Gróf sögufölsun

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.2.2011. Efnisflokkur: Bankahrun

Það er bull að bönkunum hafi verið leyft að falla.  Hér rembdust ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Seðlabanki Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar eins og rjúpan við staurinn í hátt í ár við að halda þessum svikamyllum gangandi.  Leyfðu þeim á meðan að mergsjúga almenning og fyrirtæki í landinu.  Bankarnir féllu þegar úrræði stjórnvalda og Seðlabanka þrutu.  Þegar það kom í ljós að svikin og prettirnir voru svo mikil að þeim var ekki bjargað.  Eftir að stjórnendur og eigendur bankanna höfðu ákveðið að það skipti meira máli að bjarga eigendunum og vildarvinum en ekki bönkunum sjálfum.  þeir féllu út af meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits sem köstuðu sér fyrir fætur fjárglæframönnunum í hvert sinn sem þeir opnuðu munninn og vegsömuðu þá, fóru með fagurgala um grundir til að lýsa snilld þeirra.  Þeir væru misskildir snillingar.  Hefðu fundið töfrauppskriftina sem reyndari bankamenn kunnu ekki vegna þess að þeir væru ekki nægilegir snillingar.

Að Ólafur Ragnar Grímsson komi núna fram í erlendum fjölmiðlum og segi að við hefðum leyft bönkunum að falla er að núa salti í sár almennings sem þarf að bera stríðskostnaðinn á herðum sér.  Stjórnvöld leyfðu þeim vissulega ýmislegt.  Svo sem að vaða yfir almenna viðskiptavini sína á skítugum skónum, að tæma sjóði Seðlabankans, brjóta lög og reglur hægri vinstri, að fella krónuna, að ræna eigin banka innan frá og svona mætti lengi telja.  En að ein vanhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leyft bönkunum að falla er fáránlegasta söguskýring sem ég hef heyrt og sýnir að annað hvort er Ólafur Ragnar ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eða að hafin er áróðurherferð á alþjóðavísu til að fela fyrir umheiminum vanhæfi allra þeirra sem áttu að gæta þess að bankarnir gerðu ekki það sem þeir gerðu.  Hvítþvotturinn er hafinn, moka á yfir spillinguna og vanhæfið.  Ætli þetta verði líka vörn Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi.

Höfum það alveg á hreinu, að bankarnir féllu ekki af því að einhver leyfði þeim það.  Stjórnvöld hefðu ekki getað komið veg fyrir það október 2008, þó þau hefðu reynt.  Vil ég rifja upp orð Geirs H. Haarde sem höfð eru eftir honum á mbl.is í frétt sem birtist kl. 23:17 5. október 2008:

Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum..

Og svo segir í fréttinni:

Geir sagði að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana hér og nú og hann teldi heldur ekki ástæðu til þess. Hann neitaði því að búið væri að útvega 500 milljarða lánalínu frá Seðlabanka Evrópu. Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á tilkynningu fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Fundi ríkisstjórnarinnar er nú lokið og sagðist Geir vera á leið á fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. „Svo ætla ég heim og vonast til að geta fengið smá hvíld. Það er varla að ég sé búinn að borða morgunmat.“

Já, blessaður maðurinn hafði áhyggjur af því að hafa varla borðað morgunmat.  Hann hefur kannski ekki fengið morgunkaffið heldur eða hvernig var þetta hjá Hobbitunum:   "Hvað með morgunmat? En morgndegismat? Hádegismat og kaffi? Seinna kaffi og kvöldmat ásamt seinni kvöldmat, kvöldnasli, kvöldnarti og te fyrir svefninn?"  Var það nema von að hann tók rangar ákvarðanir hafandi verið sveltur allan daginn!

Ber þetta allt vott um að stjórnvöld hafi haft eitthvað val, hvað þá getu?  Nei, hér sat vanhæf ríkisstjórn og hún lét bankana falla á heimilin í landinu en ákvað að bjarga þeim sem áttu innstæður í bönkum.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Leyfðum bönkunum að falla