15 staðreyndavillur Guðjóns Rúnarssonar í Kastljósi kvöldsins

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.9.2011.

Ég var að horfa á Kastljóssþátt kvöldsins, þar sem m.a. sátu fyrir svörum Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.  Umræðu efnið var afskriftir af útlánum gamalla og nýrra banka.

Þátturinn byrjaði með samantekt þáttarstjórnenda og var ekki alveg farið rétt með allt þar, en hægt er að fyrirgefa þeim mistökin, þar sem þetta mál er einstaklega flókið.  Eina villu í inngangi stjórnanda verð ég þó að leiðrétta.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði að nýju bankarnir ættu að nýta allt svigrúm sitt til afskrifta, hvorki krónu minna né krónu meira.  Hann sagði líka að ekki kæmi til greina að láta einn hóp lántaka greiða fyrir afskriftir annarra, sem þýðir að afskriftir á lánum heimilanna (sem áttu sér stað í gömlu bönkunum) eiga að renna að öllu leiti til heimila sem tóku lán í þeim bönkum.

Guðjón Rúnarsson hefur ekki í langan tíma komið í fjölmiðla (svo ég hef séð) og sagt undanbragðalaust frá staðreyndum.  Hann gerði það ekki heldur í kvöld.  Ég taldi minnst 15 staðreyndavillur í málflutningi hans.  (Einhver myndi tala um lygar, en ég læt það ógert.)  Ari fróði Þorgilsson sagði að hafa ætti það sem sannara reynist og langar mig að hlýða hans ráði.

Spurður um hvernig lánin voru flutt á milli, hvers vegna þau voru afskrifuð í gömlu bönkunum og hvað þetta þýddi fyrir nýju bankana:

1. Guðjón þekkir vel þá list að svara ekki óþægilegum spurningum, þannig að hann reyndi að víkja sér undan og reyndi því að slá ryki í augu áhorfenda.  Hann lætur sem upplýsingar í fjölmiðlum, þá líklegast hjá mér og DV, byggi á misskilningi, þar sem lán til erlendra aðila og hluta til innlendra aðila hafi ekki verið færð á milli.

Staðreynd:  Í málflutningi mínum og DV hefur þess verið gætt að horfa fyrst og fremst til stöðu lána heimila og fyrirtækja, ekki eignarhaldsfélaga og alls ekki erlendra aðila.  Ég hef t.d. alltaf passað mig á að benda á, að lán eingarhaldsfélaga hafi að talsverðum hluta orðið eftir í gömlu bönkunum.  Enginn annar fjölmiðill hefur birt aðrar tölur en hafa komið frá ráðherrum og þær hafa verið byggðar á upplýsingum frá Fjármálaeftirliti sem aftur fékk þær frá bönkunum.  Enginn aðili hefur ruglað saman erlendum aðilum og innlendum aðilum.  Meira að segja hafa menn reynt að áætla hlut útlána SPRON og tengdra fyrirtækja í mismuninum á tölum Seðlabanka Íslands fyrir september 2008 og leiðrétta þannig lækkun á virði útlána um þá upphæð.

2.  Guðjón bætir svo við að "sama var um stóran stabba af íbúðarlánum bankanna, sem veðsettur var Seðlabanka Íslands" og gefur þannig í skyn að verið sé að ofreikna niðurfærslu íbúðalána sem nemur "stórum stabba af íbúðarlánum bankanna".

Staðreynd:  Eingöngu íbúðalán Kaupþings urðu eftir hjá Seðlabankanum vegna veðkalls sem hann gerði.  Slitastjórn Glitnis keypti íbúðalán sín til baka strax í október og færði þau inn í Íslandsbanka.  Þau voru því strax inni í útlánatölum Íslandsbanka vegna október 2008 og alveg örugglega inni í tölum fyrir júlí 2011, sem DV notar.  Slitastjórn Kaupþings keypti lánin til baka í janúar 2010 og færði inn í Arion banka.  Lánin voru því ekki inni í tölum í október 2008, en eru inni í tölu fyrir júlí 2011, sem DV notar.  Landsbanki Íslands veðsetti engin lán til Seðlabanka Íslands.  Þannig að eingöngu hluti íbúðalána eins banka fóru til Seðlabanka Íslands og þau voru færð til baka í janúar 2011.

