Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.9.2011.
Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, tók alveg kostulegt viðtal við Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, sem birt er á visir.is í dag. Þar er Sigurjón spurður út í málarekstur slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. gegn honum, Halldóri J. Kristjánssyni og Elínu Sigfúsdóttur. Tvennt stingur í augu varðandi það sem Sigurjón segir. Annað er að hann skilur greinilega ekki hvað felst í ábyrgð æðstu stjórnenda og hitt er að verkferlar bankans hafa verið eitthvað meira en lítið furðulegir.
Furðulegir verkferlar
Ég ætla að byrja á síðara atriðinu. Um lán upp á litla 19 ma.kr. til Straums í byrjun október 2008 segir Sigurjón:
Fjárstýring metur það, samkvæmt reglum, hvort bankinn eigi laust fé til að lána og það kemur ekki inn á borð bankastjóra. Þeir lánuðu þessa peninga í viku og eftir það veit ég ekki hvað gerðist.
Og um lán til Grettis upp á 40 ma.kr. segir hann:
Ég var í sumarfríi á þessum tíma, þ.e þeim tíma sem máli skiptir. Á síðari stigum málsins kom ég að málinu til að reyna að leysa úr því en það var á allt öðrum tímapunkti. Enda var það innbyggt í ferla bankans að það var ekki gert ráð fyrir að bankastjóri væri að vasast í einstökum málum af þessu tagi. Landsbankinn var risastórt fyrirtæki. Og verkferlar gerðu ekki ráð fyrir því að bankastjóri kæmi að ákvörðunum eins og að innheimta ábyrgðir.
Já, greinilegt er að Landsbanki Íslands var risastórt fyrirtæki, þegar lán til eins aðila upp á 19 ma.kr. er ekki nógu stórt til að þurfa endanlegt samþykki æðstu yfirmanna. Ég held ég leyfi mér að fullyrða, að öll fyrirtæki sem ég þekki til og líklegast flest önnur hafa þrepaskiptingu hvað varðar heimildir starfsmanna til aðgerða, hvort heldur það felst í að skuldbinda fyrirtækið fjárhagslega eða framkvæma eitthvað sem hefur varanleg áhrif á rekstur eða afkomu fyrirtækisins. Þannig má starfsmaður á "gólfinu" ekki stofna til neinna útgjalda án samþykkis deildarstjóra, deildarstjórinn má stofna til eða samþykkja útgjöld upp á segjum 100 þús.kr. án samþykkis sviðsstjóra, sviðsstjórinn hefur heimild til að samþykkja eða stofna til útgjalda upp á segjum 400 þús.kr. án samþykkis framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórinn verður síðan að leita til stjórnar vegna útgjalda yfir 1 m.kr. (Tekið fram að um sýnidæmi er að ræða.) En hjá Landsbanka Íslands mátti Fjárstýring borga út 19 ma.kr. án aðkomu bankastjóranna vegna þess að bankinn var svo stór. (Líklegast voru 50 metrar á milli þessara aðila í húsnæði Landsbanka Íslands við Austurstræði/Hafnarstræti.) Ég veit svo sem að útibússtjórinn minn í vesturbæ mátti ekki hreyfa sig ef upphæðin fór yfir 1 m.kr. og þurfti að leita til lánanefndar, þannig að skýrirng Sigurjóns er ekki trúverðug.
Eitthvað er stórlega að stjórnun fyrirtækis, þar sem útgreiðsla sem nam árshagnaði þess, fór fram án vitneskju eða samþykki æðsta yfirmanns. Hafi þetta verið í samræmi við verkferla, þá þætti mér áhugavert að vita hvort þeir ferlar hafi verið í samræmi við lög, tilmæli Fjármálaeftirlits og fengið samþykki regluvarðar bankans.
Ábyrgðarleysi Sigurjóns
Á nokkrum stöðum í viðtalinu vísar Sigurjón allri ábyrgð frá sér. Fyrst var það fjárstýringin sem átti að axla ábyrgðina, síðan var hann í sumarfríi og því bar hann enga ábyrgð, loks voru það starfsmenn Björgólfs sem "hönnuðu" bankaábyrgð fyrir 40 ma.kr. lánum. Til hvers var Sigurjón í stóli bankastjóra, ef það voru alltaf einhverjir aðrir sem báru ábyrgð? Samkvæmt því sem hann segir, þá gerði hann jafnmikið gagn í sæti bankastjóra í þessum málum og Óli prik hefði gert, þ.e. ekkert.
Auðvitað bar Sigurjón ábyrgð á öllum þessum málum. Hann var ábyrgur gagnvart stjórn og hún gagnvart hluthöfum vegna þessara mála. Þannig er það í öllum hlutafélögum. Engu skiptir hver sér um framkvæmd á verkinu, ábyrgðin hvílir hjá bankastjórunum. Hvers konar aumingjaskapur er þetta að varpa ábyrgð yfir á aðra?
Bara þetta einfalda mál, að starfsmenn Björgólfs (formanns bankastjórnar) "hönnuðu" bankaábyrgð sem var gjörsamlega ófullnægjandi. Bankastjóri með bein í nefinu og sem tekur ábyrgð á rekstri bankans síns hefði aldrei samþykkt ábyrgð sem rynni út nokkrum dögum eftir lán fellur á gjalddaga. Þessi ábyrgð er slíkur málamyndagerningur að það eitt að samþykkja hana lýsir vanhæfi þeirra sem það gerðu. (Ég reikna með að Sigurjón hafi ekki komið nálægt því, bara einhver nafnlaus undirmaður.)
