Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.3.2011.
Mér finnst það ótrúlegt að þessi vandi Íbúðalánasjóðs sé að koma mönnum á óvart. Hann var gjörsamlega fyrirséður eftir að Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og Guðbjartur ákváðu að semja við fjármálafyrirtækin um að fara 110% leiðina í skuldamálum heimilanna. Hvers vegna var þetta fyrirséð? Jú, ástæðan er einföld og langar mig að skýra hana út hér:
Lán ÍLS til húsnæðiskaupa utan höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarin ár ekki miðast nema að takmörkuðu leiti við fasteignamat, en í staðinn miðast við hlutfall af brunabótamati. Síðara matið hefur verið talsvert hærra en hið fyrra og því hafa lánin almennt verið talsvert yfir fasteignamati eignarinnar. Þannig hefur t.d. eign verið metin við kaup á 6 m.kr., brunabótamat verið 10 m.kr. og lán verið 8 m.kr. (þetta er tilbúið dæmi). Fasteignamat hefur lækkað undanfarin ár og fyrir þessa eign hefur það hugsanlega lækkað niður í 4 m.kr., lánið hefur aftur hækkað í 12 m.kr. Samkvæmt 110% leiðinni getur lántakinn sótt um að lán sitt verði lækkað niður í 110% af fasteignamat, en annars af markaðsvirði. Á mörgum stöðum úti á landi er ekki virkur fasteignamarkaður og því bara hægt að miða við fasteignaverð. 110% af 4 m.kr. er 4,4 m.kr. og því gæti niðurfærsla lánsins numið 7,6 m.kr. 12 m.kr. lán er með greiðslubyrði upp á 60.000 kr. á mánuði miðað við lán til 25 ára. Lántaki þarf því ekki að vera með miklar tekjur til að standa undir þessari greiðslubyrði og því er hann að fá niðurfærslu þrátt fyrir að þurfa þess ekki með. Vissulega eru aðrir í þeirri stöðu að ráða ekki við greiðslubyrðina og því er nauðsynlegt að veit þeim lántökum aðstoð.
Ég varaði við því í séráliti mínu við skýrslu "sérfræðingahópsins" svo kallaða, að 110% leiðin myndi nýtast mörgum sem ekki þyrftu á því að halda og ekki nýtast öðrum sem þurfa á því að halda. Afskriftarþörf Íbúðalánasjóðs er skýrt dæmi um að ég hafði rétt fyrir mér. Kaldhæðnin í þessu, er að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu skulda og þak á verðbætur hefðu kostað Íbúðalánasjóð mun lægri upphæð hvað varðar lán til húsnæðiskaupa utan höfuðborgarsvæðisins. Ofangreint lán hefði t.d. fengið leiðréttingu upp á ríflega 2 m.kr. samkvæmt aðferð HH. Tjón ÍLS af 110% leiðinni umfram leið HH er því 5,6 m.kr.
Ekki var nú lögð nein smávinna í það í "sérfræðingahópnum" og skýrslu hans að sverta tillögur HH. Allt var talið þeim til foráttu og ekki var litið við hugmyndum mínum, fyrir hönd HH, að breytingum. Nú er ljóst að menn reiknuðu ekki dæmið til enda eða áttu menn kannski von á því að lántakar utan höfuðsborgarsvæðisins yrðu svona duglegir við að sækja um 110% leiðina?
AGS varðaði við
Ég hef oft varað við því að vandi ÍLS sé ekki bara vegna lána heimilanna, heldur líka lána til sveitarfélaga og byggingafélaga, m.a. verktakafyrirtækja og samvinnufélaga. Samkvæmt svo kallaðri októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kom út í nóvember byrjun 2009, er lagt mat á væntanlegar/nauðsynlegar afskriftir ÍLS. Matið er byggt á gögnum og upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og ÍLS og síðan áliti starfsmanna AGS. Þar var gert ráð fyrir að afskriftarþörf ÍLS væri 20% af heildarútlánum eða 140 milljarðar. Þessi upphæð er verulega mikið hærri en þær tölur sem stjórnmálamenn hafa reynt að telja almenningi trú um að væri í farvatninu. Ef þessi tala er síðan brotin upp í afskriftir vegna heimilanna annars vegar og vegna sveitarfélaga og byggingafélaga hins vegar, þá kemur í ljós að skiptingin var á þeim tíma líklegast um 30 milljarðar vegna fyrri hópsins en 110 milljarðar vegna síðari hópsins.
