Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.4.2010.
Í þriðja eða fjórða sinn frá landnámi norrænna manna er hafið gos í Eyjafjallajökli. Síðast gaus 1821 - 23, en einnig er staðfest að gosið hafi á 17. öld og líklegast á 10. öld. Menn hafa hingað til tengt Kötlugos við gos í Eyjafjallajökli, en mig langar að skoða tengsl stærri hamfara, þ.e. gosin í Eldgjá og Lakagígum.
Talið er að Eyjafjallajökull hafi gosið 920 eða eingöngu 14 árum áður en hamfaragosið í Eldgjá hófst 934. Það eru kannski ekki margir sem átta sig á því (og alls ekki blaðamaður mbl) að Eldgjárhraunið er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma á Íslandi. Umfang hraunsins sem rann þá, er 800 ferkílómetrar og 16 - 18 rúmkílómetrar. Það er því stærra en hraunin sem komu upp í Skaftáreldum sem var 580 ferkílómetrar og 14 - 16 rúmkílómetrar. (Vil ég benda blaðamanni Morgunblaðsins á að leiðrétta frétt sína hvað þetta varðar.) Nú eldgosið í Eyjafjallajökli árið 1821 hófst rétt um 40 árum eftir Skaftárelda. Af þessum sökum, út frá fræðum áhættustjórnunar, er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að hamfaragos á borð við Skaftárelda og Eldgjárgos gæti hafist á næstu áratugum. Og þó svo að lengra sé í slíkt hamfaragos, þá þarf að útbúa viðbragðsáætlun vegna þess, sé hún ekki nú þegar til staðar.
Við stöndum frammi fyrir því að mikið gos er hafið í hættulegri eldkeilu, Eyjafjallajökli. Það er þekkt að annað eldfjall, Katla, fylgir gjarnan á eftir með gos. Þó svo að Kötlugos standi yfirleitt ekki yfir lengi, þá eru nokkrar vikur alveg nóg. En þetta eru ekki einu eldgosin sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Eins og nefni að ofan, þá hafa tvö stór hamfaragos tengst (af tilviljun eða ekki) gosum í Eyjafjallajökli. Bæði þau gos spúðu eldi og eimyrju í marga mánuði. Slík gos myndu leggja af allt flug með þotum ekki bara í marga daga eða vikur, heldur mánuði eða ár. En það er eitt í viðbót, sem nauðsynlegt er að taka til skoðunar. Eldgos á Reykjanesskaga. Þar virðist sem í gangi sé 1000 ára hringur. Síðasta hrina hófst fyrir rúmlega 1000 árum og stóð til 1234 með gosum á mismunandi stöðum. Ég fjallaði um þetta í færslu hér í fyrra, en á sagði ég um gos á Reykjanesskaga:
Annað sem rétt er að hafa í huga, er að eftir að gliðnunin hefur átt sér stað, þá þarf að fylla upp í, þ.e. gliðnunin kallar á eldgos! Ég veit ekki hve margir gera sér grein fyrir því, en mörg hraun alveg frá Garðabæ og suður á Reykjanestá eru um og innan við 1000 ára gömul. Það sem meira er, að vitað er að eldgosahrinur verða á þessu svæði á um 1000 ára fresti. Loks eru það gömul sannindi að "þar sem hraun hafa runnið, geta hraun aftur runnið".
Fyrir tveimur árum hóf ég að rita færslu, sem ég lauk aldrei við, undir heitinu Hættumat og þjóðaröryggi. Nú sýnist mér þörf á að ljúka við hana í ljósi þeirra náttúruhamfara sem hófust fyrr í vikunni og munu hugsanlega valda meiri truflun á daglegu lífi okkar næstu vikur og mánuði en við gerum okkur í hugarlund.
(Höfundur er sérfræðingur í áhættustjórnun af ýmsu tagi, stjórnun upplýsingaöryggis og stjórnun rekstrarsamfellu.)