3.  Guðjón segir að "talnamengun sé í gangi, þar sem ýmist er verið að tala um gamla og nýja bankakerfið eða tölur sem snúa bara að nýja..".  Með þessu virðist hann segja, að ekki megi bera saman upplýsingar um gömlu bankana og nýju bankana.

Staðreynd:  Ekki er hægt að skoða meintar afskriftir nema skoða tölur frá bæði gamla og nýja bankakerfinu.  Í því fellst engin "talnamengun".  Í mínum skrifum hef ég alltaf vitnað í opinberar tölur.  Ég hef alltaf reynt að vera varkár í mati og notast við tölur frá fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, þegar það hefur verið hægt.  DV notast við tölur Seðlabanka Íslands.  Það er engin talnamengun í gangi nema að Seðlabankinn, Steingrímur J og  Árni Páll hafi fengið mengaðar tölur.

4.  Spurður að því hvað svigrúmið þýði, þá svarar hann því ekki, en segir svo:  "Tveir bankar segjast vera búnir að nýta svigrúmið vegna íbúðalána."

Staðreynd:  Samkvæmt tölum bankanna sjálfra sem Samtök fjármálafyrirtækja birtu, þá höfðu bankarnir afskrifað 23,9 ma.kr. af lánum heimilanna á árunum 2009 og 2010.  Í árshlutareikningi bankanna vegna fyrri hluta árs 2011 fer mjög lítið fyrir afskriftum á skuldum heimilanna.  Séu tölur Seðlabanka Íslands skoðaðar, þá hefur staða útlána vegna verðtryggðra húsnæðislána bankakerfisins lækkað um 296 ma.kr. frá september 2008 til júlíloka 2011.  Lækkunin milli september og október 2008 var 248 ma.kr.  Gefum okkur að SPRON hafi átt 50 ma.kr. í verðtryggðum húsnæðislánum og Byr og SpKef umtalsvert minna eða um 30 ma.kr. samanlagt.  Þá eru 216 ma.kr. eftir af þessari tölu.  SFF segir að 23,9 hafi verið afskrifaðir, en útlánin lækka um 216 ma.kr. Þó hægt væri að skýra 100 ma.kr. með öðrum hætti (sem ég efast um), þá væru samt rúmlega 90 ma.kr. eftir.

5.  Guðjón mótmælir því að tala um markaðsmisnotkun.

Staðreynd:  Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ítrekað talað um markaðsmisnotkun.  Sama á við um skýrslur sem erlendir endurskoðendur unnu fyrir skilanefndri og slitastjórnir gömlu bankanna.  Kominn er tími til að SFF og framkvæmdastjóri þeirra hætti að kóa gömlu bankana og stjórnendur þeirra.  Lögbrot, blekkingar, svik og markaðsmisnotkun gömlu bankanna eru því miður, að því virðist, óhrekjanlegar staðreyndir, ef marka á þær heimildir sem ég vísa til.

6.  Guðjón:  "Menn eru að skipta milli þess að tala um tölur sem snúa að gamla bankakerfinu og þeim sem snúa að því nýja.  Það er ruglingslegt."  (Kannski ekki orðrétt eftir honum sagt.)

Staðreynd:  Ég hef notast við tölur frá fjármálafyrirtækjunum, ráðherrum og Seðlabanka Íslands.  Þessir aðilar hafa reynt að gera umræðuna ruglingslega með því að birta sem mest af ósamanburðarhæfum upplýsingum.  Þess vegna var svar Steingríms J við fyrirspurn Guðlaugs Þórs einmitt svo gott (svo langt sem það náði).  Þar var i fyrsta skipti hægt að sjá svart á hvítu hvaða afslátt tveir af bönkunum fengu á útlánum.   Áhugavert er að sjá hvað þessar tölur eru ólíkar afskriftartölum þeirra.

