Gengistryggð lán voru færð niður um meira en helming við yfirfærslu til nýju bankanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.5.2011.

Daginn sem Alþingi fór í páskahlé kom út skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn íslensku bankanna.  Er þetta mikil skýrsla og fróðleg lesning.  Er ég kominn á nokkurn rekspöl með að lesa hana og vil hvetja alla þá sem vilja skilja hvernig þetta fór fram til að kynna sér efni hennar, en henni var dreift á Alþingi í síðustu viku, þrátt fyrir að á forsíðu sé skýrsla tímasett í mars 2011.  Hvers vegna ráðherra ákvað að draga það í allt að 10 vikur að dreifa skýrslunn, veit ég ekki, en tel það furðulegt.  Kannski var hann að bíða eftir kjördæmaviku svo heldur færi hægt og hljótt um skýrsluna.

Hér vil ég gera eitt atriði að umfjöllunaratriði.   Að sjálfsögðu er ég að fjalla um gengistryggingu.  Um hana er sérstaklega fjallað í undirkafla 2.4.6.2 Lögmæti gengistryggðra lána. Birti ég kaflann hér í heild.

2.4.6.2. Lögmæti gengistryggðra lána
Í tengslum við og eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hefur komið upp opinber umræða um hvaða viðhorf hafi verið uppi um þetta atriði hjá samningsaðilum í samningum milli bankanna um yfirfærslu eigna til nýju bankanna. Hafa sumir viljað deila á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki í nægilegum mæli tekið tillit til þessa í samningunum og hafa hefði átt fyrirvara um þetta atriði í samningunum.

Eins og greinir hér að framan voru sérstök álitaefni við mat eignanna (útlánanna) tengd þeirri staðreynd að skuldarar gengistryggðra lána voru að miklu leyti aðilar með tekjur í íslenskum krónum. Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti. Þó verður að hafa í huga að ýmis erlend og gengistryggð lán voru og eru í fullum skilum, einkum hjá útflutningsatvinnugreinunum. Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið.

Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.

Þegar þetta er ritað liggja fyrir dómar Hæstaréttar sem skera úr um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og hvernig skuli fara með vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána vegna bifreiðakaupa og húsnæðislána. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé ógilt. Við mat á því hvort lán vegna bílakaupa og húsnæðislán sé gilt erlent lán eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu skipti mestu hvort lánsfjárhæð sé ákveðin í íslenskum krónum og að greiða beri lánið til baka í íslenskum krónum. Lögum um vexti og verðtryggingu var breytt í árslok 2010 með lögum nr. 151/2010 þar sem kveðið var með nákvæmari hætti á um framkvæmd endurútreiknings lána sem dæmd hafi verið ógild, auk ákvæða til bráðabirgða um endurútreikning húsnæðislána.

Ekki liggur enn fyrir að hvaða marki fyrirtækjalán teljast hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu en á það mun líklega reyna fyrir dómstólum á næstu misserum, þótt fyrirtæki og bankar hafi raunar í miklum mæli samið um breytingar á þeim lánum. Enn er mjög umdeilt meðal lögfræðinga að hvaða marki fyrirtækjalánin verði talin hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu. Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti þeirra falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir.

Óvissan kringum gengistryggðu lánin var einn af þeim fjölmörgu þáttum sem tekið var tillit til við mat og samninga um eignavirðið. Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu. Mikilvægt var á sínum tíma að ljúka samningum og gerð endanlegra stofnefnahagsreikninga bankanna og verður að telja að á heildina litið hafi það verið betri kostur en að stöðva samningaferlið í ljósi þeirrar óvissu sem enn hefur ekki verið eytt að fullu. 

(Feitletranir eru mínar og fjalla ég nánar um þær neðar í færslunni.)