Snillingur eða lélegur stjórnandi
Sigurjóni hefur oft verið hampað sem snillingi, en mér finnst hann frekar sanna hið gagnstæða í þessu viðtali. Hér er t.d. kostuleg skýring:
Það voru þeir sem hönnuðu þessa ábyrgð og þess vegna var hún dálítið óvenjuleg. Það var gerð krafa um ábyrgð en með því að taka við henni minnkaði Landsbankinn áhættu sína gagnvart stjórnarformanninum. Mál af þessi tagi komu ekki inn á borð til okkar Halldórs nema einhverjir starfsmenn bankans leituðu til okkar með þau. Það var ekki leitað til bankastjóra vegna átta daga vanskila á einstökum lánum. Bankinn var það stór og það var fjöldi deilda sem áttu að sjá um þetta. Þess vegna finnst mér undarlegt að hægt sé að krefja bankastjórnendur um skaðabætur.
Í þessum texta eru nokkur atriði sem lýsa lélegum stjórnanda:
Starfsmenn Björgólfs hönnuðu gagnslausa bankaábyrgð og Sigurjón hefði (af snilld sinni) átt að sjá í gegn um hana.
Áhætta bankans breyttist ekkert gagnvart stjórnarformanni, þar sem ábyrgðin var vita gagnslaus. Ef Sigurjón hefur virkilega verið þessi "snilli" sem sagt er, þá átti hann að sjá það.
Ekki var leitað til hans eða Halldórs vegna 40 ma.kr. ábyrgða sem greinilega voru haldslausar.
Ekki skal leita til bankastjóra, þegar ábyrgð upp á 40 ma.kr. er að renna út og þegar hefur orðið greiðslufall. Ábyrgur bankastjóri hefði gengið sjálfur persónulega í málið áður en ábyrgðin rann út.
Hann vísar ábyrgð á undirmenn sína í staðinn fyrir að koma fram eins og maður og viðurkenna umorðalaust að vissulega beri hann ábyrgð í málinu, en hann muni verjast skaðabótakröfunni.
Nei, það fer ekki mikið fyrir snilld Sigurjóns í orðum hans. Viðtalið sýnir mann í mikilli afneitun og á flótta frá staðreyndum. Tilvitnuð orð lýsa ítrekað ótrúlegu vanhæfi hans til að gegna starfi bankastjóra. Ætli sé hægt að stefna honum fyrir vanhæfi?
Tekið skal fram að allt sem hér hefur verið sagt um ábyrgð bankastjóra, á jafnt við Halldór J. Kristjánsson. Þeir tveir og síðan Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson bera ábyrgð á því klúðri sem varð í þeim tveimur málum sem stefnt hefur verið út af. Björgólfur Thor heldur að vísu, að hann gangi á vatni, þ.e. sé syndlaus með öllu, en hann hefði ekki verið með alla þessar fléttur í kringum eignarhald í félögum sínum, nema vegna þess að hann ætlaði að snúa á lögin. Haldi hann eitt augnablik, að almenningur í þessu landi sjái ekki í gegn um fléttur hans, þá er hann minni "snillingur" en meira að segja Sigurjón og ekki fer mikið fyrir "snilld" hans í viðtalinu sem Þorbjörn Þórðarson tók við hann.
Að lokum
Íslensk þjóð hefur mátt þola nóg vegna gerða (og aðgerðarleysis) stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda hrunbankanna. Er hægt að gera þá einföldu kröfu til þeirra, að þeir hætti að ljúga að þjóðinni, þegar þeir eru að skýra sína hlið á málinu? Ég hef mikinn áhuga á að heyra þeirrar hlið málsins, en vinsamlega hættið að hvítþvo ykkur af afglöpum ykkar. Björgólfur Thor kemur fram þessa daganna og lætur sem hann sé syndlaus. Hann fékk bankahrunið í fangið og það er ekkert honum að kenna. Maður fær æluna upp í háls að lesa heilaga ritningu BTB. Ég trúi því alveg að skýrsla RNA fari ekki alltaf rétt með og oft eru túlkanir byggðar á sannfæringakrafti viðmælanda, en ekki staðreyndum, en enginn fær mig til að trúa því að BTB sé saklaus.
Ábyrgð fjölmiðla er mikil. T.d. í viðtali, eins og því sem vísað er til að ofan. Hvar eru gagnrýnu spurningarnar? Af hverju er Sigurjón ekki spurður út í það hvers vegna hann hafi samþykkt sýndarábyrgð sem rann út áður en vanskil voru orðin þess virði að hafa áhyggjur af þeim. Hvar er spurningin um yfirmannsábyrgð Sigurjóns eða hvað upphæðin þurfi að vera há til að megi trufla bankastjórana í sumarfríi. Maður hefur helst á tilfinningunni, að mennirnir sem settu þjóðina á hausinn fáist ekki í viðtöl nema um drottningarviðtöl sé að ræða. Bannað að spyrja alvöru spurninga. Bannað að sauma að viðmælandanum. Bannað að reka sannleikann upp í nasir viðkomandi vegna þess að hann gæti fengið blóðnasir.
Sjálfur var ég í Silfri Egils sl. sunnudag. Með mér í panel var Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann tók upp á því að segja alls konar tröllasögur, sem hann vildi sannfæra þjóðina um að væri sannleikanum samkvæmt. Því miður fyrir Magnús var ég þarna líka og ég þekkti sögurnar betur en hann. Hans útgáfa var dapurleg hliðrun sannleikans og þannig er það því miður of oft. Þjóðin vill ekki að það sé logið að henni. Hún vill sannleikann hversu hraðneskjulegur sem hann er. Meðan sannleikurinn er ekki uppi á borðinu, þá verður haldið áfram að grafa eftir honum. Í leiðinni verður grafið undan trúverðugleika ansi margra í þjóðfélaginu. Er ekki betra að koma hreint fram um hvað gerðist og hvað er að gerast, en að halda þessu bulli áfram?