Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.4.2011.
Hún er ekki björt lýsingin sem Berglind Nanna Ólínudóttir gefur af stöðu sinni. Því miður er hún ekki ein um þetta og þeim fer fjölgandi sem lenda í fátæktagildru íslenska "velferðarkerfisins". Ætli það séu ekki um 15 ár síðan að ég skrifaði mína fyrstu grein um þessi málefni og satt best að segja hefur lítið breyst. Stórum hluta landsmanna er ætlað að lifa af tekjum sem duga ekki fyrir framfærlsu.
Pétur Blöndal uppskar mikla reiði um miðjan 10. áratuginn, þegar hann af sínu alkunna yfirlæti talaði niður til lífeyrisþega og sagði ekkert mál að lifa á grunnbótum. Það er svo sem alveg rétt að hægt er að lifa á grunnbótum, en þá má viðkomandi ekki skulda krónu. Helst þarf viðkomandi að eiga maka sem er með góðar tekjur til að greiða allan húsnæðiskostnað, að maður tali nú ekki um óþarfaútgjöld á borð við tannlæknaþjónustu, sumarleyfi, tómstundir barnanna og fleira í þeim dúr. Raunar er ætlast til þess að fyrir einstæðan öryrkja, sem er með barn á sínu framfæri, þá eigi nær allur kostnaður vegna barnauppeldisins að koma frá velgjörðarmönnum.
Staðreyndir málsins eru, að "velferðarkerfið" gerir ekki ráð fyrir að einstaklingar þiggi "góðvild" þess nema í stuttan tíma á yngri árum. Það gerir líka ráð fyrir að sá sem þiggur stuðning þess hafi tekjur annars staðar frá. En jafnframt þá refsar það einstaklingum grimmilega fyrir slíka "heppni".
Ég þekki þetta af eigin raun, þar sem konan mín er MS-sjúklingur. Eins og algengt er um MS-sjúklinga, þá er starfsorka þeirra verulega skert og af þeim sökum eru þeir yfirleitt metnir 75 - 100% öryrkjar. Hér á árum áður var henni refsað fyrir það, að ég hefði mannsæmandi tekjur, en nú er búið að afnema þá vitleysu, en þó bara að hluta. Tekjur mínar skerða enn bætur hennar, ef tekjurnar heita fjármagnstekjur, hvort sem um er að ræða af bankabókinni minni (sem er að vísu tóm) eða ef mér dytti í hug sú vitleysa að vera með eiginrekstur í einkahlutafélagi. Þannig að sé maki öryrkja sjálfstætt starfandi er hann þvingaður af furðulegri löggjöf um almannatryggingar til að annað hvort vera með reksturinn undir eigin kennitölu eða verður að passa sig á því að greiða sér engan arð af starfseminni. Málið er nefnilega að 25% af fjármagnstekjum (hvort heldur viðkomandi eða makans) umfram frítekjumörk skerða lífeyri almannatryggingakerfisins.
Þetta atriði er sérlega varhugavert í núverandi ástandi í þjóðfélaginu. Mjög margt eldra fólk er fast í húsnæði sínu, þar sem það getur ekki selt nema taka á sig gríðarlegt tap. Það getur heldur ekki flutt í hagstæðara leiguhúsnæði eða inn til barnanna sinna og leigt í staðinn út húsnæðið sitt nema fá á sig skerðingu lífeyris. Staða þess er þessa stundina þannig, að það ræður ekki við afborganir lánanna sinna, og ef það reynir að moka sig út úr skaflinum, þá kemur almannatryggingakerfið (og raunar skattkerfið líka) og sturta stórgrýti í veg þeirra. Ef þessi lífeyrisþegi hefði á einhverjum tímapunkti stofnað leigufélag um húsið sitt, þá fengi hann að draga allan kostnað fyrst frá tekjunum áður en fjármagnstekjurnar byrjuðu að skerða lífeyrinn.
(Ekki má gleyma þeim fáránleika, að fjármagnstekjuskatturinn er ekki dreginn af tekjustofninum sem skerðir lífeyrinn!)
Ég fæ stundum pósta frá fólki sem er fast í gildrum stjórnvalda. Hér er eitt dæmi og vona ég að viðkomandi fyrirgefi mér að hafa ekki spurt um leyfi, en ég hef tekið allt út sem vísað gæti til viðkomandi:
Í byrjun árs 2008 ákváðum við að minnka við okkur og fara í litla blokkaríbúð fyrir aldraða. Við settum húsið á sölu í febrúar það ár. Markaðsverð var áætlað um [xx] miljónir. Strax fengum við nokkrar heimsóknir, enda húsið talið söluvænlegt. Eitt ófullnægjandi tilboð barst nánast strax og annar beið með að gera tilboð þar til honum tækist að selja sína eign. Þá kom bomban. Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, kom fram í sjónvarpi allra landsmanna og tilkynnti að nú yrði um 30% verðfall á fasteignum. Þar með fór nánast öll sala í frost.
Við höfum ekki haft á stefnuskrá okkar að safna auði (á kostnað annarra). Fremur hefur verið reynt að gera þessu þjóðfélagi það gagn sem við höfum getað, enda unnið alla tíð og ekki þegið styrki af hinu opinbera. Umsögn starfsmanns hjá Umboðsmanni skuldara var líka sú að við værum í hópi “skynsama fólksins”! Nú er hins vegar svo komið að sjónvarpsstöðvum og prentmiðlum hefur verið sagt upp. Skrúfað hefur verið fyrir utanlandsferðir (eigum .. börn erlendis) og við hvorki reykjum né drekkum. Einnig hefur verið skrúfað fyrir leikhúsferðir, sem við höfum yndi af, sem og ferðum til lækna fækkað verulega. Við höfum selt jeppa og húsvagn sem við áttum og nú er sparnaður af reikningum, sem nota átti meðal annars í útfarkostnað búinn. Staðan er líka farin að hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan.