Þessi kafli sveiflast á milli þess að vera bullandi afneitun í að vera virkilega mikilvægt vopn handa þeim sem barist hafa fyrir réttlátri niðurstöðu varðandi hin áður gengistryggðu lán.  Fyrst að afneituninni:

Eins og ég segi, veit ég ekki í hvaða veröld skýrsluhöfundur/ar hrærðust, en þeir voru augljóslega meðal þeirra sem tóku þátt í þeim viðræðum sem lýst er í kafla 2.4.6. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra sat sjálfur í sjónvarpssal í Kastljósi 8. maí 2009, þar sem þessi mál voru rædd, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands gerði minnisblað í maí 2009 þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg, LOGOS útbjó lögfræðiálit fyrir Seðlabankann í maí 2009 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að gengistrygging sé ólöglög verðtrygging (LOGOS var ráðgjafi í viðræðum um verðmat á lánum), Björn Þorri Viktorsson sendi bréf á alla þingmenn og ráðherra í lok maí 2009, þar sem varða er við því að gengistrygging sé ólögleg,  Gunnar Tómasson sendi sams konar bréf á sömu aðila í september 2009,  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar 16. júní 2010 og í þeim dómum var ekkert fjallað um það hvort veðið að baki láninu skipti máli.  Það vill svo til að ég skrifaði færslu í gær um hvað dómstólar hafa sagt (Hvað hafa dómstólar sagt um áður gengistryggð lán?) og það vill svo til að 14. febrúar féllu tveir dómar í Hæstarétti, þar sem niðurstaðan er, að dómar um ólögmæti gengistryggingar gilda óháð lengd láns og tegund veðs þ.e. tilgangi með lántöku.

Mér finnst með ólíkindum að starfsmenn fjármálaráðuneytisins séu að fela sig bak við óvissu til þess að réttlæta það klúður sem gert var í samningum varðandi gengistryggð lán.  Þetta kemur jafnvel ennþá sterkar fram í kafla 2.4.4.2. Útfærsla á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, þar sem ekki er minnst einu einasta orði á ólögmæti gengistryggingarinnar, þó svo að hún ein hafi leyst vanda bankanna varðandi gjaldeyrisjöfnuð.  Það er auðvelt að taka sér sterk orð í munn, þegar maður sér þessa umfjöllun, en ég læt þingmönnum um að nota þau þegar skýrslan kemur þar til umræðu.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.  Inn á milli eru mikilvægar upplýsingar, raunar svo mikilvægar að þær fletta ofan af blekkingunum sem hafa verið viðhafðar af tveimur efnahags- og viðskiptaráðherrum.  Þar vil ég vísa til eftirfarandi atriða:

  • Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 (gengisvísitala svipuð og núna)

  • Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti.

  • Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða.  (Kemur annars staðar fram í skýrslunni að var allt niður í 35% endurheimtuvirði lána, en að jafnaði 45% fyrir öll lán.)

  • Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna.  (Helmingur af gengisvísitölunni 220 er 110!)

  • Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti [fyrirtækjalána] falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir.  (Bankarnir þola vel að öll gengistryggð lán verði leiðrétt.)

  • Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu.

Þetta er það sem kemst næst því að stjórnvöld beri til baka hinn gengdarlausa hræðsluáróður um óstöðugleika í fjármálakerfinu sem hefði hlotist af gengisdómum Hæstaréttar ef FME og SÍ hefðu ekki gripið inn í.  Eins og bent er á, þá var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins, en á blaðsíðu 21 er þess getið að það mat fari allt niður í 35% af öllum lánum eins bankans.  Hafa skal í huga að bókfært verðmæti eigna gömlu bankanna sem þeir nýju tóku yfir var samkvæmt efnahagsreikningi gömlu bankanna 4.000 ma.kr. (sjá töflu 2 bls. 21), þær voru yfirfærðar á 1.760 ma.kr., en skilyrt verðmætaaukning var 215 ma.kr. (skv. töflu 3 bls. 29).  1.760 af 4.000 gerir 44,0%, en 1.975 af 4.000 gerir 49,4%.  Þetta eru mörkin fyrir öll lán, en gengistryggð lán voru færð yfir með meiri afslætti en verðtryggð lán.  Þessi afhjúpun, sem mér virðist koma fram í skýrslu fjármálaráðherra, sýnir að gert var ráð fyrir að lánin gætu verið ólögleg og þó allt færi á versta veg þá gætu bankarnir staðið það af sér.  Hræðsluáróðurinn var eins og svo oft, fyrr og síðar, innantómt glymur úr tómri tunnu.