Neikvæður viðskiptajöfnuður er stærsta vandamálið - Sama sagan út um allt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.12.2011.

Ég hef oft verið spurður að því hvers vegna krónan styrkist ekkert þó svo að góður afgangur sé af vöruskiptum.  Svarið er einfalt: 

Vegna þess að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins við útlönd er í steik.

Viðskiptajöfnuður er annar helmingurinn af greiðslujöfnuði þjóðarinnar, en hin hliðin er fjármagnsjöfnuður.  Mikilvægt er að sem mest jafnvægi sé á milli þessara þátta og ennþá betra er að jafnvægið sé tilkomið án verulegrar lántöku. 

Í töflunni fyrir neðan eru birtar tölur frá upplýsingasviði Seðlabanka Íslands og sýna þær lykiltölur vegna greiðslujafnaðar við útlönd.  Birtar eru í fyrsta lagi tölur fyrir 2008, í öðru lagi frá hruni og í þriðja lagi samtala frá 1990. (Taflan er ekki alveg í mestu mynd, þar sem ég varð að klippa hana úr upphaflegu færslunn.)

Samkvæmt þessum tölum hafa vöruskipti við útlönd verið jákvæð um 427 ma.kr. frá hruni, en þrátt fyrir það hefur viðskiptajöfnuður verið neikvæður um 410,6 ma.kr.  Ástæðan er að við höfum notað  880,9 ma.kr. í vaxtagreiðslur á þessum tíma eða ríflega þriðjung af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar!  Vissulega voru greiðslurnar mestar á fyrstu sex mánuðunum eftir hrun eða 271,2 ma.kr., en árið 2009 voru þær 312,9 ma.kr., árið 2010 voru þær 219,3 ma.kr. og það sem af er þessu ári eru þær 180,9 ma.kr., þannig að þær stefna í 240 ma.kr. fyrir árið. Á móti þessu koma vaxtatekjur, en þær hafa verið brot af vaxtagjöldunum.

Þó tölurnar séu ískyggilegar vegna síðustu fjögurra ára, þá er þetta ekkert nýtt.  Munur á vaxtatekjum og vaxtagreiðslum eins langt og tölur Seðlabankans ná er 1.500 ma.kr.  Ástæðan er ákaflega einföld við erum búin að vera á kafi í erlendum lántökum.  Nettó lántökur, þ.e. lántökur mínus afborganir/endurgreiðslur, frá 1. janúar 1990 eru 3.088 ma.kr. á gengi hvers tíma.  Vegna gengisþróunar, þá eru bara lán í vanskilum 4.149 ma.kr.

Innlánsstofnanir í slitameðferð valda vanda

Þegar tölur Seðlabankans eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð.  Þannig hafa þáttatekjur vegna þeirra frá hruni verið neikvæðar um 434,8 ma.kr. á móti 409,3 ma.kr. vegna annarra þátta.  Værum við laus við hrunbankana, þá væri viðskiptajöfnuður á þessu tímabili jákvæður um 24,1 ma.kr.  Svo sem engin stór upphæð, en samt jákvæð tala.

Eðlilegt að krónan styrkist ekki

Miðað við þessar tölur er bara eðlilegt að króna styrkist ekki. Ekki er til innistæða fyrir styrkingunni.  Raunar má segja að fullkomlega eðlilegt sé að krónan sé jafn óburðugur gjaldmiðill og reynslan hefur sannað.  Við höfum líklegast um aldur og ævi eytt um efni fram.  Þetta sést best á viðskiptajöfnuði síðustu tæplega 22 ára.  Hann er neikvæður um 1.711 ma.kr.  Það þýðir að á hverju ári hafa 78 ma.kr. úr landi vegna innflutnings vöru og þjónustu og þáttagjalda umfram það sem komið hefur inn vegna útflutnings vöru og þjónustu og þáttatekna.  Þetta er vandi þjóðarinnar í hnotskurn, þ.e. við eyðum meira en við öflum.  Til þess að hafa efni á eyðslunni, þá eru slegin lán í útlöndum, en lántakan gerir lítið annað en að auka á vandann.

Vandinn er því tvíþættur.  Annars vegar er það eyðsla um efni fram í gegn um tíðina og síðan er það lántökur og vaxtagreiðslur af þeim.  Undanfarin fjögur ár hafa vaxtagreiðslurnar bitið harkalega og er lífsnauðsynlegt að losna við stærsta hlutann af þeim sem fyrst.  Glíman við það er einfaldlega mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda og Seðlabanka um þessar mundir.

Sama munstur víða um heim

Lilja Mósesdóttir hefur bent á að sama munstur er að endurtaka sig víða um heim og sérstaklega á Vesturlöndum.  Viðskiptajöfnuður velflestra landanna er og hefur verið neikvæður um langa hríð.  Alls staðar er sama staðan.  Framleiðsla innanlands dregst sífellt lengra aftur úr innanlandseftirspurn og við því er brugðist með innflutningi.  Hvert hagkerfið á fætur öðru er hætt að standa undir sér.  Þau eru ekki sjálfbær.

