Umræða um persónukjör á villigötum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.6.2010.  Efnisflokkur:  Umræðan, Stjórnmál

Ég verð að taka undir með Þór Saari, að þessi umræða um persónukjör er komin út í algjöra vitleysu. Snýst þetta virkilega um kynjamál, en ekki lýðræði.  Það er minn lýðræðislegi réttur í dag að stroka út alla karla eða allar konur af þeim lista sem ég kýs.  Ekki eru nein lög sem banna það.  Af hverju halda femínistar að persónukjör verði konum óhagstætt?  Hefur hrunið ekki einmitt sýnt að karlar eru mun duglegri við að koma sér í vafasama stöðu.

Mér finnst að kosningar eigi að snúast um að velja hæfustu einstaklingana, þ.e. horfa til þess sem fólk hefur milli eyrnanna, en ekki fótanna.  Með fullri virðingu fyrir jafnréttissjónarmiðum, þá er lýðræðið æðra síðast þegar ég vissi.  Ef skikka á fólk til að velja jafnmarga af hvoru kyni, þá er ekki lengur um lýðræðislegt val að ræða.

Persónukjör á að snúast um að hægt sé að velja hvaða frambjóðanda sem er af hvaða lista sem er.  Hver kjósandi á að fá eitt atkvæði og síðan ræður hann hvort hann setur atkvæðið á einn lista í heild, dreifir því á fleiri lista eða velur einstakling(a) af einum eða fleiri listum.  Atkvæði (í heild eða brotum) gefið lista eða einstaklingi á lista telur fyrir viðkomandi lista.  Síðan ræðst röð einstaklinga innan listans af þeim atkvæðum sem einstaklingarnir fá.  Áfram er ákveðið á svipaðan hátt og nú hvað hver listi fær marga menn kjörna í hverju kjördæmi.  Frambjóðendur fá síðan kosningu eftir atkvæðaröð þeirra.  Atkvæði greitt lista eingöngu, en ekki einstaklingi getur annað hvort fallið á einstaklinga eftir röð sem listinn ákveður eða telur ekki þegar kemur að því að raða einstaklingum innan listans, sem er líklegast réttlátari leið.

Ég tek það fram, að ég er sterkur jafnréttissinni en það er ekki alltaf hægt að horfa á allt í gegn um kynjagleraugu.  Eina leiðin til þess er að hvert atkvæði væri tvískipt, þ.e. karlaatkvæði og kvennaatkvæði.  Þannig fengju karlar alltaf helming atkvæðanna, líka frá femínistunum í VG, og konur alltaf helming, líka frá karlrembum Sjálfstæðisflokksins.  Slíkt á samt ekkert skylt við lýðræði.  Höfum það á hreinu.

Annars er þetta frumvarp um persónukjör handónýtt eins og ég skil það.  Persónukjör á ekki að snúast um að flokkarnir geti flutt prófkjörin sín inn í kjörklefa alþingis- eða sveitastjórnarkosninga.  Það á að snúast um að ég sem kjósandi geti valið þá sem ég treysti best til verksins, hvar sem viðkomandi er í flokki.  Það er persónukjör, hitt er hefðbundin kosning með prófkjöri og er engin breyting frá því sem núverandi kosningalög leyfa, ef nógu margir kjósendur viðkomandi flokks eru tilbúnir að taka þátt í því.  Samkvæmt núgildandi kosningalögum get ég endurraðað á lista þess flokks sem ég kýs.  Eins og ég skil frumvarpið, þá er þetta enn ein aðferð flokkanna til að ráðskast með kjósendur og ríghalda í völdin.  Flokkarnir óttast að missa völdin til fólksins.  Með þessu frumvarpi er líka verið að gefa lýðræðisumbótum langt nef.  Vonandi hafa kosningarnar um síðustu helgi bent forystusauðum stjórnflokkanna á, að eina leiðin fyrir þau til að komast inn á þing eftir næstu þingkosningar er að kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á lista.


Færslan var skrifuð við fréttina:  „Lýðræðistal hjóm eitt"

Share