli september og október. - Hafi verið færð yfir í september, þá er rökréttast að álykta að þau hafi verið í tölum Íbúðalánasjóðs í september en ekki bankanna. Var verið að falsa bókhald bankanna eða kann Hagfræðistofnun aðra skýringu?
Loks urðu gengisbundin lán að upphæð 14 ma.kr. eftir í gömlu bönkunum
Samkvæmt þessu fóru lán að upphæð 249 ma.kr. ekki yfir í nýju bankana við stofnun þeirra.
Svigrúmið vegna íbúðalána
Hagfræðistofnun kemst að þeirri niðurstöðu að svigrúm vegna íbúðalána hafi verið 95 ma.kr., þ.e. 70,9 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána. En er þetta vegna allra lánanna sem voru í gömlu bönkunum fyrir hrun? Nei, langt því frá. Þetta er vegna verðtryggðra lána sem voru að bókfærðu virði 248,6 ma.kr., en lán að bókfærðu virði 164 ma.kr. voru fyrir utan þetta. 70,9 ma.kr. eru 28,5% af yfirfærðu upphæðinni. Það er hærri upphæð en Hagsmunasamtök heimilanna hefur farið fram á að verði leiðrétt! Raunar kemst Hagfræðistofnun að því síðar í skýrslunni að krafa HH sé upp á 18,7%! Rétti upp hönd þeir sem hafa fengið þennan afslátt.
Næst eru það gengisbundnu lánin. Lán að bókfærðu virði 89,1 ma.kr. voru færð yfir og nam afslátturinn 24,3 ma.kr. eða 26,3%! Eigum við að trúa því, að verðtryggð lán hafi verið færð meira niður en gengistryggð? Ég segi bara: Áttu annan betri? Þess fyrir utan, eins og getið er að ofan, þá kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, að "öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming". Já, öll, ekki sum.
Þar sem ég átti von á því að menn reyndu að fela sig í talnamengun, þá lagði HH að mínu frumkvæmi 10 spurningar fyrir Hagfræðistofnun snemma í vinnuferlinu. Ein spurningin er beint um þetta efni, þar sem mér datt í hug að reynt yrði að menga talnaflóruna með misvísandi gögnum:
6. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti. Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt. Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta? Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan?
(130 ma.kr. er tala frá Samtökum fjármálafyrirtækja sem enginn skilur nema kannski SFF.)
Hagfræðistofnun svaraði þessari spurningu að sjálfsögðu ekki.
Er svigrúmið fullnýtt?
Jæja, þá er komið að því að bera saman tölur. Stóri dómur Hagfræðistofnunar er að svigrúmið sé fullnýtt þar sem Samtök fjármálafyrirtækja segja að svo sé eða því sem næst. Skýring Hagfræðistofnunar er sem hér segir:
Eftirgjöf á íbúðalánum samkvæmt 110% leiðinni er 31,3 ma.kr. hjá fjármálafyrirtækjum! Ath. að inni í þeirri tölu eru líka sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir, þannig að talan hjá bönkunum er lægri. Síðan bætir stofnunin við að 4,6 ma.kr. hafi verið færðir niður hjá Íbúðalánasjóði.
Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar er 6 ma.kr. - Hér er hvorki greint á milli hvort skuldirnar eru íbúðalán eða aðrar skuldir né hvað heyrir undir bankana og hvað undir önnur fyrirtækin innan SFF.
Umreikningur á gengislánum vegnahæstaréttardóma nam að sögn SFF 101 ma.kr. Þessi tala er hvergi sannreynd og aftur er ekkert sagt til um hvernig skiptingin er milli fjármálafyrirtækja.
Samtals gerir þetta 144 ma.kr. sem búið er að færa niður íbúðalán hjá fjármálafyrirtækjum, íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.
Við lok þessarar upptalningar hjá Hagfræðistofnun segir í lok 2. kafla á bls. 11:
Samanlagðar niðurfærslur bankanna eru því nokkuð umfram þann mun sem fram kemur á virði íbúðalána í september og október 2008. Af því má ráða að það svigrúm sem verið hafi til að færa niður íbúðalán hjá bönkunum hafi þegar verið nýtt og ríflega það. Sérstaklega á þetta við um gengisbundin lán, enda var við stofnun nýju bankanna ekki gert ráð fyrir öðru en að þau lán væru lögleg.
Skoðum þetta nánar:
Bankarnir þrír fengu afslátt upp á 95 ma.kr. vegna íbúðalána, þar af 71 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána.
Bókfært virði gengistryggðra íbúðalána bankanna þriggja var 103,1 ma.kr. í lok september 2008, af þeim urðu 14 ma.kr. lán eftir í gömlu bönkunum, þannig að lán að bókfærðu virði 89 ma.kr. voru færð yfir í tveimur færslum.
Öll fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir hafa fært niður lán (önnur en bílalán) um 144 ma.kr. og þess vegna er svigrúmið búið.
Ef þetta er fagmennskan sem viðgengst hjá Hagfræðistofnun, þá legg ég til að skipt verði um starfslið.
Niðurfærsla sem átt hefur sér stað á verðtryggðum íbúðalánum bankanna er í allra hæsta lagi 37 ma.kr., en líklega umtalsvert lægri. Ég ætla leyfa mér að giska á innan við 30 ma.kr. Eftir eru því ríflega 40 ma.kr.
Af þessum á hámarki 30 ma.kr. var líklega hluti vegna lána voru í eigu KMIIF og önnur sem fluttust til Íbúðalánasjóðs. Sá hluti niðurfærslunnar verður því ekki tekinn af svigrúmi bankanna, heldur lendir hann á eigendur lánanna, þ.e. ÍLS og KMIIF. Sé þetta í réttum hlutföllum, þá skrifast 12 ma.kr. á aðra eigendur en bankanna og bankarnir hafa því aðeins nýtt 18 ma.kr. af svigrúminu í að lækka verðtryggð lán í sinni eigu.
