Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.9.2011. Efnisflokkur: Icesave
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Ísland hafi ekki greitt lágmarkstrygginguna. Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þennan málflutning. Bretar og Hollendingar ákváðu að lána íslenska tryggingasjóðnum fyrir þessari greiðslu og síðan fór greiðslan fram. Icesave deilan stóð um hvernig standa ætti að endurgreiðslu á þessum lánum, þ.e. vaxtakjör, greiðsluröð, lánstímann og ábyrgðir. Að halda því fram, fyrst ekki tókust samningar um ofurkjör Breta og Hollendinga, að þá hafi íslenski tryggingasjóðurinn ekki greitt lágmarkstrygginguna, er í besta falli lélegur brandari.
Breskir og hollenskir innstæðueigendur fengu greitt út ekki bara lágmarkstrygginguna, heldur líka viðbótartryggingu sem Landsbanki Íslands hf. tók hjá erlendu tryggingasjóðunum. Málið snýst ekki um hvort fólk hafi fengið greitt eða ekki, svo mikið er víst. Mér sýnist málið snúast um hvernig var greitt.
Alveg frá upphafi, þá litur bresk og hollensk stjórnvöld á að þau hafi veitt íslenska tryggingasjóðnum lán fyrir lágmarkstryggingunni. Mér vitanlega hefur það ekki breyst. Lánið hefur ekki verið afturkallað. Vissulega fór greiðslan fram í gegn um hina erlendu sjóði, en það var einfaldlega vegna óþolinmæði þarlendra stjórnvalda. Ekki ætlast ESA til þess að innstæðueigendur fengju greitt tvisvar. Ágreiningurinn hefur ekki staðið um að íslenski sjóðurinn ætli að endurgreiða lánið, a.m.k. veit ég ekki til þess. Þannig að ég skil ekki þennan málflutning ESA, nema náttúrulega að vörn Íslands í málinu hafi verið svo hrikalega slök að hún hafi hreinlega leitt ESA að þessari niðurstöðu.
Færslan var skrifuð við fréttina: ESA bíður ekki eftir uppgjöri úr þrotabúi