Dómur Héraðsdóms Suðurlands heldur ekki vatni

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.6.2011. Efnisflokkur: Dómstólar, Kröfuréttur

Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð um vexti áður gengistryggðra lána núna fyrir helgi.  Rökstuðningur dómarans var að þar sem lögum hefði verið breytt í desember væri hægt að hunsa stjórnarskrána, neytendavernd, evrópulöggjöf, samningalög og ég veit ekki hvað.  Vegna hinna nýju laga, þá væru allar kvittanir ógildar allt að 10 ár aftur í tímann og fullnaðaruppgjör væri bara einhver pappírssnepill sem hefði ekkert að segja.  Verð sem sett væri upp fyrir þjónustu væri hægt að breyta afturvirkt með lögum hvenær sem ef stjórnmálamönnum myndi detta það í hug.

Orkuveita Reykjavíkur ætti að fagna þessum dómi.  Hér er búið að leggja í hendur fyrirtækinu lausn á vanda þess.  Orkuveitan fær bara þingmenn Reykjavíkur og Suð-vestur kjördæmis til að samþykkja lög á Alþingi sem kveður úr um að heitt vatn og rafmagn frá fyrirtækinu skuli hækka um 50% afturvirkt til ársbyrjunar 2001.  Nú olíufélögin hefðu líka getað bjargað fjárhag sínum á þennan hátt, en bankarnir urðu fyrr til.

Ég skil vel að héraðsdómari vilji ekki rugga bátnum of mikið.  Gott og blessað.  Hann hlýtur þó að vita, að afturvirk löggjöf er brot á stjórnarskránni!  Rökstuðningurinn sem hann notar er greinargerð með frumvarpinu, þ.e. tilvísun í dóma frá annars vegar Noregi árið 1962 og síðan Hæstarétti árið 1953 er áhugaverð söguskýring en af hverju notaði hann ekki umsagnir fjölmargra aðila og þar á meðal frá lögmanni erlendra kröfuhafa sem efuðust um hvort lögin stæðust stjórnarskrána.

Mér finnst með ólíkindum að dómari samþykki afturvirkalöggjöf með þeim rökum að verið sé að bjarga fjárhagskerfinu.  Voru færðar fram sannanir fyrir þessari staðhæfingu?  Er eitthvað sem bendir til þess að fjárhagskerfið hrynji við það að vextir verði ekki afturvirkir?  Hagnaður bankanna þriggja frá stofnun þeirra í október 2008 er eitthvað um 100 milljarðar króna.  Bendir þetta til þess að bankarnir standi á brauðfótum?  Þessi staðhæfing:

þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður

er einhver flugufótur fyrir því að afturvirk lagasetning stuðli að þessu?  Ég hef nú fylgst nokkuð vel með þessum málum og aldrei hefur verið færð fram nokkur sönnun fyrir því að þetta sé rétt.  Svo má spyrja hvort réttlætanlegt sé að níðast á saklausum almenningi til að ná þessum innistæðulausum markmiðum.  Einnig má velta fyrir sér hvort fjárhagskerfi þjóðarinnar komist nokkuð frekar í fastar skorður með þessu, en með því að afturvirkir vextir verði dæmdir ólöglegir.  Í hverju á festan að felast.

Ég get ekki lokið þessari færslu án þess að hnýta agnarögn í ráðherrann fyrrverandi sem tekur svo skýrt til orða að dómurinn sé staðfesting á dómi Hæstaréttar.  Ætli þetta hafi verið rætt yfir eldhúsborðið heima hjá henni?  Lögmaðurinn sem pantaði lagasetninguna og viðbrögð FME og Seðlabankans í fyrra er jú eiginmaður þingmannsins.  Varla fer hún að segja eitthvað sem er í andstöðu við viðhorf þeirra sem halda uppi heimilishaldinu.  Eins og segir í ensku málshætti, þá er það ekki til góðs að bíta höndina sem gefur manni að borða.

Viðbót kl. 20:50:

Eitt sem ég gleymdi varðandi dóminn:  Dómarinn hafnar því að nýju bankarnir hafi keypt lánasöfnin af gömlu bönkunum:

Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi keypt umrædda kröfu.  Þvert á móti er upplýst að með stjórnvaldsákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, var eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem breytti síðar um nafn og varð Íslandsbanki hf.

Hér þrýtur dómarann alveg rök.  Hvað heitir það, þegar eign skiptir um hendur og gjald er greitt fyrir?  Auðvitað keypti nýi bankinn lánasöfnin af gamla bankanum.  Við getum svo sem notað alls konar orðalag, en það áttu sér stað viðskipti.  Yfirtaka á lánasafni með miklum afslætti er verslun með lánasöfnin.  Nýi bankinn greiddi fyrir lánasöfnin með því að taka yfir skuldir á móti.   Þegar úthlutað er úr dánarbúi, þá er eign ráðstafað án þess að gjald komi á móti.  Íslandsbanki greiddi fyrir hin niðurfærðu lánasöfn með því að taka yfir skuldir á móti.  Dómarinn þarf ekki annað en að horfa til Landsbankans (áður NBI) til að sjá hvernig bankinn greiddi fyrir lánasöfn með skuldabréfi sem greitt er af.  Samkvæmt skýringu dómarans, þá teljast það ekki kaup, ef ég eignast bifreið með því að taka yfir lán sem eru áhvílandi.  Stjórnvaldsákvörðun breytir ekki eðli viðskiptanna, þ.e. að Íslandsbanki eignaðist lánasöfn með því að taka yfir jafnháar skuldir á móti.

Svo mætti líka hnýta í skýringu dómarans á hvað telst fullnaðarkvittun.  Hann segir að kvittunin teljist ekki ógild, þar sem hún nýtist sem sönnun fyrir greiðslu en gleymir því að allt í einu er fullnaðargreiðsla orðin hlutagreiðsla.  Ef þessi lögskýring dómarans stendur, þá geta neytendur aldrei treyst kvittunum sem þeir fá, þar sem gagnaðilinn getur komið með viðbótarkröfu hvenær sem er og kvittun sem áður var fullnaðarkvittun er allt í orðin að innágreiðslukvittun.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Staðfestir túlkun á dómi Hæstaréttar