Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.10.2011. Efnisflokkur: Ferðaþjónusta
Með fullri virðingu, þá hefur tækifærum ferðamanna til að versla hérna ekkert fjölgað svo mikið þó svo að þeim hafi fjölgað. Hópur ferðamanna í hringferð, svo dæmið sé tekið, hefur nánast engin tækifæri til að versla eins og flestar slíkar ferðir eru skipulagðar. Komið er til Keflavíkur, farið inn á hótel og lagt í hann næsta dag. Hringurinn farinn á nokkrum dögum, þar sem allur daginn fer í að skoða hina og þessa staði utan þéttbýlis og komið inn á hótel eftir að verslanir loka. Ef náð er inn áður en verslanir loka, þá er það samt svo seint að enginn tími gefst til þess að versla. Loks er komið til Reykjavíkur og þá gefast nokkrir klukkutímar til þess að versla. Brottför er svo næsta dag, jafnvel snemma morguns. Hvergi í ferðinni er gert ráð fyrir að ferðamenn skilji gjaldeyri eftir. Ég fór með hóp í svona túr í sumar og eina tækifærið sem honum gafst til að versla voru 20 mínútur á Mývatni, 10 mínútur á Goðafossi og 60 mínútur á Akureyri.
Ferðamaðurinn sem er í Reykjavík, hann er oft á þeysingi inn og út úr borginni eða að hann kom ekki hingað til að versla. Matur, drykkur og afþreying hefur lækkað í evrum. Ferð Gullna hringinn hefur lítið hækkað í krónum þrátt fyrir hrun krónunnar sem þýðir veruleg lækkun í evrum. Meira að segja bjórglasið er farið að þykja ódýrt. Bara Bláa lónið hefur látið verðið halda sér í erlendri mynt.
Ef við viljum að ferðamenn eyði meiru hér á landi, þá verðum við að gefa þeim færi á því. Klukkutíma stopp á Geysi, þar sem svæðið er skoðað og borðaður hádegismatur, gefur ekki nægilegt svigrúm fyrir ferðamanninn til að versla í annars góðri verslun á staðnum. Ennþá styttra stopp á Gullfoss þýðir að eingöngu örfáir nota tækifærið til að versla. Og ekki er verslunin upp á marga fiska á Þingvöllum. Þetta er samt sú ferð sem býður upp á mesta fjölbreyttni í verslun af dagsferðum út frá Reykjavík.
Skipulag ferða verður að leyfa verslun
Grundvallaratriði í því að örva verslun ferðamanna, er að skipuleggja hlutina þannig að varningi sé nánast haldið að þeim og að þeir hafi tíma til þess að sinna þessum þætti heimsóknarinnar. Fáar ferðir eru þannig skipulagðar. Ég er búinn að nefna Gullna hringinn og hringferðir. Þetta á líka við um aðra túra. Ekki er gert ráð fyrir að fólk hafi tíma til að versla. Það er rétt svo að það geti fundið sér húfu eða vettling, en ef einhver fyrirhöfn fylgir kaupunum, þá er varla tími.
Ekki dugar að nota þá afsökun að hin erlenda ferðaskrifstofa vilji ekki skipuleggja þannig að gert sé ráð fyrir tíma til innkaupa. Ég hef ekki ennþá hitt þá konu (ekkert illa meint) sem hefur ekki sýnt því áhuga að skoða í verslun. Karlarnir eru ekki miklir eftirbátar, en þeir hafa minni þolinmæði. Lengjum stoppin á Goðafossi, Mývatni, í Vík, á Geysi, svo nokkrir staðar séu nefndir, og gefum ferðamanninum kost á að skilja gjaldeyrinn eftir. Annað sem við þurfum að gera, er að auka fjölbreyttnina og passa okkur á því að hafa ekki sömu vöruna alls staðar. T.d. er mjög áhugavert að koma í verslunina á Goðafossi, vegna þess að þar er verið að selja öðruvísi vöru. Eða kaupfélagið á Hólmavík. Ef hver staður getur skapað sér sérstöðu, þá eru meiri líkur á að ferðamaðurinn kaup eitthvað á hverjum stað. Sé sami varningurinn alls staðar, þá hættir ferðamaðurinn að skoða eftir að hafa kíkt í tvær verslanir.
Ferðamenn vilja versla
Ég hef farið þó nokkuð margar ferðir með ferðamenn, mest hér á SV-horninu. Eina ferðin sem hreinlega gerir ráð fyrir verslunarstoppi er Suðurstrandarferðin, þar sem hádegisstopp er tekið í Vík og fólki er beint í verslun Víkurprjóns þar. Fólk kemur líka alltaf með fullt af pokum með sér inn í rútuna. Bláa lónsferðin gefur líka gott tækifæri til að versla. Í öðrum ferðum hefur fólk kvartað undan því að hafa ekki tíma, sérstaklega í skipaferðunum. Eins og ég benti á fyrr í færslunni, þá fór ég hringferð þar sem gáfust innan við 2 klukkutímar til að versla á 12 dögum! Hvaða minjagripi á ferðamaðurinn að hafa með sér heim, ef stoppin eru svo knöpp að hvergi gefst tími til að versla? Eða gjafir handa börnum og barnabörnum eða öðrum nástöddum? Ekki er verið að tala um að hætta að sýna fólki landið, bara að skipuleggja hlutina þannig að hádegishléið sé að stað þar sem góð ferðamannaverslun er og að stoppað sé nægilega lengi. Kaupfélag á landsbyggðinni er t.d. mjög vinsæll áningarstaður.
Auðvitað á þetta, sem ég tala um, ekki við um allar ferðir eða alla ferðamenn. Sumir hafa loksins náð að öngla saman fyrir draumaferðinni og eru ekki komnir hingað til að versla. Aðrir versla alveg helling. En hvort sem er, þá verðum við að fjölga tækifærum þeirra til að versla og vera með meiri fjölbreyttni í vöruúrvali. Því miður eru íslenskar ferðamannaverslanir allt of líkar og þegar maður hefur komið inn í tvær til þrjár, þá hefur maður á tilfinningunni að maður hafi séð þær allar.