Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.6.2010.
Í Morgunblaðinu í dag (fimmtudag) er rætt við formenn þingflokkanna og síðan Þór Saari og þeir spurðir hvaða verkefni séu mikilvægust það sem eftirlifir þings. Mig langar að vekja athygli á svari Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins:
"Það sem mestu máli skiptir er að ná fram frumvarpi sem Eygló Harðardóttir flytur um vexti og verðtryggingu," segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar. Í frumvarpinu felast breytingar á ákvörðun vaxta og hömlur á verðtryggingu lána og sparifjár.
"Hugmyndin er að menn nái tökum á þeirri verðbólgu sem nú er og megininntakið er að menn hætti að nota verðtrygginguna eins frjálslega og gert hefur verið," segir Gunnar Bragi.
Ég held ég geti ekki verið meira sammála nokkrum þingmanna á þessari stundu. Krafan um 4% þak á verðbætur húsnæðislána er kjarninn í kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna. Samtökin vilja að þetta þak sé afturvirkt til 1.1.2008 og verði notað til að leiðrétta forsendubrestinn sem orðið hefur á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Auk þess sjá samtökin ýmsa kosti við það að setja svona þak.
Fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur hafa alla tíð verið nokkuð stikkfrí í baráttunni fyrir stöðugleika. Ástæðuna má rekja til þess að þessir aðilar hafa fengið stóran hluta verðbólgutjóns síns bætt strax í formi verðbóta á verðtryggðar eignir sínar. Hagsmunasamtök heimilanna sjá fyrir sér að með 4% þaki á árlegar verðbætur vegna verðtryggingarákvæða, þá muni þessi hópur, þ.e. fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur, sjá hag sínum best borgið með því að halda verðbólgu lágri. Það er nefnilega þannig, að sé verðbólga undir 4%, þá eru fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendur ekki að tapa neinu á þakinu.
Mér finnst það alvarlegur hlutur, að viðskiptanefnd hefur ekki tekið frumvarp Eyglóar Harðardóttur til efnislegrar umræðu. Frumvarpið var lagt fram snemma á haustþingi, en síðan hefur ekkert verið gert. Vissulega var haldinn opinn fundur um verðtrygginguna um miðjan maí, en það er bara ekki nóg. Vil ég sjá frumvarp Eyglóar fara í gegn áður en þing fer í sumarfrí.
Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort frumvarpið væri komið lengra í umræðunni, ef flutningamaðurinn væri vinstra megin við miðju. Sé það ástæðan, þá held ég að niðurstöður sveitastjórnarkosninganna ættu að vera næg áminning fyrir stjórnvöld að almenningu vill ný vinnubrögð. Vinnubrögð þar sem málefnin eru í fyrirrúmi, en ekki hver átti hugmyndina. Bara svo það sé á hreinu, þá áttu Hagsmunasamtök heimilanna hugmyndina að þakinu og er samtökunum alveg sama um það hverjir það eru inni á þingi sem koma tillögum þeirra á framfæri.
Nú hefur seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, sagt að gjaldeyrishöftum verði líklegast aflétt eftir þriðju endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Reikna má með því að krónan taki dýfu, þegar höftin verða afnumin. Slík dýfa mun hafa í för með sér, a.m.k. tímabundna hækkun innfluttrar vöru með tilheyrandi hækkun vísitölu neysluverðs. Við vitum öll hvaða áhrif það hefur á verðtryggð lán. Með því að setja á 4% þak á árlegar verðbætur, þá fer þessi aðgerð Seðlabankans ekki verðtryggð húsnæðislán landsmanna. Komið verður í veg fyrir frekari samdrátt í neyslu og þar með skatttekna ríkisins. Komið verður í veg fyrir að eigið fé húsnæðiseigenda rýrni meira en þegar er gert. Með því að hafa þetta þak síðan afturvirkt til 1.1.2008, þá fá húsnæðiseigendur jafnframt bættan forsendubrest lánanna.
Byrjum á því að fá þak á framtíðar verðbætur húsnæðislána og notum það til að breyta lánakerfinu og jafnframt koma á stöðugleika í þjóðfélaginu. Það er fullreynt að ná þessum breytingum fram að frumkvæði fjármálafyrirtækjanna og því verður löggjafinn að grípa inn í. Einhverjir munu berjast um á hæl og hnakka, en með fullri virðingu, þá er engin skynsemi í því að ríghalda í núverandi verðtryggingarkerfi. Það hefur reynst illa, svo einfalt er það, fyrir alla nema þá sem eru með peningana sína verðtryggða einhvers staðar. Sjálfur togast ég á milli þess hvort sé betra að afnema verðtryggingu með öllu á húsnæðislánum eða innleiða svona þak. Ef þetta þak er rétt stillt og lækkar síðan samhliða auknum stöðugleika, þá hallast ég á að það gæti verið alveg jafn góð lausn og afnema verðtrygginguna með öllu. En hvor leiðin sem farin er, þá verður að tryggja, að fjármálastofnanir hækki ekki vexti lánanna upp úr öllu valdi í staðinn. Það væru hin dæmigerðu viðbrögð fjármálafyrirtækjanna. Ég vil ekki gera fyrirtækjunum upp viðbrögð og kannski, já kannski, eru renna upp nýir tímar með nýjum skipstjórum. Þar til annað kemur í ljós, þá ætla ég að reikna með því.