Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.12.2011.
Bankahrunið ætti að kenna okkur að langtímahagsmunir þurfa að vera ofar skammtímaávinningi. Skiptir þá ekki máli hvert málefnið er. Allt of mörg dæmi eru um það, að næsti bikar er það markmið sem menn setja sér og er þá öllu kostað til. Þannig hefur bankakerfi heimsins að því virðist verið rekið og þannig var bankakerfið á Íslandi rekið. Frá þessari stefnu verðum við að víkja, þó það kosti að lengri tíma tekur að vinna sig upp úr öldudalnum.
Sígandi lukka er best. Það hefur ærið oft sannast. Að taka eitt skref, ná jafnvægi þar áður en haldið er áfram. Taka annað skref, ná jafnvægi áður en haldið er áfram. Svona vinnum við okkur hægt og rólega út úr vandanum. Þetta er ekki ólíkt því að klífa hamravegg. Ef gripið eða fótfestan er ekki góð, þá gætum við misst takið og fallið niður eða bara runnið til baka.
Viljum við byggja upp traust atvinnulíf, þá gerum við það með þessum hætti. Eitt skref í einu og finnum jafnvægið sem þarf til að halda áfram. Því miður hefur verið of algengt að eðlilegri varúð er kastað fyrir róðann, þar sem skyndigróði var rétt handan við hornið. Skyndigróði sem reyndist svo tálsýn og þá var ekkert bakland til að hjálpa viðkomandi að taka skellinn. Um þessar mundir er bankakerfið að afskrifa (eða öllu heldur skila afskriftum gömlu bankanna) hjá fjölmörgum aðilum, sem héldu að þeir kynnu einhverja töfraaðferð við að klífa Everest. Þeir tóku gylliboðum gömlu bankanna um skjótfengan gróða, keyptu hlutabréf án þess að eiga nokkurt eigið fé, fóru út í fjárfestingar í þeirri von að þeir væru óskeikulir. Fjallagarpar hafa lengi sagt að mikilvægt sé að klífa "rétta" fjallið, the Right Mountain. Ljóst er að íslenski fjármálaheimurinn kleif rangt fjall á árunum fyrir hrun. Hann a.m.k. réð ekki við það "fjall" sem hann lagði á.
Þetta hljómar kannski frasakennt, en sannleikurinn er sá að langt ferðalag hefst með fyrsta skrefinu og til að komast á leiðarenda, þá þurfum við að stíga sjálf hvert einasta skref á leiðinni. Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það oftast einmitt það. Ætli menn að stytta sér leiðina, þá verður það oft til þess að þeir missa af tækifærinu til að læra og öðlast skilning og reynslu. Er ég ansi hræddur um að það hafi einmitt verið þetta reynsluleysi og skortur á skilningi, sem hafi orðið íslenskum fjármálakörlum fjötur um fót og leitt þá út í þær ógöngur sem þeir rötuðu í og drógu því miður íslensku þjóðina með sér.
Grunnurinn skiptir máli
Ætli menn að byggja upp öflugt fyrirtæki, þá skiptir grunnurinn mestu máli. Orkuveita Reykjavíkur eru dæmi um fyrirtæki, þar sem þetta gleymdist. Ekki það að OR var mjög traust fyrirtæki á mjög traustum grunni. Alveg algjörlega. Sá grunnur var fyrir almenningsþjónustu, ekki framleiðslu fyrir stóriðju. OR ákvað að klífa rangt fjall eftir að hafa náð fullkomnu valdi á að klífa rétt fjöll. Hún byggði stórhýsi á grunni sem hentaði fyrir einbýlishús.
Dæmin um röng fjöll eru mýmörg. Fiskeldi, rækjuveiðar, loðdýrarækt, bílaumboð, bankakerfið og svona mætti lengi, lengi telja. Ekkert af þessu hefði þurft að bregðast, ef menn hefðu bara kunnað að klífa þessi fjöll sem þeir lögðu á. Vandamálið var oftast að menn höfðu ekki fjármagn til að bíða eftir uppskerunni. Í gamla daga var sagt, að sá sem setti verslun á fót þyrfti að þola 2 - 3 ár, jafnvel lengur, án þess að geta tekið nokkuð út úr rekstrinum. Í dag ætla menn helst að fá milljón á mánuði frá fyrsta degi. Slíkt er dæmt til að mistakast í 99% tilfella.
Hvernig klífur maður nýtt fjall?
