Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.2.2011.
Hæstiréttur kvað upp tvo úrskurði í gær. Segja má að þeir séu Salómonsdómar fyrir lántaka gengistryggðra lána, en eins og oft áður lýkur rétturinn ekki málinu. Úrskurðirnir sem um ræðir eru:
604/2010 Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. Hlynur Jónsson hdl.) og gagnkæra
603/2010 Tölvupósturinn ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl. Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. Jóhann Pétursson hdl.) og gagnkæra
Þrennt virðist skipta miklu máli í úrskurðarorðum Hæstaréttar. Fyrsta er að lán lögaðila falla einnig undir fordæmi dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010.
Annað er að fordæmi dóms réttarins frá 16. september í máli nr. 471/2010 er sagður vera afdráttarlaus, þ.e.
Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu í þessum efnum.
Þetta þýðir einfaldlega að ekki skiptir máli hvort lánið er með veði í húsnæði, bifreið, vélsleða, hlutabréfum eða málverki, hafi lánið verið gengistryggt þá skal það taka sömu vexti í samræmi við 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Greinilegt er að lántakar sækja ekki meira til réttarins hvað þetta varðar.
Þriðja atriðið snýr að ógreiddum vöxtum, þar sem ákvæði 4. gr. laga nr. 38/2001 leiðir almennt til þess að gjalddagagreiðslur hafi verið ófullnægjandi sé tekið tillit tilnýs vaxtaákvæðis. Í báðum málum vísar Hæstiréttur til þess að ekki hafi kærður til réttarins sá þáttur sem snýr að afturvirkum vöxtum. Fyrir Hæstarétti liggi því ekki ágreiningur um hvort heimilt sé að breyta vöxtunum afturvirk og rétturinn tekur því ekki afstöðu til slíks.
Í lok þessarar umfjöllunar um úrskurði Hæstaréttar, þá er rétt að benda á, að meirihluti Hæstaréttar hafnar þeirri ósk sóknaraðila í máli nr. 604/2010 að leita álits EFTA-dómstólsins. Einn dómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, vildi fara þá leið. Er sorglegt að Hæstiréttur hafi ekki nýtt þetta tækifæri til að eyða allri óvissu um túlkun neytendaverndartilskipunar ESB.
Hvað þýða úrskurðir Hæstaréttar?
Eins og ég bendi á að ofan, þá þýða úrskurðirnir að lögaðilar eigi sama rétt og einstaklingar þegar kemur að því að túlka hvenær lán eru gengistryggð og hvenær ekki. Fordæmi dóma nr. 92/2010 og 153/2010 er ótvírætt án tillits til þess hver lántakinn er. Þá þýðir þetta einnig að fordæmi dóms nr. 471/2010 gildir um öll lán óháð tegund veðs eða lengd lánstíma. Hvorutveggja er í samræmi við það sem búast mátti við og er í samræmi við hina stífu lagatúlkun Hæstaréttar sem komið hefur fram í fjölmörgum málum á undanförnum mánuðum. Raunveruleikinn kemur Hæstarétti ekkert við.
Hér eru enn komnir dómar/úrskurðir frá Hæstarétti án þess að ljúka málinu svo óyggjandi sé. Er það að verða gjörsamlega óþolandi staða. Nú þarf að höfða eitt mál í viðbót til að fá úr því skorið hvort breyta megi vöxtum afturvirkt. Hafa skal samt í huga, að Hæstiréttur staðfesti í báðum málum dóma héraðsdóms. Í máli nr. 604/2010 segir héraðsdómari að vextir lánanna sem um ræðir skuli:
á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga
Ekkert bendir til þess að héraðsdómur sé að ákveða vextina aftur í tímann, heldur bara fram í tímann. Hæstiréttur segir svo í máli nr. 603/2010:
Er þegar af þessum ástæðum ekkert í kröfugerð málsaðila sem lýtur að viðurkenningu á ætluðum rétti varnaraðila til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma.
Erfitt er að ákvarða nákvæmlega hvað þetta þýðir, þar sem Hæstiréttur getur ekki tekið á kröfu sem gerð fyrir réttinum. Varnaraðili (FF) gerir ekki kröfu um "vangreidda" vexti og því má spyrja hvort hann telji vextina ekki vera vangreidda. Á móti kemur að í máli nr. 604/2010 segir Hæstiréttur:
Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili nú einungis staðfestingar á að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila, en féll við munnlegan flutning málsins frá síðarnefndu kröfunni. Þar með er ekkert í kröfugerð hans sem lýtur að viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma.
Hvers vegna gerir varnaraðili ekki kröfu um vexti aftur í tímann? Hvers vegna vísar Hæstiréttur ekki til laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2010? Nei, nú verða lögspekingar að leggjast í túlkun á þögn Hæstaréttar og síðan að fara í mál.
Furðuleg röksemd FF
Ég get ekki annað en furðað mig á einu atriði sem kemur fram í úrskurði Hæstaréttar. Er það í III. kafla úrskurðarins, þar sem segir:
Um þetta og annað hafi sérhæfðir starfsmenn varnaraðila leiðbeint eigendum sóknaraðila. Þá hafi þeim [sóknaraðila] verið fullljóst að varnaraðili væri að endurlána fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum og bæri áhættu af í samræmi við það.
Þessi tilvísun er tekin úr reifun FF á málinu. Ég skil ekki hvernig FF getur sagt að FF "væri að endurlána fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum". Það þarf ekki annað en að skoða kröfuhafaskrá til að sjá, að SPRON var stærsti lánveitandi FF og erlendar lánastofnanir komast þar ekki á blað svo neinu nemur. Ekki að þetta hafi breytt framhaldinu, en það hlýtur að teljast grafalvarlegur hlutur að annar málsaðili ljúgi svona upp í opið geðið á Hæstarétti, þegar opinber gögn segja allt annað.