7.  Guðjón:  "Það er búið að lækka skuldir heimilanna um 144 ma.kr. og meira er í gangi.  Einn banki er búinn að tilkynna um á þriðja tug milljarða í viðbót, þannig að talan er komin upp í 170 ma.kr."

Staðreynd:  Bankarnir segjast vera búnir að afskrifa 23,9 ma.kr., SFF fullyrðir að talan sé 144 ma.kr.  Þessir 120 ma. sem munar koma hvergi fram í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna.  Síðan má nefna, að öll gengistryggð lán, heimila og fyrirtækja, voru lækkuð um 50% samkvæmt mati Deloitte LLP.  Stóran hluta tímabilsins frá október 2008 til dagsins í dag hækkuðu vaxtatekjur bankanna af þessum lánum vegna áhrifa af lögum nr. 151/2010.  Þessi hækkun vóg upp hluta af 120 ma.kr. lækkuninni, að ég tali nú ekki um vaxtahækkun fyrir það tímabil sem lánin voru í eigu fyrri kröfurhafa.  Engir útreikningar hafa verið birtir sem styðja þá fullyrðingu að áður gengistryggð lán hafi lækkað um 120 ma.kr. og meðan svo er, þá er talan fengin upp úr hatti sjónhverfingarmannsins.

8.  Guðjón vitnar í tölu frá Árna Páli um 90 ma.kr. svigrúm bankanna til að lækka húsnæðislán.

Staðreynd:  Þessi tala á eingöngu við verðtryggð húsnæðislán.  Hún á ekki við gengistryggð, þar sem öll gengistryggð lán voru, samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins, færð yfir með 50% afslætti.  Auk þess er ég ekki viss um að þessi tala eigi við nokkur rök að styðjast.  Henni hafi verið slengt fram vegna þess að ráðherra var í vörn.  Bara tölur Seðlabanka Íslands hafa allt aðra sögu að segja, þ.e að verðtryggð íbúðalán hafi lækkað um 248 ma.kr. frá september 2008 til júlí 2011 og gengistryggð íbúðalán stóðu í 107,6 ma.kr í september 2008 og hefðu því átt samkvæmt 50% reglunni að lækka í 53,8 ma.kr.  Þó einhver skekkja sé í tölunum, þá endar svigrúmið í mun hærri tölu en 90 ma.kr.  (Guðjón væri ekki að vitna í tölu Árna Páls nema vegna þess að hún kemur fjármálafyrirtækjunum betur en rétt tala.)

9.  Guðjóni var tíðrætt um erlend lán.

Staðreynd:  Þau lán sem hann talar um sem "erlend lán" hafa verið úrskurðuð af Hæstarétti sem íslensk lán í íslenskum krónum.  Orðfærið "erlend lán" er notað til að rugla.

10.  Guðjón minntist á sérfræðingahópinn sem ég sat í.  Segir hann að "mat sérfræðingarnefndar var að vandinn lægi á bilinu 100-120 ma.kr.", ber þetta svo við 144 ma.kr. tölu SFF og telur að um réttan samanburð sé að ræða.  Þannig ályktar hann að búið sé að gera helling.

Staðreynd:  100-120 ma.kr. töluna þarf að bera við 23,9 ma.kr. ekki 144 ma.kr.  (sjá næsta villa).

11.  Guðjón telur að nefndin, sem ég sat í, hafi ekki tekið tillit til dóma Hæstaréttar og því hafi lög nr. 151/2010 verið óvænt viðbót.

Staðreynd:  Dómar Hæstaréttar féllu 16. júní og 16. september 2010.  Nefndin skilaði af sér í byrjun nóvember 2010.  Að sjálfsögðu tók hún tillit til dóma Hæstaréttar.  Hún gekk út frá sjálfvirkri leiðréttingu lána vegna dóma Hæstaréttar og því væri ekki þörf á því að fara út í sértækar aðgerðir vegna þeirra.

12.  Guðjón segir lög nr. 151/2010 lækka álögur á fólk.

Staðreynd:  Lög nr. 151/2010 virka mjög misjafnlega á lán eftir útgáfudegi.  Að teknu tilliti til vaxtahækkunar, þá hækkaði greiðslubyrði hjá mér á einu láni meðan annað stóð nánast í stað.  Bæði voru með mun hærri greiðslubyrði á eftir en t.d. í desember 2008.  Þegar vextir hækka mikið á lægri höfuðstól, þá getur niðurstaðan verið óhagkvæmari en lágir vextir á hærri höfuðstól.

13.  Þetta er svona til dæmi um ónákvæmni Guðjóns varðandi hugtök:  "Verðbólga er bara lögfest.."

Staðreynd:  Ef svo væri, þá væri hægt að koma böndum á hana.  Það er að sjálfsögðu verðbæturnar sem lúta lögum.

14.  Bönkunum gengur vel að keyra í gegn úrræði.

Staðreynd:  Nú eru tæp þrjú ár frá hruni.  Ennþá bíða þúsundir, ef ekki tugþúsunda eftir úrlausn sinna mála.  Samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar með lögum um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna gengis- og bankahruna, svo kallaðrar Maríu-nefndar, þá gengur bönkunum þá og því aðeins vel að keyra í gegn úrræði, ef viðskiptavinurinn er eingöngu með viðskipti á einum stað og ef hann velur það úrræði sem bankinn vill að hann velji!  Á þeim tíma sem sértæk skuldaaðlögun var í höndum bankanna fóru mjög fáir í gegn um það úrræði.  Eina ástæðan fyrir því að bankarnir vilja taka þetta af umboðsmanni skuldara er til að þeir stjórni vinnunni.

15.  Guðjón skaut inn í lokaorð Andreu:  "Búið er að nýta svigrúmið að fullu, íbúðalánin a.m.k."

Staðreynd:  Þetta er rangt og það sýna allar tölur.  Það getur verið að Arion banki sé lengst kominn með sitt svigrúm gagnvart heimilinum, en hvers vegna veitti hann ekki fjármálaráðuneytinu umbeðnar upplýsingar þegar til hans var leitað.  Samkvæmt tölum Seðlabankans voru útlán til heimilanna bókfærð á 1.032 ma.kr. í lok september 2008.  Í lok júlí 2011 stóðu þessi sömu útlán í 487 ma.kr. mismunur upp á 545 ma.kr.  Um 70-75 ma.kr. voru lán hjá SPRON og skyldum fyrirtækjum, einhver hluti af lánum heimilanna fóru til lífeyrissjóðanna, SFF segir að búið sé að afskrifa 144 ma.kr.  Eftir eru því 545 mínus 75 mínus 144 mínus það sem lífeyrissjóðirnir keyptu eða alls 326 ma.kr. mínus það sem lífeyrissjóðirnir keyptu sem var í mesta lagi 100 ma.kr. virði.  Síðan hafa lántakar greitt af lánum sínum og einhver ný lántaka hefur átt sér stað.  Hvernig sem ég skoða þessar tölur og reyni að vera eins vilhallur bönkunum í útreikningum mínum, þá telst mér til að um 200 ma.kr. sé lágmark þess sem eftir er af afskriftum þeim sem gömlu bankarnir veittu miðað við neðri mörk mats Deloitte LLP á virði lánasafna heimilanna sem fóru til nýju bankanna.  Ég hef áður skorað á bankana að gera hreint fyrir sínum dyrum og endurtek hér með áskorun mína.

--

Mér finnst grátlegt, þegar maður sem vinnur fyrir fagsamtök, eins og Samtök fjármálafyrirtækja, þarf að grípa til þess ráðs að fara rangt með staðreyndir í sjónvarpsviðtali til að fegra ásýnd samtakanna.  Ennþá verra finnst mér að enginn var í sjónvarpssal til að reka þetta þveröfugt ofan í hann.  Guðjón Rúnarsson skuldar þjóðinni afsökunarbeiðni og síðan ætti hann að venja sig á að segja satt.