Þetta var þá. Vegna fáránlegrar vangetu stjórnvalda til að taka á skuldavanda heimilanna, þá versnaði staða heimilanna verulega frá hausti 2009 fram á haust 2010 og enn hallar undan fæti. Þetta vita fjármálafyrirtækin en stjórnvöld sitja í sinni ótrúlegu afneitun um að láti maður sem vandinn sé ekki til, þá leysist hann sjálfkrafa. Meðan stjórnvöld voru með hausinn ofan í jörðunni, þá jók á vandann. ÍLS sem hafði verið í þokkalegri stöðu gagnvart skuldum heimilanna sogaðist inn í erfiða stöðu bankanna og loks var fallist á, að sjóðurinn tæki á sig stærri hluta afskrifta en þörf hefði verið á, ef tekið hefði verið á málunum af festu haustið 2009, eins og ég lýsi að ofan.
Afneitun stjórnvalda er ennþá megn vegna annarra lána ÍLS en til heimilanna. Sjóðurinn hefur þegar leyst til sín heilu blokkirnar á Austurlandi og stigagangana í Kórahverfi í Kópavogi. Uppsöfnun eigna heldur áfram. Meðan eignirnar eru í eigu ÍLS, þarf sjóðurinn að halda þeim við, greiða af þeim skatta og skyldur, tryggja og halda á þeim hita. Í öðrum tilfellum eignast sjóðurinn ekki eignirnar en býður í staðinn eigendunum (oftast sveitarfélög í miklum fjárhagsvanda) upp á skilmálabreytingar, breytt greiðslufyrirkomulag eða jafnvel niðurfellingu hluta lána. AGS reiknaði með því að þetta jafngilti um 50% af lánum í þessum lánflokki. 50% er há tala og sem betur fer hefur hún ekki orðið að veruleika, en skuldavandinn er ekki liðin hjá, þannig að þegar öll kurl eru komin til grafar, þá er aldrei að vita hvar þetta endar.
Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við
Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við því strax í febrúar 2009 að yrði ekki tekið án tafar á skuldavanda heimilanna, þá myndi það gerast að sífellt stærri hluti íbúðarhúsnæðis endaði í eigu fjármálafyrirtækja. Því myndi fylgja umtalsverð lækkun á fasteignaverði, sem aftur yrði til þess að fleiri eignir enduðu hjá fjármálafyrirtækjunum. Stjórnvöld hlustuðu ekki og fjármálafyrirtækin ekki heldur. Eða að þar á bæ hafi mönnum þótt það æskileg þróun. Nú hefur allt það gerst sem Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við. Fjármálafyrirtækin eru orðin stærsti eigandi íbúðarhúsnæðis í landinu og fátt bendir til annars en að fleiri eignir séu á leið í fang þeirra. Samhliða þessu hefur verð fasteigna lækkað mikið og fasteignamat. Þetta væri svo sem í besta lagi, ef ekki kæmi til 110% leiðin.
Íbúðalánasjóður og önnur húsnæðislánafyrirtæki eru komin í mikinn vanda. Hratt lækkandi fasteignamat og fasteignaverð hefur gert það að verkum að mjög stórir hópar lántaka geta nýtt sér 110% leið fjármálafyrirtækjanna. Einnig er sá hópur sem getur nýtt sér sértæka skuldaaðlögun orðinn talvert stór. Þó velta á fasteignamarkaði taki stöku kippi til að sanna að hann sé með lífsmarki, þá er hún svipur hjá sjón miðað við meira að segja 2001 - 2004. Öll er þessi þróun í samræmi við spár Hagsmunasamtaka heimilanna, spár sem samtökin settu fram til að vara stjórnvöld við svo snúa mætti þróuninni til betri vegar. Því miður skelltu þau skollaeyrunum við varúðarorðum samtakanna, en hlustuðu í staðinn á bljúga rödd fjármálafyrirtækjanna.
Ég er hættur að nenna að segja lengur að ég hafi varað stjórnvöld við. Þau hafa hvort eð er engan áhuga á að hlusta. Ég færði að mínu mati góð rök fyrir máli mínu í séráliti við skýrslu "sérfræðingahópsins". Með hverjum deginum sem líður kemur betur og betur í ljós að rök mín voru gild.
(Sérálitið fylgir með hér fyrir neðan.)
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: