Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.9.2011. Efnisflokkur: Staða almennings
Hér á landi eru nokkur ákaflega sérstök fyrirtæki. Þau lána m.a. í stórum stíl til bílakaupa. Áður fyrr kölluðu þau sig fjármögnunarleigur, en Hæstiréttur komst að því í nokkrum málum á síðasta ári, að þau eru bara ósköp venjulegar útlánsstofnanir. Því miður eru fyrirtækin ekki ennþá búin að átta sig á þessari staðreynd og þau eru heldur ekki búin að átta sig á innihaldi dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010, en í þeim komst rétturinn að því að bílasamningar sem SP-fjármögnun og Lýsing sögðu að væru leigusamningar væru í reynd lánssamningar.
Sigurður E. Vilhelmsson, eiginmaður Eyglóar Harðardóttur þingmanns, hefur sent stjórnsýslukæru til innanríkisráðuneytisins, þar sem Umferðastofa neitar að verða við beiðni hans um að bíllinn sem hann keypti árið 2004 verði skráður á hann. Rök Umferðarstofu er að Sigurður eignist ekki bílinn fyrr en hann hefur greitt síðustu afborgun bílasamningsins við SP-fjármögnun. Mér virðist rök Umferðarstofu vera að Sigurður eignist ekki bílinn fyrr en hann fær í hendur stimplað uppgreitt skuldabréfið.
Mikið er ég heppinn að Umferðarstofa heldur ekki utan um eignarskráningu fasteigna. Því samkvæmt rökum Umferðarstofu, þá er ég ekki réttilega skráður eigandi hússins míns, ekki einu sinni meðeigandi, þar sem ég hef ekki greitt upp lánin sem hvíla á því. Samkvæmt lögskýringu Umferðarstofu, þá ætti húsið mitt að vera skráð á lánveitendur mína í líkum hlutföllum og þeir hafa lánað mér! Sá er þó munurinn á húsnæðislánum mínum og láni vegna bifreiðakaupanna, að húsnæðislánin eru með veð í húsinu mínu, en bíllinn er veðbandalaus.
Skráður eigandi bifreiðar hefur mikið að segja um bifreiðina. Eitt af því sem hann hefur rétt á er að veðsetja bifreiðina. SP-fjármögnun gæti því ákveðið að setja veðbönd á bifreið Sigurðar Vilhelmssonar án þess að þurfa samþykki Sigurðar til þess. Sigurður aftur gæti ekki veðsett bifreiðina nema með samþykki SP-fjármögnunar. Samt hefur umrædd bifreið aldrei verið í umsjón SP-fjármögnunar og líklegast bara örsjaldan verið lagt nálægt fyrirtækinu. Starfsmaður SP-fjármögnunar hefur mér vitanlega aldrei komið upp í bifreiðina og SP-fjármögnun lagði hvorki til að umrædd bifreið væri keypt né hafði nokkuð um kaupverðið að segja. Líklegast var eina aðkoma SP-fjármögnunar að kaupunum, að fyrirtækið veitti lán til kaupanna og hugsanlega aðeins fyrir hluta kaupverðsins.
Nú er ég, sem betur fer, ekki í viðskiptum við SP-fjármögnun, en tók bílalán hjá Glitni á sínum tíma. Síðan hefur þessi lögaðili (er með sérstaka kennitölu) heitið Glitnir-fjármögnun, Íslandsbanki - fjármögnun og loks Ergo (hvers konar nafn er þetta?). Ég talaði aldrei við Glitni þegar ég keypti bílinn, heldur sá bílasölumaður um að gera samninginn við mig. Hann hafði mér vitanlega ekki menntun til að gera slíka samninga, en vann verk sitt samt vel. Ég gerði bílasamning sem gekk út á að "bankinn átti bílinn", þ.e. einhvers konar leigusamning, sem ég vissi svo sem að var lánssamningur. Þrátt fyrir að "bankinn á bílinn" ákvæðið, þá hef ég greitt bifreiðagjöld og tryggingar allan tímann, og það sem meira er, skatturinn lítur svo á að ég sé eigandi bifreiðarinnar. Samkvæmt lið 4.3 undir Eignir í árslok í skattframtalinu, þá hefur ríkisskattstjóri skilmerkilega skráð inn bifreiðina á hverju ári frá 2004. Er það þrátt fyrir að ég var fyrstu þrjú árin með bílinn á rekstrarleigu og gat skilað bílnum að leigutíma loknum án skuldbindinga og eins ef ég hefði kosið að rifta samningnum, þá hefðu ekki orðið neinir eftirmálar af því. En nú er Hæstiréttur búinn að komast að því, að leigusamningurinn er lánssamningur, skatturinn segir að ég eigi bílinn, en Umferðastofa segir að Ergo eigi hann. Hver hefur rétt fyrir sér?
Færslan var skrifuð við fréttina: Kærði skráningu á bíl