Gengisbundin lán sem færð voru yfir voru að bókfærðu virði 89 ma.kr. Ekki er nokkur möguleiki að þau standi fyrir 101 ma.kr. niðurfærslu. Bankarnir fengu, að sögn Hagfræðistofnunar, 24 ma.kr. í afslátt, en samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra fengu þeir að minnsta kosti 44,5 ma.kr. í afslátt. Hagfræðistofnun gerir heldur enga tilraun til að reikna vaxtahagnað bankanna vegna áhrifa Árna Páls laganna, en í mörgum tilfellum þá fengu lántakar nánast enga lækkun á lánum sínum. Hvort sem bankarnir notuðu alla þessa 24 ma.kr. eða ekki þá er allt umfram 24 ma.kr. utan svigrúmsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði höfuð áherslu á að ekki mætti færa afslætti á milli lánaflokka og því má ekki færa afgang af afslætti vegna verðtryggðra lána yfir á gengisbundin lán.
Mín niðurstaða er því að svigrúmið hefur ekki verið fullnýtt. Raunar er langur vegur í að það hafi verið fullnýtt. Miðað við það sem að ofan segir, þá eru bankarnir líklegat búnir að nýta annars vegar 24 ma.kr. (mér finnst talan vera of há) af svigrúmi vegna gengisbundinna lána og 18-19 ma.kr. vegna verðtryggðra lána. Alls hafa bankarnir því nýtt 42-43 milljarða af svigrúminu og eftir eru 52-53 milljarðar króna.
Eftir er að nýta 52-53 milljarða af svigrúminu eða um 55% af því!
Spurningar sem óskað var svara við
Að lokum vil ég birt hér spurningarnar sem óskað var eftir að Hagfræðistofnun svaraði og setti ég mitt mat á því hvort þeim hafi verið svarað.
1. Hvaða lán heimilanna færðust frá gömlu bönkunum til þeirra nýju? - Þessari spurningu er ekki svarað.
2. Hver var upphæð einstakra lánaflokka hjá hverjum banka um sig, annars vegar bókfært verð í gamla bankanum og hins vegar gangvirði/raunvirði í nýja bankanum við yfirfærslu? Þ.e. hvaða afslátt fékk hver og einn banki af mismunandi flokkum útlána til heimilanna (samkvæmt útlánaflokkun Seðlabanka Íslands)? - Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
3. Hvaða lán heimilanna urðu eftir hjá gömlu bönkunum og hvert var bókfært virði þeirra 30/09/2008 og hvert er bókfært virði þeirra núna? - Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
4. Í hagtölum Seðlabanka Íslands kemur fram að lán heimilanna lækkuðu umtalsvert á milli talna í september og síðan í lok október 2008? Hver er skýringin á þessari lækkun milli mánaða, þ.e. hve stór hluti er vegna lána sem færðust á milli gömlu og nýju bankanna og hve stór hluti er lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum og eru því ekki inni í tölu SÍ vegna október? - Þessari spurningu er svarað að mestu leyti.
5. Samtök fjármálafyrirtækja hafa fullyrt að áður gengistryggð lán hafi verið færð niður um 130 ma.kr. Hvernig er þessi tala fengin? Hver eru áhrif endurútreiknaðra vaxta á þessa upphæð? Eru endurútreiknaðir vextir inni í 130 ma.kr. eða utan? Hvernig breyttist (áætlað) heildargreiðsluflæði (tekjustreymi) fjármálafyrirtækjanna fyrir og eftir endurútreikning? - Þessari spurningu er ekki svarað.
6. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti. Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt. Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta? Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan? - Þessari spurningu er ekki svarað.
7. Samkvæmt Creditor Report Kaupþings frá febrúar og fram í ágúst 2009, þá voru lánasöfn að bókfærðu virði 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings á 456 ma.kr. Óskað er eftir staðfestingu á að þetta sé rétt tala og ef ekki hver hún var í raun og veru? Ef hún var ekki þessi tala, þá er óskað eftir að vita hver talan var. - Þessari spurningu er ekki svarað.
8. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birt var 14. september sl. eru birtar tölur um stöðu lánasafna í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna. Óskað er eftir upplýsingum um það hvernig lán heimilanna skiptast niður í flokkað samkvæmt útlánaflokkun SÍ. - Þessari spurningu er bara svarað að hluta og ekki er vitnað í fyrirspurn Guðlaugs Þórs í skýrslunni.
9. Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir þeirra vegna lána heimilanna nemi yfir 160 ma.kr. Hve stór hluti þessara afskrifta er leiðrétting í bókhaldi fyrirtækjanna vegna lögbrota, hver stór hluti er hluti af þeim afslætti sem fékkst af lánasöfnunum við flutning þeirra og hve stór hluti er niðurfærsla á gangvirtu höfuðstóli eins og hann var skráður við flutning í nýju bankana? - Þessari spurningu er ekki svarað.
10. Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir hafi numið 160 ma.kr. Hafa aðrar afskriftir átt sér stað, þ.e. svo dæmi sé tekið á lánum heimilanna, sem urðu eftir hjá gömlu bönkunum? Er einhver hluti þessara 160 ma.kr. vegna afskrifta á lánum sem ennþá eru í eignasöfnum gömlum bankanna og hve stór hluti, ef svo er? - Þessari spurningu er ekki svarað.
Færslan var skirfuð við fréttina: Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda