Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.5.2010.
Ég verð að furða mig á þessari miklu athygli sem Morgunblaðið og mbl.is veita útspili SP-fjármögnunar. Ennþá meira er ég hissa á hinni gagnrýnislausu "fréttaskýringu" sem þessi færsla er hengd við.
Skoðum það sem gleymdist að spyrja Harald Ólafsson, forstöðumann verkefna- og þjónustusviðs SP-fjármögnunar, í þessari "fréttaskýringu":
1. Hvers vegna kemur SP-fjármögnun með þetta tilboð núna, þegar liggur fyrir að Hæstiréttur mun taka fyrir mál vegna lögmæti gengistryggingarinnar 2. júní næst komandi og félagsmálaráðherra er tilbúinn með frumvarp sama efnis?
2. Hverjar eru viðmiðunardagsetningarnar sem notaðar eru til að finna út hve mikil lækkun höfuðstóls hvers láns fyrir sig er?
3. Nú segið þið í upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins að greiðslubyrði mun að jafnaði standa í stað eða lækka. Eru dæmi um að greiðslubyrðin muni hækka við þessa breytingu?
4. Vextir á verðtryggðum lánum verða 7,95% og óverðtryggðum 12,65%. Hve mikil breyting er þetta á vaxtakjörum?
5. Nú hefur íslenska krónan styrkst talsvert á undanförnum dögum og vikum. Hvaða forsendur gefur fyrirtækið sér um styrkingu krónunnar á næstu vikum og mánuðum?
6. Með því að breyta láni úr gengistryggingu í verðtryggt eða óverðtryggt krónulán, þá má segja að SP-fjármögnun njóti þess ef krónan heldur áfram að styrkjast. Kom ekki til greina að láta lántakann njóta styrkingar krónunnar? Ef ekki, hvers vegna?
7. Munu þeir fyrrverandi viðskiptavinir SP-fjármögnunar, sem hafa verið vörsluskiptir bifreiðum sínum, fá að njóta þeirrar lækkunar á höfuðstóli lánanna, sem hér er verið að bjóða?
8. Mun SP-fjármögnun leiðrétta afturvirkt uppgjör vegna bifreiða sem fyrirtækið hefur tekið til baka?
9. Mun fyrirtækið fella niður/leiðrétta kröfur á lántaka sem sitja uppi með eftirstöðvar lána en enga bifreið?
Ég gæti bætt inn nokkrum augljósum spurningum til viðbótar, sem mér hefði þótt eðlilegt að blaðamaður hefði lagt fyrir Harald, en læt það ógert. Metnaðarleysið í þessari "fréttaskýringu" að hún stenst ekki lágmarkskröfur til fréttaskýringar og er nær að kalla þetta fréttatilkynningu eða auglýsingu.
Þessi svo kallaða fréttaskýring verður síðan ennþá vafasamari, þegar maður flettir Mogganum. Þar birtist hún á blaðsíðu 6 og hvaða auglýsing ætli sé á blaðsíðu 5? Jú, heilsíðuauglýsing frá SP-fjármögnun um höfuðstólslækkunina!!!! Þetta er svo klaufalegt af hálfu Morgunblaðsins, að það er með ólíkindum. Það er grundvallaratriði í ritstjórn að vera ekki með svona tengingu milli ritstjórnarlegs efnis og auglýsinga. Kannski er þetta tilviljun og ég vona það innilega. Þetta lítur að minnsta kosti heldur ógæfulega út.