Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.12.2011
Sveinbjörnn Sveinsson setti færslu inn á vegginn hjá Lilju Mósesdóttur sl. þriðjudag 27. desember. Mér finnst að þetta innlegg hans verði að fá betri umfjöllun og krefjist raunar rannsóknar, því sé þetta rétt sem hann heldur fram í innleggi sínu, þá er hér einfaldlega um þá mestu svívirðu að ræða sem um getur. Ekki að þetta komi mér neitt á óvart, þar sem ég hef margoft bent á að þetta gæti gerst, en ég hélt að nýju bankarnir væru að meina það, þegar þeir segjast vera að reyna að leysa mál skuldugra viðskiptavina með sanngirni, réttlæti og jafnræði í huga. En fyrst er það færslan hans Sveinbjörns. (Ég tek það fram að ég hef leyft mér að laga aðeins ásláttarvillu og bætt inn orðum sem greinilega vantar.)
Ég gerði könnun og bauð í nokkrar eignir til að sjá hver viðbrögð bankanna yrðu . Þeir eru til búnir að semja við nýjan kaupanda; ekki skuldarann.
Dæmi 1: hjón í vinnu, tóku erl lán. Mat á húsi var 35 miljónir og þau skulduðu 33. Ásett nú 29 og bankinn til í að fara niður í 25 og halda frystingar eiginleikum. 115,000 í byrjunar afborganir og svo bæta 3 árum eftir á að 40 árum liðnum. En þeir eru ekki til í að semja við eigandann sem er búin að eyða öllum sparimerkjum og séreignarsjóðum + miklu hærri afborgana frá 1/1 2008 .
Dæmi 2: hjón í vinnu skulda 30 mil og sams konar hús á 30 milljónir en þeir eru til í að láta nýjan eiganda hafa það á 20 mil og henda fyrri eigendum á götuna. Sem sagt hreinn þjófnaður af fyrri eigendum, sem gætu ef þeir fengju leiðréttingu aftur í tímann (1/1 2008 og þar með eins og yfir 30 % skuldara) komið sínum málum á hreint, en NEI..
Ég er viss um að þessi dæmi Sveinbjörns eru ekki þau einu. Ég er líka viss um að bankarnir telji sig ekki skuldbundna til að ganga til samninga við núverandi/fyrri eigendur. Þetta er samt svívirða og ekkert annað.
Forkaupsréttur núverandi/fyrri eigenda
Ég hef nokkrum sinnum gert tillögu að því, að sett verði lög sem tryggja einstaklingi í skuldavanda forkaupsrétt að húsnæði sem fjármálafyrirtæki tekur yfir eða lætur bjóða upp. Slíkur forkaupsréttur gildir þar til húsnæðið er keypt af eiganda, sem ætlar að búa í húsnæðinu eða ætlar sannanlega að setja það á leigu. Margt mun vinnast með slíku fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi, þá verður tryggt að sá sem missir húsnæði sitt á nauðungarsölu fá annað hvort sanngjarnt verð fyrir húsnæðið eða geti gengið inn í fáránlega lágt uppboðsverð. Í öðru lagi kemur það í veg fyrir að fjármálafyrirtæki hirði eign af viðskiptavini sínum til að koma henni í hendur vildarvinar. Ég hef heyrt af því að húsnæði hafi verið tekið af fólki eftir pöntun, þó ég hafi ekki staðfest dæmi enda erfitt að sanna slíkt hátterni. Tekið skal fram að fleiri en einn aðili hefur haft samband við mig út af grun um að hafa misst hús sitt um slíkum kringumstæðum. Í þriðja lagi, kemur það í veg fyrir að fjármálafyrirtækin mismuni fólki, þ.e. líkt og Sveinbjörn lýsir, er tilbúið að selja þriðja aðila húsnæði á 10 m.kr. lægra verði en hann krefur núverandi eigendur um að greiða. Í fjórða lagi, eykur þetta líkurnar á því að fólk haldi húsnæði sínu.
Siðasáttamálar og fagurgali virðast blekkingar einar
Ef Sveinbjörn fer rétt með, sem ég efast ekki um, þá er ljóst að fagurgali og siðasáttmálar eru blekkingar einar. Fjármálafyrirtækin hafa ekki áhuga á að ná sátt. Þau hafa eingöngu áhuga á að níðast á fólki eins lengi og mögulegt er. Eins og Sveinbjörn bendir á, þá er fólk búið að reyna að standa í skilum. Sparnaðurinn búinn, séreignarsparnaðurinn búinn, allt aukalegt hefur verið selt á brunaútsölu, en nei bankinn vill meira. Hann er nefnilega búinn að reikna út að hægt er að fá meira með þessum hætti. Hann tapar engu, þar sem hann heldur áfram að rukka fyrri eigandann eins lengi og mögulegt er.
Satt best að segja, þá fæ ég æluna upp í háls í hvert sinn sem ég les svona færslur. Halda menn virkilega að núverandi bankar séu stikk-frí frá því sem gerðist fyrir hrun? Þeir eru í eigu skilanefnda og/eða slitastjórna gömlu bankanna og þar með eru þeir skilgetin afkvæmi villinganna sem settu Ísland á hausinn. Stór hluti af því sem nýju bankarnir eiga er afrakstur af lögbrotum, markaðsmisnotkun, vanhæfi, svikum, blekkingum, prettum og hvað það nú er sem kallað var bankastarfsemi hér á landi á árinum 2003 - 2008. Hluti af því sem nýju bankarnir eru að reyna að kreista út úr viðskiptavinum sínum, er því illa fengið fé. Þýfi og ekkert annað. En svo merkilega vill til, að sé þjófnaður stundaður í nafni fjármálafyrirtækja, þá virðist hann vera löglegur. Ef mér dytti í hug að gera 1/10 af því sem bankarnir gerðu fyrir hrun, þá væri fyrir löngu búið að senda á mig sérsveitina, en, nei, vegna þess að svo kallaðir bankamenn stóðu fyrir gjörningnum, þá leggja stjórnvöld sig í líma við að hjálpa nýju fjármálafyrirtækjunum að innheimta hið illa fengna fé.
Blekkingar á blekkingar ofan
Verst finnst mér í þessu öllu eru þær blekkingar sem fjármálafyrirtækin virðast ennþá beita varðandi endurútreikninga á áður gengistryggðum lánum. Mjög margir aðilar hafa snúið sér til mín og ekki sagt farir sínar sléttar. Þeim eru boðnir endurútreikningar sem eiga að vera svo ofboðslega hagstæðir, en í ljós kemur að mjög oft eykst greiðslubyrðin verulega við endurútreikninginn! Svo heldur fjármálafyrirtækið því fram að það sé að gefa eitthvað eftir.
Hvernig getur fjármálafyrirtækið verið að gefa eftir, þegar greiðslan sem það fær er hærri en áður en lánið var náðarsamlegast endurreiknað? Hvernig get ég sem lántaki verið betur settur með því að greiða meira mánaðarlega, en ég gerði áður? Sá sem getur skýrt þetta út fyrir mér, þannig að ég fallist á útskýringuna, ætti næst að taka að sér að miðla málum milli gyðinga og palestínumanna.