Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.3.2011.
Afkomutölur Íslandsbanka á árinu 2010 eru áhugaverðar svo ekki sé meira sagt. Mig langar að rifja upp orð stjórnarmanns bankans, sem taldi hagnað ársins 2009 vera hærri en búast mætti við eftir það. Annað hefur komið í ljós.
Orðaval í tilkynningu bankans er ekki síður áhugavert. Talað er um "rekstrarniðurstöðu" og að hún hafi verið "jákvæð". Almennt er jákvæð rekstrarniðurstaða kölluð hagnaður og neikvæð niðurstaða er kölluð tap.
Íslandsbanki skilar sem sagt 29,4 milljarða kr. hagnaði fyrir rekstrarárið 2010 og það eftir skatta. Er þetta 5,4 ma.kr. hækkun frá fyrra ári þ.e. 22,5% hækkun á milli ára. Ekki slæmt miðað við barlóminn í fjármálafyrirtækjunum á síðasta ári. 29.4 ma.kr. er síðan 28,5% arðsemi eigin fjár, en eiginfjárhlutfall bankans hefur aldrei verið hærra eða 26,6%. Eigið fé í árslok var svo 121,5 ma.kr.
Enn ein áhugaverð talan er stærð efnahagsreiknings sem er 683 ma.kr.
Nú af öllu þessu borgar bankinn heilar 221 m.kr. í bankaskatt, 670 m.kr. í atvinnutryggingagjald og 7,2 ma.kr. í tekjuskatt.
Berum þetta nú saman við hagnað Glitnis árið 2007:
Hagnaður: 27,7 ma.kr.
Arðsemi eiginfjár: 19,3%
Eigið fé: 179 ma.kr.
Efnahagsreikningur: 2.949 ma.kr.
Tekjuskattur: 6,3 ma.kr.
Já, það er merkilegt að sjá að afkoma Íslandsbanka í miðri kreppunni er ríflega 5% meiri en árið 2007, þegar allt virtist ennþá vera í lukkunnar velstandi.
Hagnaður fyrstu tveggja heilu áranna í sögu Íslandsbanka hins þriðja er alls 53,7 ma.kr. Höfum í huga að bankinn var stofnaður með 65 ma.kr. hlutafjárframlagi, þannig að eigið fé hefur því aukist um 82,6% á þessum tveimur árum vegna þessa hagnaðar. Geri aðrir betur. Er vert að óska Birnu Einarsdóttur og hennar fólki til hamingju með þetta.
Hamingja lántaka bankans ætti greinilega ekki að vera eins mikil. Hagnaðurinn er jú að talsverðu leiti byggður á því að bankinn tók yfir lánasöfn með miklum afslætti en hefur krafið viðskiptavini sína um mun hærri upphæð. Er það þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt gengistryggingu ólöglega verðtryggingu, enda bætti Hæstiréttur lögbrjótunum tjón sitt að verulegu leiti.
Í ljósi afkomu bankans, þá skora ég á Birnu Einarsdóttur og stjórn bankans að sýna gott fordæmi og takmarka endurútreikning gengistryggðra lána og þeirra lána sem falla undir breytingu frá því í desember á lögum nr. 38/2001 við 1.1.2008, þ.e. láta stöðu höfuðstóls lánanna í lok árs 2007 halda sér og framkvæma endurútreikninginn bara á gjalddaga og höfuðstólinn eftir þann tíma. Bankinn hefur greinilega borð fyrir báru til að gera þetta. Jafnframt skora ég á bankann að setja þak á vextina, þannig að þeir fari aldrei yfir 10% í endurútreikningunum frá 1.1.2008 til dagsins í dag.
Íslandsbanki hefur greinilega fengið góðan heimanmund frá eigendum sínum í formi ríflegs afsláttar á yfirfærð lánasöfn. Nú er kominn tími til að viðskiptavinir bankans fái að njóta þessar heimanmundar í meira mæli en hingað til.