Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.2.2010.
Nú er fallinn dómur þar sem kveðið er úr um að verðtrygging lána við gengi, svo kölluð gengistrygging, sé á skjön við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, tjáir sig um þessa niðurstöðu í frétt mbl.is og segir þar:
Að vísu er það þannig að þessir samningar eru svo mismunandi þannig að það er ekki víst að það verði sama niðurstaðan með þá alla, vegna þess að í grunnin eru lán í erlendri mynt lögleg og enginn ágreiningur um það.
Ég veit ekki hvaða lán ráðherra kallar erlend lán, en langar til að rifja upp innihald færslu Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, sem birtist á eyjan.is 27. nóvember 2009. Nú er Gylfi hagfræðingur og hans sérsvið er því ekki lagatúlkun, Gunnlaugur er aftur löggiltur endurskoðandi og hefur það því að fullu starfi að velta fyrir sér merkingu laga um fjármál og bókhald. En skoðum hvað Gunnlaugur segir. Fyrst um krónuna sem eina lögmæta gjaldmiðil landsins:
Í fyrsta lagi má nefna lög nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Í fyrstu grein þeirra laga segir skýrlega: „Gjaldmiðill Íslands nefnist króna, er skiptist í hundrað aura.“ Í athugasemdum með frumvarpinu segir hreinlega um þessa grein: „Grein þessi þarfnast eigi skýringa“. Samkvæmt framangreindu er krónan hin íslenska eini lögmæti gjaldmiðillinn á Íslandi og því verður ekki séð hvernig innlendir aðilar hafi almennt heimild til að gera viðskiptasamninga sín á milli í öðrum gjaldmiðli en í íslenskum krónum.
Þá um muninn á innlendu láni og erlendu láni:
Sé framangreind tilvitnun í lög um gjaldmiðil Íslands skoðuð í samhengi við lög um gjaldeyrismál nr. 87/1992 skýrist myndin enn frekar. Í 1. grein gjaldeyrislaga er fjallað um það hverjir séu innlendir aðilar, hverjir séu erlendir aðilar þegar kemur að gjaldeyrismálum, hvað sé innlendur og erlendur gjaldeyrir, skilgreining á gjaldeyrisviðskiptum, fjármagnshreyfingum ofl. Lögin og reglugerðir tengdar þeim fjalla svo um meginreglur um gjaldeyrisviðskipti, fjármagnsflutninga milli landa ofl., hvaða viðskipti séu háð takmörkunum og hvaða viðskipti séu það ekki. Í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins sem síðar varð að lögum segir m.a. um 1. greinina: „Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í…….Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent“ (leturbreyting Gunnlaugs)
Og hann heldur áfram;
Minn skilningur á framangreindu er eftirfarandi: Þau lán sem lánastofnanir hér á landi hafa lánað íslenskum aðilum og einstaklingum eru ekki erlend lán heldur innlend og engin gjaldeyrisviðskipti á grundvelli laga um gjaldeyrismál eiga sér í reynd stað vegna þeirra. Þegar veitt er lán eða greitt er af láni í meintri erlendri mynt og greiðslan á sér stað í íslenskum krónum þá er ekki farið á markaðinn og erlendum gjaldeyri skipt til að greiða út lánið eða borga af láninu, einungis er um að ræða uppreikning miðað við gengi íslensku krónunnar á greiðslu- eða afborgunardegi. Gjaldeyrisviðskipti eiga sér hins vegar stað þegar lánastofnunin tekur lán eða greiðir af sínu láni til hins erlenda aðila eða þegar lánastofnunin skiptir erlendu láni sínu yfir í íslenskar krónur.
Þá ræðir hann um eðli skuldbindingar í viðskiptum tveggja innlendra aðila:
Menn semja sig ekki frá lögunum með þeim hætti að snúa hlutunum við og setja fram í skuldabréfi skuld í erlendri mynt, borga lánið út í íslenskum krónum, halda því fram að skuldin sé í erlendri mynt og reikna svo út skuldina miðað við gengi íslensku krónunnar á hverjum tíma. Útkoman er nákvæmlega sú sama og ef um er að ræða skuldabréf í íslenskri mynt með gengistryggingu við erlenda gjaldmiðla. Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins... Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.
Mér finnst rökstuðningur Gunnlaugs vera nokkuð traustur. Mikið væri gott, ef fólk sem situr í sínum embættum í umboði þjóðarinnar (þó Gylfi sé ekki þjóðkjörinn, þá eru ráðherra í embættum sínum í umboði þjóðarinnar) gæti a.m.k. við og við tekið upp hanskann fyrir þjóðina. Það er orðið virkilega þreytandi hvað hann tekur ALLTAF afstöðu með fjármálafyrirtækjum í þessu máli.
Önnur ákvæði laga sem hafa áhrif
Ég hef í gegn um tíðina rifjað upp fjölmargar lagagreinar sem skipta máli þegar kemur að lögmæti krafna fjármálafyrirtækja vegna annars vegar gengistryggðra lána og hins vegar verðtryggðra lána. Langar mig að rifja þennan lista upp hér:
Lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, 2. gr., 13. gr. og 14. gr. skipta hér sköpum, en einnig
Lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar er fyrst og fremst 36. gr., en einnig 30. gr., 31. gr. og 38. gr.
Lög nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, í 9. gr. er fjallað um að víkja megi til hliðar fjárhagslegri tryggingarráðstöfun (t.d. veði), í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig.
Lagalegar stoðir fyrir málstað okkar um leiðréttingu lánanna eru margar. Það sem meira er, þeim fjölgar með hverjum deginum. Það verða þó ekki þessar lagastoðir sem munu hafa úrslitaáhrif í málinu fyrir Hæstarétti, heldur hvernig málsaðilum tekst að spila úr lögunum og sannfæra dómara Hæstaréttar. Við þurfum mögulega að leggja Pacta lögmannsstofu lið með því að grafa upp öll þau ákvæði laga, sem stutt geta málið. Skora ég á fólk að taka þátt í því. Þetta snýst um að fornkveðna: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér!