Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.10.2011. Efnisflokkur: Lánasöfn
Loksins! Loksins! Árni Páll Árnason gaf upp við umræðu á Alþingi í dag, að "svigrúmið" væri 1.700 milljarðar króna. Þremur árum eftir hrun, þremur árum eftir að bankarnir sem nú heita Íslandsbanki, Landsbakinn og Arion banki voru stofnaðir hefur talan verið birt. 1.700 milljarðar er talan sem munar á bókfærðu virði lánasafnanna í gömlu bönkunum og því sem nýju bankarnir greiddu fyrir.
Eftir því sem hefur komist gleggri mynd á ýmsar upplýsingar, þá hef ég gert mitt best til að finna þessa tölu. Í bloggfærslu um daginn, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þessi tala gæti legið á milli 1.680 ma.kr. og 2.000 ma.kr. Nú er það komið á hreint. Talan er 1.700 milljarðar krónur. En er hún rétt?
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, spurði Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, þriggja spurninga:
Í fyrsta lagi hverjar séu raunverulegar leiðréttingar lánasafns á milli gömlu og nýju bankanna.
Í öðru lagi hvernig standi á því að tölur frá Seðlabanka Íslands séu ólíkar öðrum.
Í þriðja lagi hvernig og hversu hratt hafi þessar leiðréttingar skilað sér til heimila og fyrirtækja.
Svar ráðherra var:
Ég hef engar tölur aðrar en þær sem koma fram stofnefnahagsreikningi bankanna.
Síðan bætti hann við:
Lánasöfnin voru endurmetin og tekin yfir á lægra virði.
1.600 ma.kr. í tilviki fyrirtækja. - Búið er að afskrifa 920 ma.kr.
90 ma.kr. í tilviki heimilanna. (- Búið er að afskrifa 164 ma.kr. - viðbót frá MGN)
Miðað við svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því 14. september sl., þá tók Landsbankinn yfir lán heimilina að bókfærðu virði í Landsbanka Íslands hf. upp á 237,4 ma.kr. á gangvirði 158,4 ma.kr., þ.e. mismunur upp á 79 ma.kr. Eigum við að trúa því að Íslandsbanki og Arion banki hafi bara fengið 11 ma.kr. afslátt af lánasöfnum heimilanna? Eða var Árni Páll enn og einu sinni að reyna að reikna og gat það ekki?
Hann svaraði ekki spurningum tvo og þrjú. Svar við spurningu tvö hefði náttúrulega afhjúpað hversu vitlausir þessi 90 ma.kr. voru.
Annars held ég að Árni Páll eigi alveg að hætta að reikna svona "on-the-fly". Honum tókst nefnilega að leggja saman 920 ma.kr. og 164 ma.kr. og fá út úr því nærri því 1.200 ma.kr. eða 10% skekkju. En hann viðurkennir líka að hann kunni ekki að reikna.
Magnús Orri tók til máls í umræðunni og sagði bara hálfa sögu eins oft gerist hjá samfylkingarþingmönnum. Hann greindi rétt frá því að menn greindi á um virði lánasafnanna og sömdu um þau færu inn í bankana á lægra virðinu sem kom út úr mati Deloitte. Framhaldið var hins vegar hagræðing á sannleikanum. Rétt er að gömlu bankarnir áttu að fá hærri greiðslu, ef betur gekk við innheimtu, en þá sleppti Magnús Orri framhaldinu. Bara upp að efri mörkum mats Deloitte. Hann lét það aftur hljóma eins og þeir ættu að fá allt sem innheimtist umfram neðri mörkin. Þetta gerði hann þrátt fyrir að hann veit betur. Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki hvers vegna hann fer með svona hálfsagðar sögur.
Ég hvet fólk til að hlusta á umræðurnar, því jafnvel Lilja Rafney var orðið reið út í bankana og kom með tillögu um að innkalla kvóta þeirra fyrirtækja sem fengu skuldir afskrifaðar án þess að láta eitthvað á móti.
Færslan var skrifuð við fréttina: Mun aldrei flytja skuldir á eignalaust fólk