Skýringarnar á lækkun skulda eru margar, en ættu að vera fleiri - Rangar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.7.2011. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, er í stuttu viðtali við Morgunblaðið í dag.  Í viðtalinu er m.a. vikið að þeim upplýsingum að skuldir heimilanna hafi lækkað um heila 14,4 ma.kr. milli upplýsinga í skattframtölum 2011 og 2010.  Já, þetta eru heilir 14,4 ma.kr. þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt gengistrygginguna vera ólöglega verðtryggingu um mitt sl. ár.  Ríkisskattstjóri getur sér til um að ástæðan sé að fjármálafyrirtækin hafi verið byrjuð að afskrifa skuldir og fólk hafi tekið sparnað til að greiða upp skuldir.  Hvorutveggja er rétt, þar sem einhverjar "afskriftir" hafa átt sér stað án þess að það telji í háum upphæðum samkvæmt upplýsingum frá bönkunum.  Að fólk hafi tekið út sparnað er hins vegar rétt, þar sem á fimmta tug þúsunda hefur tekið út séreignarsparnað sinn svo nemur tugum milljarða og líklegt er að eitthvað af þeim peningi hafi farið í að lækka skuldir.

Tvennt nefnir ríkisskattstjóri ekki.  Annað er til lækkunar skulda og hitt hefði átt að lækka skuldir mun meira.  Fyrra atriðið er að verðbólga á síðasta ári var 1,8% og því hefði öllum sem skulda verðtryggð lán átt að takast að greiða niður af höfuðstólnum, þ.e. afborganir á höfuðstól hefðu átt að vera hærri en hækkun höfuðstóls vegna verðbóta.  Síðara atriðið er að 16. júní 2010 þá felldi Hæstiréttur tvo dóma í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging og því ætti að þurrka allar hækkanir höfuðstóls vegna breytingar á krónunni af lánunum.  Málið er að fjármálafyrirtækin hunsuðu þessa dóma og sendu inn rangar upplýsingar til skattayfirvalda vegna stöðu áður gengistryggðra lána.  Þrátt fyrir að ég hafi bent ríkisskattstjóra á þessi lögbrot fjármálafyrirtækjanna, þá virðist mér sem hann hafi látið ábendingu mína sem vind um eyru þjóta.  A.m.k. kemur ekki fram í skuldastöðu heimilanna, að lánin hefi verið færð inn á skattframtölin í samræmi við úrskurði Hæstaréttar.  Sýnir þetta því miður samtryggingu kerfisins.  Fjármálafyrirtækin geta gert hvað sem er og allir innan stjórnkerfisins virðast samþykkja hegðun þeirra sama hvort um er að ræða lögbrot eða siðferðisbrot.

Árni Páll Árnason hefur gengið manna lengst fram í því að verja lögbrot fjármálafyrirtækjanna.  Með frumvarpi sínu um vexti áður gengistryggðra lána gaf hann fjármálafyrirtækjunum líklegast um 150 milljarða á kostnað heimilanna.  Raunar gaf hann kröfuhöfum lögbrjótanna, þ.e. hrunbankanna, þessa upphæð (þó hugsanlega renni hluti af henni til nýju bankanna og ætti að nýtast í launauppbætur fyrir starfsfólk).  Rök hans eru stjórnarskrárvarinn réttur kröfuhafa og hann gæti lent í lögsóknum kröfuhafanna.  Manninum er ekki alltaf sjálfrátt og svo er í þetta sinn.  Í fyrsta lagi, þá höfðu kröfuhafarnir þegar gefið eftir þessar kröfur.  Það var því ekki verið að hafa neitt af þeim.  Í öðru lagi, hvað með stjórnarskrárvarinn rétt minn sem lántaka að ekki verði sett á mig afturvirk íþyngjandi löggjöf.  Í þriðja lagi, hvað með mannréttindi.  Nei, Árni Páll er svo hræddur við kröfuhafa að honum verður líklegast brátt í brók í hvert sinn sem hann hugsar til þessara óvætta í mannsmynd.

Kaldhæðnin í þessu er að umheimurinn heldur að fólk hafi verið tekið fram yfir kröfuhafa á Íslandi.  Staðreyndin er sú að kröfuhafar fá allt sem hægt er að kreista út úr fólki með góðu móti.  Til þess fá þeir aðstoð frá skattinum með fölsuðum upplýsingum í skattframtölum, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sem bera óttablandna virðingu fyrir "erlendum kröfuhöfum", frá Seðlabanka Íslands sem áttar sig ekki á því að efnahagsstöðugleiki verður ekki tryggður nema fjárhagur fyrirtækja og heimila verður tryggður, Fjármálaeftirlitinu sem ennþá heldur að hlutverk þess sé að verja fjármálafyrirtækin en ekki sjá til þess að þau fari að lögum og Alþingi sem hefur ekki kjark til að rísa upp gegn ofríki ríkisstjórnarinnar, þó öllum þingmönnum megi vera ljóst að verið sé að brjóta á rétti almennings.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Heimilin eru hætt að safna skuldum