17% þekkja innihaldið en 47% vilja samþykkja

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.1.2011. Efnisflokkur: Icesave

Ég get ekki annað en furðað mig á niðurstöðu þessarar skoðanakönnunar.  47% þeirra sem gefa svar segjast vilja samþykkja Icesave samninginn, en þó segjast aðeins 17% þekkja innihald samningsins.  Er ekki allt í lagi?  Hafa stjórnvöld hingað til sagt satt og rétt frá innihaldi þeirra samninga sem hafa verið gerið til þess að fólk treysti þeim í þetta sinn?

Samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundi um daginn, þá er ástæðan fyrir því að þessi samningur kemur betur út en sá síðasti tvíþætt.  Annars vegar eru vextirnir lægri og hins vegar er reiknað með betri heimtum úr þrotabúi Landsbankans.  Ekkert annað virðist skipta máli svo einhverju nemi.  Gott og blessað, vextirnir eru lægri, en það er fyrst og fremst vegna þess að vextir hafa lækkað á heimsvísu.   Hækki þeir aftur munu vextirnir á Icesave skuldinni hækka.  Hvorugt þessara atriða kemur snilli íslensku samninganefndarinnar við.  Önnur atriði sem breyttust frá því síðast eru vissulega jákvæð, þar sem sett er þak á árlegar greiðslur, en ríkissjóður mun samt þurfa að greiða 43 milljarða á þessu ári og næsta, þ.e. 26 milljarða í ár og 17 á því næsta.

InDefense hópurinn hefur sent frá sér álit til fjárlaganefndar.  Í því kemur fram að hópurinn telur ennþá vera inni ákvæðið um að fyrir hverjar tvær krónur innheimtar, þá renni 1 kr. til íslenska tryggingasjóðsins og 1 kr. samanlagt til þess breska og hollenska.  Það hefur sem sagt ekkert breyst.  Mesta óréttlætið er ennþá inni í samningnum.  Þetta er það atriði sem ég gagnrýndi strax í júní 2009 og hef alltaf sagt að væri fáránlegasti hlutinn í málinu.

En aftur að skoðanakönnuninni.  Ég held að hún sýni hvað fólk er orðið uppgefið í baráttunni fyrir réttlæti.  Það áttar sig á því, að stjórnvöld ætla að valta yfir almenning og láta hann borga allan herkostnað af fjárglæfrum bankanna.  Stjórnvöld vita, að meðan þau halda völdum, þá geta þau komist upp með hvað sem er.  32-33 þingmenn hafa ákveðið að hvað sem á dynur, þá muni þeir taka þátt í því að gera millistéttina gjaldþrota og eignalausa.  12 þingmenn VG hafa ákveðið að loforðin sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar sé bara froðusnakk sem má láta út úr sér til að komast til valda.  Þeir hafa ákveðið að hunsa samþykktir grasrótarinnar í flokknum á landsfundi, enda voru þær andstæðar vilja þingmannanna.

Mikið hlakka ég til næstu kosninga.  Vonandi verða þær í síðasta lagi í vor.  Þá mun koma í ljós hvort kjósendur eru menn eða mýs.  Munu þeir vera svo glaðir yfir getu núverandi þingmeirihluta, að þeir muni kjósa hann yfir sig aftur, verður það gamla spillingarliðið í Sjálfstæðisflokknum sem fær brautargengi eða munu ný öfl komast til valda.  Því miður reikna ég með að kjósendur leiti þangað sem þeir eru kvaldastir og kjósi sama ruglið yfir sig aftur.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Tæpur helmingur vill samþykkja Icesave