Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.2.2011. Efnisflokkur: Nýir bankar
Stundum finnst mér fréttamiðlar gjörsamlega gleyma því að þeir eiga að segja fréttir en ekki endursegja fréttatilkynningar. Eitt svona dæmi er að finna á visir.is þar sem "fjallað" er um fund NBI ehf. (Landsbankans) á Akureyri í gærkvöldi. Fyrirsögnin er Fullt út úr dyrum á Landsbankafundi. Ég hélt í einfeldni minni að fréttin yrði um fundinn, en svo var ekki. Fréttin fjallar um innihald opnuauglýsinga sem NBI hefur birt m.a. í Fréttablaðinu undanfarna daga. Allt sem sagt var um fundinn er eftirfarandi:
..mjög góð mæting hafi verið á fundinn og sköpuðust líflegar umræður að loknum erindum..
Var ekki sendur blaðamaður frá visir.is eða Fréttablaðinu á þennan fund? Það er alveg vitað, að á þessum fundum NBI mun koma fram heiftarleg gagnrýni á stjórnendur bankans og stefnu hans í málefnum heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Er það kannski ekki ritstjórnarstefna visir.is að fjalla um gagnrýni á einn stærsta auglýsanda sinn?
Með fullri virðingu fyrir vilja NBI að setja fyrirtækinu siðferðisreglur, þá er tjónið sem fyrirrennarinn hans olli svo mikið að miklu meira þarf til en segja "ég lofa að haga mér vel í framtíðinni". Það þarf að byrja á því að bæta fólki tjónið.
Gott fyrsta skref í siðbót NBI er að innheimta lán í samræmi við útgefna greiðsluáætlun og færa höfuðstól lána niður í þá stöðu sem var áður en svik, lögbrot og prettir Landsbanka Íslands hófust. Næsta skref er að falla frá öllum kröfum á hendur ábyrgðarmönnum, enda ekki hægt að álykta annað en að þeir hafi verið vélaðir til að veita ábyrgðir sínar. Þriðja skrefið er að taka upp mál þar sem fólk og fyrirtæki hafa verið knúin í þrot af bankanum þar sem gengið var fram af óbilgirni og hörku gegn fólki sem trúið því og treysti að Landsbanki Íslands hafi verið heiðarlegt fyrirtæki.
Heitin sem NBI gefur eru heldur hjáróma þegar tjónið er haft í huga sem Landsbanki Íslands olli. Skoðum þau nánar:
Við heitum því að setja bankanum og starfsfólki hans nýjan siðasáttmála og birta hann opinberlega fyrir 1. mars.
Við bjóðum viðskiptavinum sem þegar hafa fengið birtan endurútreikning í Einkabankanum að ganga frá sínum málum nú þegar.
Við ætlum að bjóða öllum fyrirtækjum sem falla undir skilgreininguna um Beinu brautina skuldaaðlögun fyrir 1. júní.
Við ætlum að efla sérhæfða fræðslu fyrir starfsmenn með það að leiðarljósi að bæta ráðgjöf til viðskiptavina.
Við ætlum að birta helstu ábendingar og athugasemdir viðskiptavina ásamt viðbrögðum okkar og lausnum á heimasíðu bankans í síðasta lagi 15. mars.
Við ætlum fyrir 1. júlí að kynna skráningu tveggja félaga í eigu bankans á markað og efla þannig íslenskan hlutabréfamarkað.
Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð ásamt lykilverkefnum fyrir 1. maí.
Nýr siðasáttmáli er góðra gjalda verður, en hann á að vera óþarfur. Er verið að gefa í skyn að núverandi siðferðiskennd starfsfólks og stjórnenda NBI sé ekki nógu góð. Að siðferðiskennd þeirra sem unnu hjá Landsbanka Íslands hafi ekki verið nógu góð. Ef ég mætti leggja orð í belg, þá væri það fyrsta sem NBI gæti gert, er að bæta fólki það óheyrilega tjón sem Landsbanki Íslands olli því.
Bjóða á fólki og fyrirtækjum að sætta sig við svik, lögbrot og pretti Landsbanka Íslands. Enn hvað það er rausnarlegt hjá NBI. Skilaboð bankans til lántakenda eru:
Við ætlum í góðmennsku okkar að leyfa ykkur að greiða stökkbreytta höfuðstóla lána ykkar. Stökkbreytingin er að vísu komin til vegna þess að fyrirrennari okkar, Landsbanki Íslands, viðhafi svik og pretti og braut lög hægri vinstri. En þar sem siðferðiskennd okkar býður okkur að NBI eigi að halda þessari illa fengnu hækkun lánanna, þá ætlum við að hanga á henni eins og hundur á roði. Við höfum að vísu samviskubit vegna þeirra sem fá enga leiðréttingu við endurútreikning og ætlum í góðmennsku okkar að bjóða þeim að greiða aðeins 60-70% hækkunarinnar.
Efla á fræðslu til starfsmanna. Gott og blessað, en er þetta ekki samt þekking sem starfsmaður á að búa yfir þegar hann hefur störf?
Af hverju á að bíða þar til 15. mars að birta ábendingar og athugasemdir. Það var fundur í gær á Akureyri. Hvað er því til fyrirstöðu að landsmenn fái að vita strax hvað brann á Norðlendingum? Ég hef haft fregnir af því að það hafi ekki allt verið fallegt sem þar kom fram. Þola slíkar upplýsingar ekki dagsljósið. Ég skora á NBI að birta jafnóðum ágrip af þeirri umræðu sem á sér stað á þessum fundum.
Samfélagsleg ábyrgð er góðra gjalda verð. Fyrir framtíðarlántaka skilar hún vonandi mörgu, en hvað með samfélagslegu ábyrgðina gagnvart þeim sem sitja uppi með gríðarlegt tjón vegna Landsbanka Íslands? Hver verður sú ábyrgð?
Ef NBI heldur að bankinn sleppi frá fortíðinni með því að koma með fagurgala fyrir framtíðina, þá er það misskilningur. Mikilvægasta skref NBI til að undirbúa framtíðina er að gera upp fortíðina af réttsýni og sanngirni, nokkuð sem hann hefur ekki gert. Annað mikilvægt skref er að skipta um nafn á bankanum. Hvað ætli það séu margir Íslendingar sem fá óbragð í munninn við það að tala um NBI sem Landsbanka Íslands? Ég er einn af þeim og meðan bankinn ber þetta nafn, þá mun honum í mínum huga alltaf fylgja skuggi svika, lögbrota og pretta fyrirrennara hans. Ég fæ hroll í hvert sinn sem ég geng inn í húsakynni bankans enda er nafn svikamyllunnar upp um alla veggi. Mér finnst bankinn misbjóða landsmönnum með því að halda í nafnið. Það er ekki nóg með að nafnið er tengt órjúfanlega við þær kvalir og sársauka sem landsmenn hafa mátt ganga í gegn um, heldur skulu viðskiptavinir hans minntir á kvalara sinn í hvert sinn sem bankaviðskipti eiga sér stað. Þetta er ekkert annað en sadismi af verstu sort og sýnir siðblindu eigenda og æðstu stjórnenda bankans. Eina leiðin til þess að ég get hugsað um hann sem viðskiptabanka minn er að hann heitir samkvæmt fyrirtækjaskrá NBI ehf.