Þegar eign okkar var sett á sölu þóttumst við standa nokkuð traustum fótum í tilverunni og sáum fram á að geta átt einhverja aura fyrir útför og til að eiga út ævikvöldið. Nú er tilfinningin sú að staðið sé á bráðnandi ísmola með hengingaról um hálsinn. Hraði bráðnunar ræðst af aðgerðum yfirvalda og fjármálastofnanna.
Við ættum að vera sest í helga stein til að njóta elliáranna en sökum krafna, sem reynt er að standa skil á hefur húsbóndinn farið ítrekað [út á land], lagst í “útlegð” og snapað þar upp vinnu og mun enn gera. Ekki er sjálfgefið að einstaklingur á áttræðisaldri fái starf á Reykjavíkursvæðinu (né heldur annars staðar).
Síðan klikkir bréfritari út með orðunum:
Standist sú staðhæfing að best sé að aldrað fólk búi eins lengi og unnt er í eigin húsnæði verður að gera því fært að gera það. Fólk verður að fá að halda reisn sinni eins lengi og unnt er og koma verður í veg fyrir að fólk verði "hreppsómagar" að óþörfu.
Tekið skal fram að lánin sem eru að sliga þetta góða fólk eru venjuleg íslensk verðtryggð húsnæðislán!
Stjórnvöld verða að fara að vakna upp, ef hér á ekki að skapast allsherjar neyðarástand. Neyð margar er mikil núna, en ástandið ætti að vera viðráðanlegt, ef lagst er á árarnar við að laga það. Málið er, að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki eru að róa í öfuga átt við þarfir almennings og atvinnulífsins. Skattar og afborganir lána eru að sliga fólk og fyrirtæki. Farið að vakna til vitundar um þetta áður en það verður um seinan.
Framfærslulífeyrir öryrkja og ellilífeyrisþega er hneisa
Því miður hefur þetta ástand ekki fengið nægan hljómgrunn í samfélaginu. Líklegasta ástæðan er að þjóðfélagið hefur ekki efni á því að gera nauðsynlegar bragabætur. Það breytir ekki því að það er hneisa að stór hluti landsmanna skuli vera skikkaður af ríkinu til að lifa undir fátæktarmörkum.
Staðreyndir málsins eru að íslenskt samfélag stendur ekki undir sér, a.m.k. ekki í bili. Kostnaðurinn við að reka það er meiri en skatttekjurnar sem ríkissjóður getur haft án þess að skattarnir skerði lífskjör. Bæði erum við of fámenn til að standa undir allri þeirri þjónustu og velferð sem við viljum að ríki og sveitarfélög bjóði upp á, og við erum of skuldsett. Ástandið var lítið betra hér fyrir hrun þegar ríkissjóður var "nánast" skuldlaus. Ég set "nánast" innan gæsalappa, þar sem skuldir hans við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var nokkur hundruð milljarðar, en það hafði láðst að geta þess í ríkisbókhaldi.
Mér hefur alltaf þótt það furðulegt, að fólk greiði skatta af tekjum sem eru undir framfærslumörkum. Á hinn bóginn er persónuafsláttur ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði og er í raun enginn munur á persónuafslætti og beingreiðslum til bænda eða sjómannaafslætti, öllu er ætlað að greiða niður rekstrarkostnað viðkomandi launagreiðanda.
Er hægt að bæta kjör öryrkja og aldraðra? Hversu harkalegt sem það er, þá efast ég um þjóðfélagið hafi bolmagn til þess í bráð. Meðan atvinnurekendur eru berjast með kjafti og klóm gegn því að lægstu launataxtar nái skammtíma framfærsluviðmiðum vinnuhóps velferðarráðuneytisins, þá sé ég ekki fyrir mér að lífeyrir hækki. Nú ekki getur ríkið séð af skatttekjum í bili (að því virðist) og núverandi fjármálaráðherra er fallinn í sömu gryfju og þeir sem hann gagnrýndi mest hér áður fyrr og segir landsmenn ekkert muna um þessar fáu krónur sem hann er beðinn um að slá af bensínlítranum.
Velferðarstjórn vinstri flokkanna ber ekki nafn með rentu. Hún hefur gert allt annað en staðið vörð um velferðina og skjaldborgin um heimilin snerist upp í andhverfu sína. Guðbjartur Hannesson á hrós skilið fyrir að hafa látið gera skýrsluna um neysluviðmiðin. Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að berja á Árna Páli meðan hann var félagsmálaráðherra að neysluviðmiðin væri skilgreind, en líkt og með annað hjá Árna Páli, ef það kom ekki fjármálafyrirtækjunum til góða, þá var það ekki framkvæmt.
Guðbjartur mætti á fund um fátækt í haust og ljóst var eftir hann, að honum var brugðið. Ég treysti honum til góðra verka. Ég svo sem treysti Jóhönnu til góðra verka hér áður fyrr. Hún vann vel sem félagsmálaráðherra að málefnum þeirra sem minna máttu sín. Núna er hún aftur komin í varðlið fjármagnseigendanna og þá gleymist lítilmagninn.