Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.3.2011.
Flest fjármálafyrirtæki hafa sent lántökum áður gengistryggðra lána upplýsingar um endurútreikning þeirra. Jafnframt hefur lántökum verið tilkynnt að þeir hafi takmarkaðan tíma til að samþykkja útreikninginn og í sumum tilfellum velja leið, eins og það er orðað, þ.e. form láns til framtíðar. Mér finnst rétt að benda fólki á, að nýr samningur tekur ekki gildi fyrr en báðir aðilar hafa skrifað undir. Allt tal fjármálafyrirtækja um annað á sér ekki lagastoð. Fallist lántaki ekki á útreikning fjármálafyrirtækis, þá er hann í fullum rétti að hafna honum eða bara einfaldlega að gera ekki neitt. Þeir sem telja hag sínum betur borgið með því að skrifa upp á nýjan samning ættu að setja fyrirvara um betri rétt neytenda inn á skjalið. Ég hef svo sem heyrt af því að fjármálafyrirtæki hafi hafnað slíkri áritun og einnig að sýslumenn hafi tekið upp á því að neita að þinglýsa slíkum skjölum.
Sem neytandi á ég fullan rétt á því að setja fyrirvara inn á samning sem ég er aðili að. Samningurinn er á milli tveggja aðila og hafi eingöngu annar aðilinn heimild til að skrifa texta samningsins, þá er ekki um samning að ræða heldur krafa annars aðilans á hendur hinum. Tekið er á því í neytendarétti, að samningsákvæði sem sterkari aðili samnings þvingar upp á veikari aðilann geti verið dæmt ólöglegt. Um þetta er líka fjallað í lögum um neytendalán.
Það er ótvíræður réttur neytandans að setja fyrirvara inn í samninga alveg eins og öll þau ákvæði sem sterkari aðilinn setur inn. Hafni lánveitandinn fyrirvaranum, þá er vörn neytandans einföld: Ekki skrifa undir. Undirskrift bindur samninginn og innihald hans. Með því fær fjármálafyrirtækið vald til að innheimta kröfuna samkvæmt efni samningsins. Hafi ekki verið skrifað undir samninginn, þá er fjármálafyrirtækið ekki með neitt í höndunum. Vissulega er gamli samningurinn ennþá í gildi, en samkvæmt dómum Hæstaréttar nr. 30/2011 og 31/2011, þá getur fjármálafyrirtækið eingöngu innheimt kröfuna eins og hún sé í íslenskum krónum. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-5215/2010, þá átti Arion banki ekki aðild að kröfu fyrr en eftir að hún komst í eigu bankans. Ef við yfirfærum það á áður gengistryggð lán, þá eiga núverandi eigendur lánanna ekki kröfu á lántaka fyrr en eftir að lánin komust í eigu fyrirtækjanna (í sumum tilfellum hafa kröfur ekki skipt um hendur). Nýju bankarnir eiga því ekki vaxtakröfuna á lántakana, heldur sá gamli. Nýi bankinn á því ekki kröfuna um höfuðstólshækkun vegna afturvirkra vaxta. Hann er samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur ekki málsaðili. Tekið skal fram, að það var Arion banki sem beitti þessari vörn í málinu, þannig að hugmyndin er ekki frá lántakanum komin. Krafan, sem nýi bankinn á, á hendur lántakanum er því upprunalegur höfuðstóll í íslenskum krónum að frádregnum (núvirtum) afborgunum/greiðslum inn á lánið. Síðan á nýi bankinn alveg örugglega ógreidda vexti frá uppkvaðningu úrskurðar Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli 471/2010. Ekki er aftur ljóst hvaða vexti bankinn má krefjast frá því að krafan komst í hans eigu og þar til dómurinn var kveðinn upp.
