Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.2.2011.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, er stundum fljótur á gikknum. Visir.is hefur eftir ráðherra:
Hann staðfestir að það sem löggjafinn gerði fyrir jól var hárétt. Það er að segja að það sama gildi í grundvallaratriðum um gengistryggð íbúðalán og gengistryggð bílalán
og síðan að það
geti reynst erfitt að finna fordæmisgildi gagnvart öðrum fyrirtækjalánum
í úrskurði Hæstaréttar í máli Tölvupóstsins (mál nr. 603/2010) sem kveðinn var upp í gær. Ég ætla því að hjálpa ráðherranum aðeins við lesturinn. Í úrskurðinum segir nefnilega:
Að framan var gerð grein fyrir lánssamningi aðilanna, en þar skiptir mestu það efni hans að lánsfjárhæð var ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá var lánið bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningurinn kveði á um. Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Að þessu virtu skiptir hvorki máli þótt staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamnings né yfirlýsing sóknaraðila um að skulda í erlendum gjaldmiðlum „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Aðrar fram bornar málsástæður varnaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Og síðar segir um vextina:
Ekki verður fallist á að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum skipti máli um það hvaða vextir skuli gilda við þær aðstæður, sem hér reynir á. (Leturbreyting mín)
Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur skýri þetta alveg ágætlega út. Hvergi er vikið að því að máli skiptir til hvers lánið var tekið og alveg sérstaklega er tekið fram að tegund veðs skiptir ekki máli. Hæstiréttur ýjar einnig að því, að ekki megi krefjast hærra vaxta afturvirkt, þó það sé ekki óyggjandi.
Að mínu áliti, þá ganga úrskurðir Hæstaréttar mun lengra en lög nr. 151/2010 að sumu leiti, þ.e. úrskurðirnir ná til fleiri lána en lögin. Í annan stað ganga lögin lengra, þar sem fjármálafyrirtækjunum er bannað að taka dráttarvexti eða vanskilakostnað inn í uppgjör sín. Nú er bara að bíða og sjá hvað EFTA-dómstóllinn segir eða Eftirlitsstofnun EFTA, þar sem þessi mál munu alveg örugglega rata þangað.