Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.2.2010.
Það ber að fagna þessari niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Í dómnum er tekið undir þau sjónarmið sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á síðustu 10 mánuði. Eins og kemur fram í annarri færslu hjá mér frá því fyrr í kvöld um þetta mál (sjá Gengistrygging dæmd ólögleg!), þá er á morgun (13. febrúar) nákvæmlega ár síðan ég vakti fyrst athygli á ákvæðum 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Síðan hafa margir mér fróðari í lögum tekið undir málflutning minn og röksemdarfærslu og nú síðast Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari. En ég við vara við, að þetta mál á eftir að fara fyrir Hæstarétt og í dómnum er ekkert kveðið á um hvað á að koma í staðinn.
Verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti, þá mun hann hafa gríðarleg áhrif. Fjármögnunarleigufyrirtæki munu líklegast öll verða gjaldþrota, fjölmargir aðilar munu eiga skaðabótarétt á hendur fyrirtækjunum fyrir ofinnheimtu afborgana eða röng uppgjör á bílasamningum. Aðrir sem tóku gengistryggð lán, bæði einstaklingar og fyrirtæki, munu eiga kröfu um leiðréttingu lána sinna. Það gæti orðið til þess að hrikti verulega í bankakerfinu. Höfum þó í huga að nýju bankarnir eru að mestu búnir undir að svona gæti farið, þannig að þeir munu lifa af. Mestu áhrifin verða þó líklegast fólgin í því, að fjölmörg fyrirtæki og heimili munu færast frá því að vera komin í þrot eða nálægt því að vera að þrotum komin yfir í það að vera bara í góðum málum.
Ég held að það sé mikilvægt fyrir fjármálafyrirtæki að takmarka skaða sinn eins mikið og hægt er. Vissulega gæti Hæstiréttur snúið dóminum við, en miðað við að hann var vel rökstuddur, þá finnst mér það ólíklegt. Í mínum huga þá tel ég það eina rétta sem bankarnir geta gert er að koma til viðræðna við hagsmunaaðila um sanngjarna og réttláta lausn. Það er nokkuð sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum óskað eftir í rúmt ár. Ennþá er hægt að semja, en hafa verður í huga að samningsstaða lántaka er orðin mun sterkari eftir dóminn í dag.