Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.8.2011. Efnisflokkur: Afskriftir, Svindl og svik.
Samtök fjármálafyrirtækja segja að lán heimilanna hafi verið færð niður um 143.9 milljarða króna frá bankahruni. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is. Flott, ef satt væri! Það er rétt að lánin hafa lækkað sem þessu nemur, en 119,6 milljarðar af þessari tölu er ekki vegna góðmennsku fjármálafyrirtækjanna heldur vegna þess að þau voru staðin að lögbroti. Þetta er sem sagt sú tala sem FME, SÍ og stjórnvöld leyfðu fjármálafyrirtækjunum að innheimta ólöglega af heimilum landsins. Þessu til viðbótar hafa fyrirtækin síðan lækkað skuldir um ríflega 24 ma.kr.
Já, góðmennska fjármálafyrirtækjanna gagnvart heimilum landsins hljóðar upp á 24 ma.kr. Ekki er það nú ofrausn. Þessir 24 ma.kr. skiptast þannig að 18,7 ma.kr. er vegna þess að fjármálafyrirtækin ætla að afskrifa lán umfram 110% veðhlutfall, þ.e. þau ætla að afskrifa lán án veða. Þetta er það sem heitir sokkinn kostnaður. Tæpir 5,6 ma.kr. hafa síðan verið afskrifaðir vegna sértækrar skuldaaðlögunar.
Ætli fjármálafyrirtækin séu öll að tapa á þessu? Lífeyrissjóðirnir hafa fært lán sín niður um 200 m.kr. sem er vel innan allra skekkjumarka, en telst þó bein afskrift. Íbúðalánasjóður hefur þegar fært niður 1,6 ma.kr. sem lendir vissulega á skattborgurum, en talan er langt innan þeirra marka sem blásið var út sl. haust að aðgerðin myndi kosta sjóðinn. Þá eru það bankar og önnur fjármálafyrirtæki. Sparisjóðirnir eru með þremur undantekningum búnir að fá verulegan afslátt af útistandandi skuldum sínum. Tapi þeirra vegna afskrifta/niðurfærslu/leiðréttinga hefur því þegar verið mætt. Þá standa eftir bankarnir þrír: Arion banki, Íslandsbanki III. og Landsbankinn. Allir fengu þeir verulegan afslátt af lánasöfnum heimilanna við flutning þeirra frá hrunbönkunum. 120 ma.kr. var náttúrulega illa fengið fé með lögbrotum og því ekki lögmæt krafa. Eftir standa þá líklegast vel innan við 22 ma.kr. sem auðveldlega að rúmast innan þess afsláttar sem bankarnir fengu. Það sem meira er, að bankarnir munu eiga nokkuð drjúgan hluta eftir af afslættinum.
Hver er fréttin?
Fréttin hér ætti að vera:
Samkvæmt útreikningum fyrirtækja innan Samtaka fjármálafyrirtækja, þá hafa fyrirtækin þegar leiðrétt lán viðskiptavina sinna um 119,6 ma.kr. vegna lögbrota sem fólust í gengisbindingu lána. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgða vegna þessarar grófu tilraunar fyrirtækjanna til að hafa af viðskiptavinum þeirra þessa fjármuni. Þá hafa fyrirtækin ákveðið að afskrifa 18,7 ma.kr. af þegar töpuðum kröfum, þ.e. kröfum utan veðbanda, og 5,6 ma.kr. af kröfum sem hvort eð er myndu tapast eða voru þegar tapaðar, þ.e. ýmist eða bæði utan grieðslugetu eða utan veðbanda. Með þessum aðgerðum tekst fyrirtækjunum samt að búa til gríðarlegan hagnað með því að skila ekki til viðskiptavina sinna nema hluta þess afsláttar sem fyrirtækin fengu frá Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands þegar lánasöfnin voru færð yfir.
Færslan var skrifuð við fréttina: Lán lækkuð um 143,9 milljarða