SP-fjármögnun krafsar í bakkann

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.5.2010.  Efnisflokkur:  Skuldaúrræði

Hún er furðuleg sú ályktun blaðamanns að SP-fjármögnun hafi riðið á vaðið.  Fyrirtækið stendur frammi fyrir tveimur niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur.  Annarri frá því 12. febrúar, þar sem Áslaug Björgvinsdóttir settur héraðsdómari úrskurðar að gengistrygging sé ólögleg, og hinni frá 30. apríl, þar sem Jón Finnbjörnsson héraðsdómari úrskurðar að ekki sé gengistryggingin bara ólögleg heldur skuli engin önnur verðtrygging koma í staðinn, en lánasamningurinn skuli að öðru leyti standa.  Auk þess hefur fyrirtækið hangandi yfir sér lagasetningu (en mér skilst að frumvarpið sé samið af lögfræðingum SP-fjármögnunar) sem skikkar fyrirtækið til að gera það sem það er bjóða.

Horfum til baka hálft ár og rifjum upp framburð forstjóra SP-fjármögnunar fyrir dómi.  Þar lýsir blessaður maðurinn síendurteknum brotum fyrirtækisins á starfsleyfi þess og heldur fram alls konar hlutum sem ekki hljóta stuðning í ársreikningum fyrirtækisins.  Staðreynd málsins er að SP-fjármögnun var gjörsamlega búið að mála sig út í horn (eða skíta upp á bak) og þeir eru að reyna að leika einhvern goody guy til að skora stig.  Í færslu (sjá Tilboð SP-fjármögnunar: Of lítið, of seint) við aðra frétt um þetta efni (mbl.is virðist vera mjög umhugað um þetta án þess að koma með eina einustu gagnrýni á innihaldið) frá því í gær fer ég betur yfir þetta mál.  Þar bendi ég m.a. á að enn einu sinni er verið að flytja gengisáhættuna yfir á viðskiptavininn, þrátt fyrir að það sé andstætt öllum grunnreglum um bankaviðskipti.  Þá er ekkert í tilboði SP-fjármögnunar sem vísar til þess að fórnarlömb fyrirtækisins undanfarin ár eigi rétt á leiðréttingu sinna mála.  Loks bendi ég á, að 7,95% verðtryggðir vextir eða 12,65% óverðtryggðir vextir til viðbótar við að fyrirtækið ætlar að hirða gengisstyrkinguna flokkast seint undir kosta kjör.

Bæði "tilboð" SP-fjármögnunar og frumvarp félagsmálaráðherra (miðað við það sem ráðherra hefur sjálfur sagt um það) eru ámátlegar tilraunir til að festa eignaupptökuna og forsendubrestinn.  Að mönnum skuli detta í hug að koma með svona tillögur og kalla það réttarbót fyrir neytendur er hrein ósvífni.  Ég skil heldur ekki ráðherra að þora ekki að bera frumvarpið undir aðila eins og Hagsmunasamtök heimilanna.  Nei, SP-fjármögnun var beðin um að semja frumvarpið (samkv. gorti forstjóra fyrirtækisins).  Þreytast stjórnmálamenn aldrei á því að gera vitleysur?  Er mönnum fyrirmunað að skilja, að heimilin og fyrirtækin vilja lausnir á sínum forsendum, ekki á forsendum fjármálafyrirtækjanna.  Skilja stjórnmálamenn ekki, að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna eru búnir að fá nóg af skítnum og spillingunni sem vellur út úr fjármálakerfinu og telja að nú sé kominn tími til að fjármálakerfið fari að haga sér eftir forskrift okkar, viðskiptavina þess.


Færslan var skrifuð við fréttina: SP ríður á vaðið með lækkun lána