Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.2.2010.
Seðlabanki Íslands tók saman heilmikið af tölu í fyrra vor og voru þær kynntar með pompi og prakt um miðjan júní. Um þá kynningu sá Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum. Samkvæmt niðurstöðum bankans var staða heimilanna ekki svo slæm. Sem sæmilega talnaglöggum manni, áttaði ég mig á því að ekki var hægt að draga slíka ályktun út frá þeim upplýsingum sem voru birtar. Af þeim sökum sendi ég Tjörva tölvupóst með ósk um nánari upplýsingar. Kjartan Broddi Bragason hefur í skýrslu sinni fyrir Neytendasamtökin komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég, þ.e. að ályktanir Seðlabankans um stöðu heimilanna séu reistar á sandi.
Mig langar að setja hér inn afrit af tölvupóstum mínum til Seðlabankans. Fyrsti pósturinn var sendur 15. júní:
Sæll Þorvarður Tjörvi
Ég var á kynningunni hjá þér á fimmtudaginn og hef verið að reyna að átta mig á sumum af þeim upplýsingum sem þar voru settar fram. Oft er erfitt að setja þær í samhengi eða bera þær saman, þegar maður er bara með prósentutölur á bakvið. Þess vegna langar mig að vita hvort hægt væri að fá tölurnar sem prósenturnar eru reiknaðar út frá.
Bara svo það komi fram, þá sit ég í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.
Kv.
Marinó G. Njálsson
Svar barst daginn eftir:
Sæll Marínó
Þakka þér kærlega fyrir póstinn og áhuga þinn á efninu. Ég vil endilega eiga góð samskipti við Hagsmunasamtök heimilanna líkt önnur samtök sem láta sig þessi mál varða og er boðinn og búinn til að koma á fund með ykkur og ræða niðurstöðurnar ef þess er óskað(er reyndar í frí frá og með morgundeginum og í viku en strax í kjölfarið). Mér sýndist á bloggfærslum þínum að þú hafir athugasemdir við bæði efnið og óskýra framsetningu á vissum hluta niðurstaðnanna og ég vil endilega fá tækifæri til að fara yfir þetta með ykkur. Ef framsetningin hefur verið óljós þá verður það að skrifast á minn hlut og þykir mér það miður.
Hvað varðar fjöldatölur þá er það þannig að í gagnagrunninum eru lánaupplýsingar um 79,900 heimila (miðað við fjölskyldunúmer) með húsnæðisskuldir og upplýsingar um húsnæðisauð um 75,200 húsnæðiseigenda (okkur vantar þá eigendur sem eru skuldlausir og hafa ekki veitt öðrum leyfi til að nota sitt húsnæði sem veð). Um 44 þúsund heimili eru með bílalán og 81 þúsund með yfirdráttarskuld.
Það eru ýmsir fyrirvarar sem þarf að hafa í huga við túlkun þessara gagna og vonandi náðum við að draga upp þá helstu á málstofunni og í fyrri málstofum. Þeir tengjast m.a. gæði mælikvarða á húsnæðisauði sem er metinn út frá fasteignamati, gæðum tekjugagna fyrir febrúar í ár sem byggja á staðgreiðslugögnum sem eru ekki eins góð og framtalsgögn sem eru venjulega notuð í rannsóknum af þessu tagi (og þeim sem við birtum í fjármálastöðugleikaskýrslum bankans) – það er hins vegar ljóst að það er ekki hægt að bíða eftir að framtalsgögn liggja fyrir um tekjuárið 2009 og því verður að nota staðgreiðsluna og muna að þarna vantar inn vaxtabætur, barnabætur, meðlag, ýmsar verktakagreiðslur o.s.frv. sem geta skipt miklu og þá einkum fyrir lágtekjuhópanna þar sem þessar greiðslur geta verið verulegur hluti heildaráðstöfunartekna; aðrir fyrirvarar lúta að greiðslubyrðinni - bæði hvað varðar námslánin sem skortir inn í þetta og meðferð frystinga lána.
Hvað varðar meðferð frystinga þá eru þau lán sem eru í frystingu meðtalin í öllum stöðustærðum, t.d. þegar við erum að skoða dreifingu skulda eftir tekjuhópum eða gjaldmiðlahópum og hversu skuldsett heimilin eru, þegar við metum eiginfjárstöðu þeirra í húsnæði og heildareiginfjárstöðu ásamt tekjudreifingu ólíkra hópa o.s.frv. Við getum hins vegar ekki tekið öll lán í frystingu með í útreikninga á greiðslubyrði því í sumum tilvikum fáum við ekki uppgefna greiðslubyrði á þeim lánum. Til þess að geta metið greiðslubyrði allra frystra lána þurfum við að geta gert spár um þróun greiðslubyrðarinnar út frá öðrum upplýsingum sem við höfum um vexti, lánstíma, upphaflega upphæð láns, gjaldmiðlasamsetningu o.s.frv. Sú vinna stendur yfir og tengist því að við viljum geta lagt fram spár um hvernig eignir, skuldir, tekjur og greiðslubyrði munu þróast fyrir heimilin miðað við gefnar forsendur um þróun vaxta, verðbólgu, launa, gengis o.fl. þátta. Þessi vinna skiptir sköpum því við viljum ekki bara fjalla um hvernig hlutirnir litu út um og uppúr áramótum heldur leggja mat á hvernig þróunin gæti orðið. Umfang frystinga var mun meira í bílalánum en íbúðalánum en um 8% íbúðalána voru í frystingu á móti um helmingi bílalána. Síðan þá hefur fjöldi lána í frystingu minnkað og fleiri úrræði komið til sögunnar svo sem greiðslujöfnun erlendra fasteignaveðlána, ýmis konar greiðsluerfiðleikaúrræði hjá bílafjármögnunarfyrirtækjunum o.s.frv. og þess vegna er erfiðleikum bundið að meta hver greiðslubyrði þeirra sem voru í frystingu með einkum bílalánin í febrúar er núna jafnvel út frá þeim upplýsingum sem við höfum um lánsskilyrði og –kjör. Það sem skiptir máli við að meta skekkju í þeirra greiðslubyrðarupplýsinga sem við lögðum fram er hversu ólíkur frystingarhópurinn er hinum en ljóst er að hann hefur bæði tilhneigingu til að vera skuldsettari og tekjuhærri ásamt því að taka þá einnig tillit til mögulegrar skekkju í tekjutölum sem tengjast gæðum staðgreiðslugagnanna miðað við framtalsgögnin og rætt var um hér á undan. Ég tel að við séum frekar að ofmeta greiðslubyrði lágtekjuhópanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum vegna þess hve vaxtabætur o.fl. sem er ekki inn í staðgreiðslugögnunum vega þungt í þeirra tekjum á sama tíma og við erum frekar vanmeta greiðslubyrði þeirra tekjuhærri þótt erfitt sé að reyna að alhæfa nokkuð um þessi mál og draga heimili í hópa þar sem þau eru svo fjölbreyttur hópur eins og við höfum sýnt fram á með þessum niðurstöðum.
