Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.8.2011.
Eftir að hafa lesið svar Seðlabanka Íslands við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis vegna fyrirspurnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þá fæ ég ekki betur séð, en að Seðlabankinn viðurkenni að reglur bankans hafi ekki lagastoð. Ef þær hefðu lagastoð, þá myndi bankinn vísa með fáeinum setningu beint á lagaákvæðin sem reglurnar byggja á. Í staðinn fer bankinn í langt mál með að tala um venjur og hefðir, rétt Seðlabankans og stjórnvalda áður fyrr til að ákveða framkvæmd verðtryggingar, dóma Hæsaréttar sem byggja á úreltum lögum og svona mætti lengi telja.
Hvergi í greinargerð Seðlabankans er vísað í ákvæði laga sem segja skýrt og skorinort að heimilt sé að verðtryggja höfuðstól lána. Hvergi. Farið er í langlokur til að lýsa hugsanlegri ætlan árið 1979, sem þó birtist ekki í lögum nr. 13/1979 og sýndir eru útreikningar sem eiga að sanna að ekki skipti máli hvort höfuðstóllinn er verðbættur eða greiðslan. Málið er að hvorugt af þessu skiptir máli. Spurning Hagsmunasamtaka heimilanna, eins og ég skil hana, var sáraeinföld: Er lagastoð fyrir því að verðbæta höfuðstól verðtryggðra lána og ef svo er hvar er hana að finna?
Kostulegust þykir mér þó skýring í síðustu málsgrein á bls. 11 í svari Seðlabankans. Þar er talað um lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og segir:
Lögmætisreglan gerir þær kröfur að ákvarðanir og afhafnir stjórnvalda eigi sér stoð í lögum og megi ekki brjóta í bága við lög. Reglan gerir ekki þær kröfur að reglur sem löggjafinn hefur falið stjórnvaldi að setja um tiltekið málefni séu orðaðar með nákvæmlega sama hætti og viðkomandi lög. Leiði reglur stjórnvalds efnislega til sömu niðurstöðu og lögin boða getur ekki verið um brot á lögmætisreglunni..
(Leturbreyting mín.)
Hér er fyrst við það að athuga, að niðurstaðan leiðir ekki til efnislega sömu niðurstöðu. Verðbættur höfuðstóll er hærri en óverðbættur höfuðstóll. Áhvílandi lán með verðbættum höfuðstóli er því hærra en sama lán, ef höfuðstóllinn er ekki verðbættur. Ekki var spurt um greiðslubyrði eða heildargreiðslur heldur hvort verðbætur mættu leggjast á höfuðstól. Því er ljóst að reglur Seðlabankans leiða ekki til sömu efnislegu niðurstöðu. Í annan stað, þá heimilar lögmætisreglan, eins og hún er skýrð út af Seðlabankanum, stjórnvaldinu ekki að breyta merkingu laganna, þó svo að hlutirnir séu ekki orðaðir eins. Lög nr. 38/2001 heimila að verðtrygging nái til greiðslu. Hvergi í lögunum er vikið að því að verðtryggja höfuðstól. Á þessu tvennu er munur. Sjái lögspekingar Seðlabankans ekki mun á höfuðstóli og greiðslu, þá erum við í slæmum málum. Hvað næst, sjá þeir ekki mun á bíl og bensíni eða menntun og skólabók?
Mér finnst alveg kristaltært á bréfi Seðlabankans, að hann á í erfiðleikum með að verja reglurnar sínar. Ef það væri auðvelt fyrir hann og augljóst, þá hefði hann ekki þurft 13 blaðsíður. Ein hefði dugað með stuttri hnitmiðaðri vísun í lagagreinina sem heimilar verðbætur höfuðstóls. Í staðinn reynir Seðlabankinn að klóra bakkann (og lái ég honum það ekki) með vísan í að efnislega sé niðurstaðan sú sama, greinilega með hliðsjón af heildargreiðslum. Ályktun bankans um þetta atriði er þó röng. Efnisleg niðurstaða er að hluta önnur án nokkurra vangaveltna, þ.e. höfuðstóll áhvílandi veðskulda er hærri sé höfuðstóllinn verðbættur. Hitt atriðið krefst meiri yfirlegu.
Menn tala gjarnan um að raunvirði eða núvirði greiðsluflæðisins sé það sama, hvor leiðin sem farin er. Þar sem við lántakar tölum ekki allir í raunvirði og núvirðingu, þá er þetta atriði með greiðslubyrðina líka rangt. Fyrir meginþorra launafólks í landinu, þá hefur þróun launa undanfarin 14 ár eða svo verið sú, að þau hafa ekki haldið í við verðlag. Fyrir þennan hóp hefur því raunþyngd greiðslubyrði lána aukist með árunum borið saman við heildarlaun þeirra. Hækkun launavísitölu var á árunum 2003 - 2007 haldið uppi af starfsmönnum í fjármálafyrirtækjum og það er aftur að gerast þessi misserin! Meðan ein stétt hefur fengið 163% hækkun launa, hefur önnur fengið innan við 50%, en verðbólgan var kannski 120%. Fyrir þann sem hefur þurft að sætta sig við 50% launahækkun í 120% verðbólgu er augljóslega betra að greiða meira á fyrri hluta lánstímans en þeim seinni, meðan sá sem fékk 163% launahækkun er í öfugri stöðu. Já, raunvirði greiðslunnar er hugsanlega það sama, en raunvinnutímar sem fólk þarf að leggja að baki til að eiga fyrir greiðslunni eru ekki þeir sömu. Um það snýst málið líka.
En aftur að bréfi Seðlabankans. Því lýkur með tveimur áherslupuntkum í V. kafla. Í öðrum þeirra segir m.a.:
Seðlabankinn getur því ekki séð að meginregla laga nr. 38/2001 um verðtryggingu lánsfjár hafi verið ranglega framkvæmd þó reglur Seðlabankans nr. 492/2001 kveði á um verðbættan höfuðstól en lögin um verðbættar greiðslur. Seðlabankinn getur því ekki séð að 4. gr. reglna nr. 492/2001 skorti lagastoð.
Ég legg mál mitt í dóm.