Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.4.2010.
Jæja, þá er ég snúinn aftur úr bloggfríi. Vonandi hafið þið ekki saknað mín of mikið
Lögð hafa verið fram þrjú frumvörp á Alþingi. Eitt um breytingu á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, annað er að nýjum lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og þriðja frumvarpið er að lögum um umboðsmann skuldara. Í öllum þessum frumvörpum felst mikil réttarbót fyrir lántaka, þó svo að þau séu vissulega þeim annmarka háð, að hvergi er gerð nokkur tilraun til að viðurkenna þann forsendubrest sem orðið hefur.
Breytingarnar á lögum um tímabundna greiðsluaðlögun eru margþættar. Í fyrsta lagi er tekið á lánsveðum og þau felld undir greiðsluaðlögun lántakans. Þetta er fyrst og fremst réttarbót fyrir þann, sem lánaði veð í fasteign sinni. Ég er þó ekki alveg viss hvort og þá hvernig er tekið á því þegar lánið er líka fengið í gegn um þriðja aðila. Verið getur að slíkt verði túlkað sem lánsveð og meðhöndlað eftir því. Í öðru lagi er mikill bálkur sem fjallar um úrræði fyrir þá sem eiga tvær eignir og hafa ekki getað selt aðra. Þetta úrræði nær einhverra hluta vegna eingöngu til eigna sem keyptar eru fyrir 8. október 2008 og skilur því útundan, ef svo má að orði komast, fólk sem er að skipta um sambúðarform (hvort heldur að skilja eða hefja sambúð) og neyðist til að minnka eða stækka við sig. Margt er mjög gott í þessum hluta frumvarpsins, en mér sýnist ýmislegt megi gera til að bæta textann enn frekar. Bálkurinn um tvær eignir hefur takmarkaðan gildistíma, þannig að það er eins gott að frostið á fasteignamarkaðnum haldist ekki fram yfir þann tíma sem er 31.12.2011.
Frumvarp að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga færir greiðsluaðlögun einstaklinga út úr lögum um gjaldþrotaskipti yfir í sérlög. Lagatextinn er auk þess lagaður að þeirri breytingu sem á sér stað við stofnun umboðsmanns skuldara og þau úrræði sem hann mun hafa. T.d. verður greiðsluaðlögunarferlið fært inn til embættis umboðsmanns skuldara. Hjá umboðsmanninum verður alltaf fyrst reynt að ná frjálsum samningum um greiðsluaðlögunina, en takist það ekki verður það hlutverk dómara að koma á þvingaðri greiðsluaðlögun. Of langt mál er að fara í alla þætti frumvarpsins, en að mínu mati er hér mikið framfaraskref.
Loks er það frumvarp um umboðsmann skuldara. Vissulega vildi ég frekar, miðað við hlutverk embættisins, að það væri kallað umboðsmaður lántaka, þar sem umboðsmanninum er m.a. ætlað að hafa eftirlit með ýmsu í lánastarfsemi. Á vissan hátt má segja að hér sé verið að færa Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna í nýja búning, en nákvæmara er að segja, að ráðgjafastofan sér færð undan forræði fjármálafyrirtækjanna til aðila, sem á að hafa skoðun og taka afstöðu með lántakanum. Lántakar eru því að fá málsvara með nokkuð mikil völd. Hér er því annað mjög mikið framfaraskref fyrir almenning.
Í þessu öllu er þó enn og aftur verið að taka á einkennum þess sjúkdóms sem sýkt hefur stóran hluta þjóðlífsins. Þá á ég við stökkbreytingu höfuðstóls lána í kjölfar gengishrunsins 2008. Öll eru þessi úrræði góðra gjalda verð, en betra hefði verið, ef ráðist á sjúkdóminn sjálfan. Hann grasserar ennþá af fullum þunga og krefst sífellt fleiri fórnarlamba. Fyrir þau er búið að útbúa þessa fínu líknardeild með góðum tækjum og fullt af starfsfólki. En það er löngu tímabært að finna lækningu við sjúkdómnum og varna því þannig að fólk rati inn á líknardeild. Fjármálakerfið verður að taka á sig hina miklu leiðréttingu sem þarf að eiga sér stað. Það gengur ekki lengur, að almenningur þurfi að borga fyrir mistök manna sem höfðu greinilega ekki hundvit á viðskiptum.