Ég vona að þetta svari einhverjum spurningum sem höfðu vaknað hjá þér – og örugglega vakið upp aðrar – en ég ítreka boð mitt um að ræða við ykkur beint um þessi mál
Kær kveðja,
Þorvarður Tjörvi
Bloggfærslu sem Tjörvi vísar til er að finna hér: 40% í fastar afborganir lána er ekki viðráðanlegt
Ok, þarna koma fram ýmsar upplýsingar, en ekki endilega þær sem ég hafði gagnrýnt í bloggfærslu, sem Tjörvi vísar til, að hafi vantað í kynningu bankans. Ég sendi honum því nýja póst með skýrt afmörkuðum spurningum:
Sæll Tjörvi
Takk fyrir svarið og gott boð. Það er aldrei að vita nema við þekkjumst það. Já, mér fannst vanta inn í þetta og það var skýrt nánar á RÚV í gær og í því sem þú segir. Tölurnar sem þú sendir gefa mér eitthvað til að vinna með, en spurningin er hvort þú (eða Karen sem ég sendi cc: á) gætir upplýst mig um eftirfarandi atriði til viðbótar:
1. Hvað eru mörg heimili bak við upplýsingum um ráðstöfunartekjur á mánuði á glærum 22 og 23?
2. Er sami fjöldi bakvið glærur 25-28 og 30-33 og er bak við annars vegar glærur 8-11 og hins vegar glærur 13-20, þ.e. tölurnar sem gefur upp í póstinum þínum?
3. Hver er heildarfjöldinn í hverjum tekjuhópi á glæru 36 og af hverju vantar neðsta tekjuhópinn 0-150 þús.?
4. Hver er heildarfjöldinn í hverjum hópi eftir tegund lána á glæru 37? Er það sami fjöldi og er bakvið upplýsingar á glæru 38?
5. Getur þú gefið mér nánari upplýsingar um það hve margir eru í hverjum flokki á glæru 39 og 40, þ.e. allir, hjón með börn og einstæðir foreldrar?
6. Er vitað hver er fjölskyldustærð annars vegar hjóna með börn og hins vegar einstæðra foreldrar? Er vitað hve stór hópur 18 ára og eldri eru á þessum heimilum og eru í reynd ekki sjálfstæð fjölskylda?
Fyrir utan síðustu spurninguna, þá ættu þessar tölur að liggja nokkuð á ljósu, þ.e. hægt að lesa beint upp úr töflunum sem súluritin urðu til úr. Þetta með fjölskyldustærðina skiptir máli, þar sem við erum að velta fyrir okkur framfærslukostnaði og hvort hækkun á greiðslubyrði lána er farin að hafa áhrif á framfærslugetu barnafólks.
Vonast til að heyra frá þér sem fyrst.
Kv.
Marinó
Glærur sem vísað er til í fyrirspurninni má finna hér: Staða íslenskra heimila í kjölfar bankahruns - Frekari niðurstöður greiningar Seðlabanka Ísalnds (.pdf) (sic)
Skemmst er frá því að segja, að svar hefur ekki borist. Fyrirspurnin var ítrekuð með símtali a.m.k. einu sinni, tvisvar þegar ég hef hitt Tjörva og loks með tölvupósti 6. nóvember. Er bagalegt þegar opinber aðili getur ekki svarað erindum sem honum berast, þó óformleg séu.
Staða mjög margra íslenskra heimila er slæm. Hún er raunar afleit. Þetta hefur ítrekað komið fram í könnunum og rannsóknum. Samkvæmt upplýsingum frá einum banka eru 30% lántaka meðal einstaklinga í erfiðri stöðu. Hjá öðrum banka hafa yfir 1.000 manns nýtt sér sérstök úrræði á um tveimur mánuðum! Þar var talið nauðsynlegt, svo hægt væri að hefja uppbygginguna, að "fólk sætti sig við eignatapið"! Það var ekki sagt að "bankinn og lántakar sættu sig við eignatapið". Nei, það voru bara lántakar sem áttu að sætta sig við að hafa tapað ævisparnaðinum! Er það nema von að endurreisnin gangi ekki.