Bæði umboðsmaður skuldara og talsmaður neytenda hafa fjallað um lögmæti afturvirkrar hækkunar vaxta. Raunar komust þessir aðilar að sameiginlegri niðurstöðu og hefur hún verið birt á vef beggja aðila, þ.e. Um endurútreikning ólögmætra gengislána af vef umboðsmanns og Leiðbeiningar til neytenda í kjölfar endurútreikninga gengislána af vef talsmanns neytenda. Einnig vil ég vekja athygli á umsögn umboðsmanns skuldara um frumvarp að lögum nr. 151/2010, þ.e. lögin sem endurreikningur lána byggir á. Þessir aðilar sem eiga að vernda rétt lántaka eru einróma um að afturvirk hækkun vaxta sé óheimil eða eins og segir hjá umboðsmanni:
Í umsögn sinni um breytingar þær sem gerðar voru á lögunum komu fram athugasemdir umboðsmanns skuldara þar sem því var mótmælt að lögin heimiluðu hækkun eftirstöðvar höfuðstóls í kjölfar endurútreiknings sem og að skuldurum gæti verið gert að greiða bakreikning vegna efndrar skuldbindingar. Umboðsmaður skuldara lagði til að bætt yrði við frumvarpið almennri skýringarreglu þess efnis að endurútreikningur skuli aldrei leiða til viðbótarfjárútláta skuldara. Meirihluti alþingis studdi ekki þessa tillögu.
Annars vegar taldi umboðsmaður skuldara verulegar líkur á að aðferðafræðin við endurútreikning samkvæmt núgildandi lögum samræmist ekki Evróputilskipunum um neytendavernd.
Hins vegar taldi umboðsmaður skuldara að hækkun höfuðstóls og bakreikningar í kjölfar endurútreiknings feli í sér skerðingu eignarréttar og að hugsanlega felist í lögunum ólögmæt eignaupptaka.
Telur umboðsmaður því mikilvægt að aflað verði ítarlegs lögfræðiálits á því hvort lögin séu í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á grundvelli EES-samningsins og hvort lögin stangist á við eignarréttarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Hagsmunum skuldara er best borgið með því að draga úr þeirri óvissu hið fyrsta
Og í grein talsmanns neytenda segir:
Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar frá 14. febrúar sl. liggur því ekki fyrir dómur þar sem fallist er á að endurútreikningur miðað við nýja vexti, sem Seðlabanki Íslands hefur auglýst á hverjum tíma, geti leitt til þess að neytandi standi í skuld.
Á hinn bóginn verður að telja að ýmislegt bendi til þess að slíkur bakreikningur standist ekki - hvorki að íslenskum lögum né Evrópurétti eða jafnvel samkvæmt stjórnarskrá og þjóðarétti. Er þá m.a. byggt á meginreglum kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana, sem margir dómar hafa gengið um, tómlætisreglum og reglum neytendamarkaðsréttar. Þá kunna kröfur um slíka bakreikninga að vera fyrndar.
Í nýlegum dómi um fullnaðarkvittun, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, segir:
„Þann 3. maí 2006 greiddi stefnda samkvæmt kröfu eftirstöðvar skuldabréfsins með 766.799 kr. á skrifstofu [innheimtuaðila]. Fékk stefnda kvittun um fullnaðargreiðslu vegna þessa. - Þann 11. maí 2006 barst stefndu bréf frá lögmanni [...] þar sem fram kemur að mistök hefðu átt sér stað við innslátt skuldabréfsins og að greiðsla sú sem stefnda innti af hendi þann 3. maí 2006 hafi ekki verið fullnaðargreiðsla. [...] - Ekki liggur fyrir í málinu sönnun þess að stefndu hafi verið eða mátt vera ljóst þegar hún fékk innheimtubréfið [...] og gekk í framhaldi af því frá greiðslu 3. maí 2006 að fjárhæð kröfunnar væri röng. Sjónarmið um óréttmæta auðgun eiga því ekki við. Stefnda fékk kvittun um fullnaðargreiðslu og mátti því vænta þess að gengið hefði verið frá fullnaðaruppgjöri vegna skuldabréfsins, sem var í innheimtu hjá lögfræðingi í umboði stefnanda. Hefur ekki þýðingu í því sambandi þótt þeirri veðsetningu, sem tryggja átti skuldina með, hafi ekki verið aflýst. Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.“
Samkvæmt þessu hefur fallið dómur um að hafi greiðandi fengið kvittun fyrir greiðslu og ekki er gerð athugasemd um að eitthvað vanti upp á, þá megi greiðandi vera í góðri trú um að rétt hafi verið gert upp.
