Fáránleiki endurútreikninga: Skuldar háar fjárhæðir þó lánið hafi verið greitt upp 2007

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.4.2011.

Í síðari símatíma Reykjavíkur síðdegis á Bylgjunni í gær (27.4.2011) hringdi inn kona sem sagði farir sínar ekki alveg sléttar.  Mig langar að birta grófa endurritun samtalsins hér (þ.e. samfellt mál og öllum endurtekningum og mistökum sleppt).  

Hringjandi:  Góða kvöldið.  Ég er að velta fyrir mér þegar skipt var um kennitölu á bönkunum, þ.e. gamla kennitalan og nýja kennitalan.. 

Útvarpsmaður: Þegar þeir fóru í kennitöluflakkið..

H:  ..þá fengu erlendir kröfuhafar þetta með einhverjum afslætti.  Ég er mikið að velta þessu fyrir mér.  Ég er með erlent lán sem ég greiddi upp árið 2007og er að fá bréf um það, að ég skuldi um 600 þús. af láninu.  Hvernig getur nýi bankinn eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum?

Ú:  Ég vildi nú að ég hefði svar við því.  Þetta er nú alveg óskiljanlegt.

H:   Þetta skil ég ekki heldur.  Eignuðust þeir gamla bankann alveg eða hvað eignuðust þeir?

Ú: Eignuðust þeir ekki kröfurnar?

H:  Uppgreiddar kröfur líka?

Ú:  Þú varst búin að borga?

H:  Ég greiddi þetta lán upp 2007.

Ú:  Hvað ertu að fá í hausinn núna?

H:  600 þúsund og ég má velja á milli fjögurra leiða.

Ú:  Hvaða leiðir eru það?

H:  Það eru alls konar leiðir, ég má velja hvernig ég gangi frá þessu.

Ú:  Við höfum rætt við lögmenn um þetta og þeir segja að þeir sem lendi í þessu eigi bara að stefna bankanum.

H:  Á ég að þurfa að fara kaupa mér lögfræðing út af láni sem ég er búin að borga út af einhverjum banka sem er í eigu ríkisins?  Nýi bankinn er í eigu einhverra erlendra kröfuhafa.  Ég er búin að borga þetta og ríkið á þetta uppgreidda lán.

Ú:  Bankinn metur það þannig að miðað við endurútreikninga hafir þú greitt of lítið af..

H:  Það er greinilegt.  Þeir eru búnir að reikna það út.  En ég skil ekki hvernig nýi bankinn geti eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum.  Það er það sem ég er ekki alveg að kveikja á, skilurðu?

Ú: Það væri gaman að spyrja einhvern að því.

---

Ég er búinn að fjalla um fáránleika laga nr. 151/2010, gengislánalaganna, all nokkrum sinnum.  Ég hef gert það út frá nokkrum sjónarhornum, en aldrei þeim sem hringjandinn nefnir, þ.e. að uppgreidd lán geti ekki talist eign, hvað þá eign nýja bankans.  Hafa skal í huga, að við síðustu afborgun skal lánveitandi senda lántaka stimplað frumrit lánsins til merkis um að lánssamningurinn sé uppgerður.  Um leið er láninu aflýst.  Hann myndar því ekki lengur kröfu og þar með eign í bókum bankans.  Hafi hann verið fluttur yfir í nýja bankann, þá var hann fluttur yfir á virðinu 0 kr.  Það er ekki fræðilegur möguleiki að lán sem bankinn á ekki frumrit af, geti flust frá gamla bankanum til þess nýja sem hugsanlega framtíðarkrafa.  (Tekið skal fram að ég er með annað svona mál hjá mér og þar er skuldin 850 þús.kr. vegna láns með upprunalegan höfuðstól upp á um 1.600.000 kr.)

Ég er búinn að senda tveimur af þeim þremur bönkum sem ég er með áður gengistryggð lán hjá yfirlýsingu, að ég viðurkenni ekki rétt þeirra til að endurreikna gjalddaga vegna tímabils þar sem lánin voru í fullum skilum.  Í öðru tilfellinu voru lán gefin út af banka sem hrundi og síðan færð yfir í þann nýja samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Lánin voru í skilum við flutninginn, þ.e. allar innheimtar gjalddagagreiðslur höfðu verið inntar af hendi í samræmi við ákvæði lánasamninganna.  Ég hef því bent bankanum á, að telji hann að ég skuldi vexti vegna gjalddaga meðan lánið var í eigu gamla bankans, þá sé nýi bankinn ekki aðili að því máli.

Í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir í 81. gr. krafa sem ber vexti:

Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

Þetta ákvæði segir að nýr eigandi kröfu skal greiða jafnvirði áfallinna, ógreiddra vaxta í kaupverði.  Sé svo ekki, þá má gagnálykta að hann sé ekki eigandi vaxta vegna þess tíma, þegar lánið var ekki í hans eigu.  Gamli bankinn á vextina, ef einhverjir vextir eru.  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur E-5215/2010 ákveður dómarinn að kröfu Arion-banka, að bankinn eigi ekki aðild að endurgreiðslukröfu Sjómannafélags Íslands nema vegna þess tíma þegar lán Sjómannafélagsins var í eigu Arion banka. 

Allt bendir til þess, að afturvirk vaxtahækkun sé í besta falli vafasöm og næsta örugglega ólögleg.  Afturvirk vaxtahækkun á uppgreidd lán er örugglega ólögleg, þar sem greiðandi er búinn að fá afsal vegna lánsins og þar sem greiðandinn gerði ekkert ólöglegt og ekki er hægt að rekja nein mistök til hans, þá er nánast útilokað að hann verði gerður ábyrgur.  Afturvirk vaxtahækkun á þegar greidda gjalddaga, þar sem lántaki stóð við ákvæði lánasamningsins, er nær örugglega ólögleg.  Nú eigi afturvirk vaxtahækkun sér einhverja stoð, þá eiga gömlu bankarnir vaxtakröfuna, ekki þeir nýju.

Í lokin vil ég nefna, að Íslandsbanki - Fjármögnun hefur gefið það út, að ekki verði innheimt skuld á uppgreiddar kröfur komi í ljós við endurútreikning að slík skuld sé til staðar.  Hvernig ætlar bankinn að réttlæta þetta en rukkar okkur hin um vexti fyrir sama tímabil.

Bendi fólki síðan á nokkrar eldri færslur (tenglar eru enn sem komið er á Moggabloggið, en því verður breytt):

Fjármálafyrirtæki í klemmu

Endurútreikningur án samþykkis lántaka hefur enga merkingu - Afturvirk hækkun vaxta er eign gamla bankans

Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn?

Uppgreitt lán skal taka nýja vexti og lántakar skulda 3,5 m.kr. á eftir

Tímamótadómur í Héraðsdómi Reykjavíkur: Afturvirk vaxtabreyting ekki viðurkennd