Lykillinn að endurreisninni, ekki bara hér á landi, heldur á Vesturlöndum líka, er að hvert land um sig auki innanlandsframleiðslu til að draga úr innflutningi eða svo útflutningur geti aukist til að vega upp á móti nauðsynlegum innflutningi.  Að við séum hér á landi að greiða 1 krónu í vexti ofan á hverjar þrjár sem innflutt vara og þjónusta kostar segir mér, að innflutta varan sé í reynd 33% dýrari en fram kemur í innkaupsverði hennar.  Þar með er innflutt vara sem er 20% ódýrari en innlend framleiðsla í reynd einhverjum 5 - 10% dýrari, þegar allur kostnaður þjóðfélagsins er tekinn inn í myndina.  Það borgar sig sem sagt fyrir þjóðfélagið, að sleppa því að flytja inn örlítið ódýrari vöru til að keppa við innlenda framleiðslu, svo hægt sé að nota peninginn, sem annars færi að greiða fyrir hina innflutt vöru, í að greiða niður erlend lán.  Um leið og erlenda skuldin lækkar, þá lækka vaxtagreiðslurnar.  Lægri vaxtagreiðslur leiða til þess að þáttatekjur/-gjöld verða minna neikvæð en áður og smátt og smátt vinnum við okkur í átt að sjálfbærni.  Eftir því sem erlendur kostnaður er minni, því betra er það fyrir hagkerfið.

Skattleggja gjaldeyriskaup til að greiða erlendum kröfuhöfum

Hinn augljósi vandi við þetta, er að þeir sem afla teknanna eru mjög oft aðrir en þeir sem þurfa að greiða vexti og afborganir lána.  Gjaldeyrishöftin, sem núna eru við líði, taka á þessu með því að knýja á skilum á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið.  Með því er hægt að nota gjaldeyrinn í það sem skiptir mestu máli.  Spurningin er bara hvort það sé gert. 

Er það rétt nýting á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið, að nota hluta hans til að greiða vexti vegna fjármálafyrirtækja í slitameðferð?  Er bara yfirhöfuð rétt að nota eitt einasta sent eða penní vegna innlendra eigna erlendra aðila meðan staðan er svona erfið?  Ég geri mér grein fyrir að fjölmargir erlendir aðilar eru læstir hér inni með peningana sína, en mér sýnist það vera sjálfskaparvíti að bæði loka peningana þeirra hér inni og einnig greiða með fáránlega háa vexti af þeim peningi sem hér er fastur.  Og gagnvart erlendum kröfuhöfum hrunbankanna, þá á ekki að taka í mál, að eitt einasta sent eða penní af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar fari í að greiða þeim.  Hrunbankarnir eiga sínar erlendu eignir og dugi þær ekki, þá er bara ekki meira að fá úr þrotabúin nema að hinir erlendu aðilar séu tilbúnir að taka á sig veruleg afföll.  Það kostar einfaldlega einhverja tugi prósenta ofan á dagsgengið, eigi að skipta krónum í erlenda gjaldmiðla til að gera upp skuldir við kröfuhafa hrunbankanna.

Ennþá fáranlegri er sá hluti samnings Steingríms J. við kröfuhafa bankanna, að þeir eigi rétt á allt að 320 ma.kr. viðbótargreiðslu frá hrunbönkunum vegna betri innheimtu.  Þetta er sáraeinfalt:  Við höfum ekki efni á því að láta þann gjaldeyri af hendi.  Mér er bara alveg sama hvað erlendir kröfuhafa hafa tapað miklu, meðan gjaldeyristekjur þjóðarbúsins standa ekki undir eftirspurn eftir gjaldeyri, þá er það hreint og beint brjálæði að auka við eftirspurnina á þennan hátt.  Þess samninga verður að taka upp hvað þetta varðar.  Einnig verður að fara í samninga við lánadrottna Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og ríkissjóðs og fá þá til að lækka kröfur sínar, hvort heldur í formi mun lægri vaxta eða lækkunar höfuðstóls lánanna.  Ástæðan er einföld:  Gjaldeyristekjur þjóðarinnar ráða ekki við greiðslubyrðina.  Við þurfum að fá sömu meðferð og Grikkir, þ.e. verulega niðurfellingu skulda hins opinbera.  Skuldir þjóðarbúsins þurfa að fara niður fyrir 70% eins fljótt og kostur er og það verður ekki gert nema með niðurfellingu skulda.

Ef menn halda að það breyti einhverju að skipta um gjaldmiðil, þá sýnir ástandið í Evrópu að svo er ekki.  Vissulega gæti það hjálpað, en þá þyrfti Seðlabankinn líka að fá vald til að prenta peninga eða hann fengi tímabundið ótakmarkaðan aðgang að peningahirslum  þess seðlabanka sem ætti í hlut án þess að greiða nokkra vexti af slíku láni.  Samhliða því yrði að eiga sér stað mikil aukning innlendrar framleiðslu og samdráttur í innflutningi.  Það er nefnilega þannig, að svo lengi sem viðskiptajöfnuðurinn er neikvæður, þá halda peningar áfram að streyma úr landi.