En þetta er ekki það eina sem bendir til þess að fjármálafyrirtæki álíti uppgjör endanlegt. Þau nefnilega ákváðu að leggja neytendum enn frekar lið með því að koma ekki með bakkröfu á uppgerða samninga eða á fyrir eiganda, þegar eigendaskipti hafa átt sér stað. Fjallaði ég m.a. um þetta í færslunni Fjármálafyrirtæki í klemmu frá 2. mars sl. og talsmaður neytenda fjallar líka um þetta í sínu áliti:
Ákvörðun Íslandsbanka-Fjármögnunar er svohljóðandi samkvæmt tölvuskeyti til talsmanns neytenda í dag:
„Uppgreiddir samningar sem falla undir dóma Hæstaréttar hjá Íslandsbanka Fjármögnun.
Þeir samningar sem hafa verið greiddir upp og niðurstaða endurútreiknings felur í sér skuld lántaka miðað við þær forsendur sem endurútreikningur byggist á þá hefur Íslandsbanki Fjármögnun ákveðið að innheimta ekki þá skuld sem er niðurstaða endurútreiknings.“
Eins og ég kem inn á í minni umfjöllun, þá er Íslandsbanki-fjármögnun hreinlega að mismuna viðskiptavinum sínum. Af hverju á ég, sem ennþá er að greiða af láni, að greiða afturvirka okurvexti meðan sá sem var svo heppinn að losa sig við bifreið sína í ársbyrjun 2008, þarf þess ekki. Þetta er hrein og klár mismunun.
Loks snýst þetta um neytendavernd í Evrópurétti. Ítrekað hefur verið óskað eftir því við Hæstarétt og Alþingi að leitað verði álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eða EFTA-dómstólsins um þetta um hvort það standist neytendaverndartilskipun ESB að hægt sé að hækka vexti neytendalána afturvirkt. Meira að segja lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur gera ekki ráð fyrir því að fjármálafyrirtækið geti heimt vangreidda vexti afturvirkt heldur er það eingöngu lántakinn sem getur krafið um ofgreidda vexti.
Undirbúningur er kominn á fullt með að fara með mál til ESA. Nú stendur yfir söfnun á fáránlegum málum, þar sem ljóst að engin skynsemi getur verið í afturvirkri vaxtakröfu. Ég er með dæmi um bílalán, þar sem lántaki skuldar fjármálafyrirtækinu aukalega, þrátt fyrir að hafa alltaf staðið í skilum. Einn lántaki var svo óheppinn að taka lán um mitt ár 2006 og endurreiknaðar gjalddagagreiðslur viðkomandi verða umtalsvert hærri en hæstu greiðslur voru miðað við allt að 130% hækkun höfuðstóls. Annar var með kjörvexti Kaupþings á láninu sínu, en Arion banki telur þá einnig eiga að víkja, þrátt fyrir að þeir hafi enga tilvísun í erlendar myntir.
Hvet ég alla þá sem eru með furðulega endurútreikninga að senda mér upplýsingar um þá. Ætlunin er að ná saman góðu safni slíkra mála til að leggja fyrir ESA. Því fáránlegri sem málin eru, þess betra. Einnig óskum við eftir að fá dæmi um mál, þar sem lántaki hafði samkvæmt öllu átt að skulda dágóða upphæð í vangreiddum vöxtum, en fjármálafyrirtækið hefur fallið frá kröfunni.