Hagfræðistofnun ályktar vitlaust út frá tölum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.1.2012. Efnisflokkur: Lánasöfn

Eins og ég sýni fram á í færslu í gær, þá dregur Hagfræðistofnun ranga ályktun út frá þeim upplýsingum sem hún vinnur með.  Er alveg með ólíkindum hvað niðurstaða stofnunarinnar er gjörsamlega á skjön við fyrirliggjandi upplýsingar.  Langar mig að birta niðurstöðu kafla færslunnar, en hvet fólk til að kynna sér efni hennar:

Er svigrúmið fullnýtt?

Jæja, þá er komið að því að bera saman tölur.  Stóri dómur Hagfræðistofnunar er að svigrúmið sé fullnýtt þar sem Samtök fjármálafyrirtækja segja að svo sé eða því sem næst.  Skýring Hagfræðistofnunar er sem hér segir:

  • Eftirgjöf á íbúðalánum samkvæmt 110% leiðinni er 31,3 ma.kr. hjá fjármálafyrirtækjum!  Ath. að inni í þeirri tölu eru líka sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir, þannig að talan hjá bönkunum er lægri.  Síðan bætir stofnunin við að 4,6 ma.kr. hafi verið færðir niður hjá Íbúðalánasjóði.

  • Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar er 6 ma.kr. - Hér er hvorki greint á milli hvort skuldirnar eru íbúðalán eða aðrar skuldir né hvað heyrir undir bankana og hvað undir önnur fyrirtækin innan SFF.

  • Umreikningur á gengislánum vegnahæstaréttardóma nam að sögn SFF 101 ma.kr.  Þessi tala er hvergi sannreynd og aftur er ekkert sagt til um hvernig skiptingin er milli fjármálafyrirtækja.

  • Samtals gerir þetta 144 ma.kr. sem búið er að færa niður íbúðalán hjá fjármálafyrirtækjum, íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.

Við lok þessarar upptalningar hjá Hagfræðistofnun segir í lok 2. kafla á bls. 11:

Samanlagðar niðurfærslur bankanna eru því nokkuð umfram þann mun sem fram kemur á virði íbúðalána í september og október 2008. Af því má ráða að það svigrúm sem verið hafi til að færa niður íbúðalán hjá bönkunum hafi þegar verið nýtt og ríflega það. Sérstaklega á þetta við um gengisbundin lán, enda var við stofnun nýju bankanna ekki gert ráð fyrir öðru en að þau lán væru lögleg.

Skoðum þetta nánar:

  1. Bankarnir þrír fengu afslátt upp á 95 ma.kr. vegna íbúðalána, þar af 71 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána.

  2. Bókfært virði gengistryggðra íbúðalána bankanna þriggja var 103,1 ma.kr. í lok september 2008, af þeim urðu 14 ma.kr. lán eftir í gömlu bönkunum, þannig að lán að bókfærðu virði 89 ma.kr. voru færð yfir í tveimur færslum.

  3. Öll fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir hafa fært niður lán (önnur en bílalán) um 144 ma.kr. og þess vegna er svigrúmið búið.

Ef þetta er fagmennskan sem viðgengst hjá Hagfræðistofnun, þá legg ég til að skipt verði um starfslið.

  1. Niðurfærsla sem átt hefur sér stað á verðtryggðum íbúðalánum bankanna er í allra hæsta lagi 37 ma.kr., en líklega umtalsvert lægri.  Ég ætla leyfa mér að giska á innan við 30 ma.kr.  Eftir eru því ríflega 40 ma.kr.

  2. Af þessum á hámarki 30 ma.kr. var líklega hluti vegna lána voru í eigu KMIIF og önnur sem fluttust til Íbúðalánasjóðs.  Sá hluti niðurfærslunnar verður því ekki tekinn af svigrúmi bankanna, heldur lendir hann á eigendur lánanna, þ.e. ÍLS og KMIIF.  Sé þetta í réttum hlutföllum, þá skrifast 12 ma.kr. á aðra eigendur en bankanna og bankarnir hafa því aðeins nýtt 18 ma.kr. af svigrúminu í að lækka verðtryggð lán í sinni eigu.

  3. Gengisbundin lán sem færð voru yfir voru að bókfærðu virði 89 ma.kr.  Ekki er nokkur möguleiki að þau standi fyrir 101 ma.kr. niðurfærslu.  Bankarnir fengu, að sögn Hagfræðistofnunar, 24 ma.kr. í afslátt, en samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra fengu þeir að minnsta kosti 44,5 ma.kr. í afslátt.  Hagfræðistofnun gerir heldur enga tilraun til að reikna vaxtahagnað bankanna vegna áhrifa Árna Páls laganna, en í mörgum tilfellum þá fengu lántakar nánast enga lækkun á lánum sínum.  Hvort sem bankarnir notuðu alla þessa 24 ma.kr. eða ekki þá er allt umfram 24 ma.kr. utan svigrúmsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði höfuð áherslu á að ekki mætti færa afslætti á milli lánaflokka og því má ekki færa afgang af afslætti vegna verðtryggðra lána yfir á gengisbundin lán.

Mín niðurstaða er því að svigrúmið hefur ekki verið fullnýtt.  Raunar er langur vegur í að það hafi verið fullnýtt.  Miðað við það sem að ofan segir, þá eru bankarnir líklegat búnir að nýta annars vegar 24 ma.kr. (mér finnst talan vera of há) af svigrúmi vegna gengisbundinna lána og 18-19 ma.kr. vegna verðtryggðra lána.  Alls hafa bankarnir því nýtt 42-43 milljarða af svigrúminu og eftir eru 52-53 milljarðar króna.

Eftir er að nýta 52-53 milljarða af svigrúminu eða um 55% af því!

 

Færslan var skrifuð við fréttina: Búnir að nota svigrúmið