Ég er svo sem enginn fjallagarpur, enda þarf ég svo sem ekki að vera það til að vita margt af þessu. Ég er þó í gönguklúbbi og hef því af og til álpast á rangt fjall. Ætlað mér um of. Fyrst um sinn átti það til að bitna á fólkinu í kringum mig, en síðan lærði ég að ég stjórna og ber ábyrgð á minni fjallgöngu. Til þess að komast á toppinn varð ég einfaldlega að fara hægar yfir en margir aðrir í hópnum. Þetta hefur oft orðið til þess að ég komst ekki upp á toppinn, en ég hef komist hærra upp í hvert sinn. Og er það ekki markmiðið: Að gera betur í dag en í gær!
En hvernig klífur maður nýtt fjall? Í bókinni The Right Mountain, Lessons from Everset On the Real Meaning of Success, lýsir höfundurinn, Jim Hayhurst, sr., ferð sinni með hóp manna á Everest. Það eru tæp 16 ár síðan ég eignaðist þessa bók, en hún er mér sífelld uppspretta visku um lífið og árangurríka nálgun að lausn "óviðráðanlegra" viðfangsefna. Frá því að ég eignaðist bókina hef ég lagt á óteljandi "fjöll" sem í upphafi hefðu átt að teljast "röng", en með réttri aðferðafræði hefur mér tekist að ná lengra en mér hefði dottið í hug i upphafi. Já, ég hef af og til valið ögrandi verkefni og er baráttan fyrir réttlæti til handa heimilum landsins líklegast það mest ögrandi af öllum. Ég alltaf byggt á því að smátt er gott og virt að langtímamarkmið skiptir meira máli en stundarávinningur. Ætli maður að komast alla leið, þá má maður ekki sprengja sig á stuttum kafla. Betra er að missa af fallegu útsýni frá einum stað, en að missa af því markmiði að sjá ennþá fallegra frá öðrum stað. Nú einnig er mjög oft besta lausnin að snúa við, annað hvort til að velja aðra leið eða til að segja þetta gott að sinni.
The Right Mountain
Jim Hayhurst lýsir í bókinni, The Right Mountain, á einfaldan og auðskiljanlegan hátt því ferli sem fólst í því að klífa Everest. En það er ekki ferlið sjálft sem skiptir máli, heldur það hugarfar sem maður fer með inn í ferlið og þann lærdóm sem draga má af því. Af þeim sökum verður bókin, sem lýsir þessu ferðalagi, að einstakri leiðsögn um hvað skiptir máli í nútíma fyrirtækjarekstri. Allir kaflar í bókinni bera annars vegar heiti og síðan tilvísun í hvað læra má af því sem þar er fjallað um. Lærdómurinn eða skilaboðin/heilræðin eru einmitt það sem gerir bókina svo góða og birti ég hér fyrir neðan valdar greinar:
Kafli 1: Building a Team, a Real Team
Kafli 2: Commitment
Kafli 5: Bite-Sized Pieces
Kafli 6: Motivation Makes the Difference Every Time
Kafli 7: Life Is Not a Macho Sport
Kafli 8: Set Clear Goals and Communicate Them Clearly
Kafli 12: Sometimes You Have to Be Lucky
Kafli 13: Keep Perspective
Kafli 14: You Can’t Go Full Tilt All the Time
Kafli 17: Sometimes You Have to Let Somebody Else Do It
Kafli 19: You Can Learn a Lot by Looking Back
Kafli 20: When You Don’t Know What to Do, Do It Slowly
Kafli 22: The Laws of Nature Cannot Be Violated
Kafli 25: Define Roles and Goals
Kafli 26: Don’t Get Cocky - Don’t Forget the Lessons Learned
Kalfi 29: The Right Mountain
Kafli 30: Establishing Priorities
Kafli 31: Decision Making
Kafli 32: Using Core Value
Skilgreining á árangri
Bókinn lýkur með verkefnakafla og eftir að ég las hana fyrst, þá svaraði ég nokkrum spurningum. Þó liðin séu tæp 16 ár, þá er ég bara nokkuð sáttur við það sem ég skrifaði. Fyrst er það skilgreining mín frá (líklegast snemma árs) 1996 á hvað er árangur:
Árangur er að ná markmiðum sínum miðað við að þau séu hófleg og náanleg. Markmiðin mega ekki brjóta gegn almennri siðferðiskennd eða vera á kostnað einhvers sem minna má sín.
Ég gæti ekki orðað þetta betur í dag.
Höfundurinn sjálfur segir hins vegar:
TRUE SUCCESS
is the attainment of purpose
without comprimising
CORE VALUES
(Core Values er það sem við tölum almennt um sem siðgæðisvitund.)